Skip to main content
Tíðindi

Þetta má þakka tilkomu Wow Air

  31/08/2012No Comments

Fararheill hefur lengi vel básúnað nauðsyn þess að samkeppni ríki hér á landi í fluginu og reglulega birt greinar og úttektir sem sýna hið andstæða. Nú horfir svo við að í frá júníbyrjun til júlíloka segir Hagstofa Íslands að flugfargjöld hafi lækkað um heilan fjórðung. Frábærar fréttir sem má næsta alfarið þakka nýjasta flugfyrirtæki landsins; Wow Air.

Flugfargjöld hafa lækkað um 25 prósent í sumar. Það telur ritstjórn Fararheill næsta alfarið að þakka meiri samkeppni frá Wow Air

Skýtur reyndar skökku við að Iceland Express gumi sig af þessari lækkun á vef fyrirtækisins því þótt það fyrirtæki hafi vissulega tekist á við nýjan samkeppnisaðila með góðum tilboðum og lækkun almennt á fargjöldum þá er það meira til að kaffæra samkeppnina en hitt.

Vissulega hófu fleiri flugfélög flug til og frá landinu í byrjun júní en Wow Air og hafa eflaust haft einhver áhrif til lækkunar. Norwegian, EasyJet, Transavia, AirBerlin og fleiri hafa í sumar flogið til og frá en þó takmarkað. Aðeins Wow Air er raunverulega að keppa á innlendum markaði við Iceland Express og Icelandair.

Enn ein ástæða til að ferðast aldrei með einu og sama flugfélaginu. Alveg sama hversu frábært það er. Það kallar aðeins á sömu fákeppnina og réð hér ríkjum um árabil.