
Enn glímir Wow Air við afleiðingar þess að ein véla þeirra bilaði á föstudaginn var
Fimm sólarhringar síðan ein véla flugfélagsins Wow Air bilaði með þeim afleiðingum að miklar tafir urðu á allri áætlun í kjölfarið. Enn eru töluverðar tafir hjá flugfélaginu.
Eins og sést á meðfylgjandi mynd voru allar brottfarir Wow Air frá Keflavík í morgun töluvert á eftir áætlun. Vél félagsins til Berlínar sem átti að fara í loftið klukkan 06:10 lagði ekki í hann fyrr en klukkan 09:14 eða rúmlega þremur stundum síðar.
Það er tími sem farþegar í því flugi ættu að leggja á minnið því það er við þriggja klukkustunda seinkun sem hugsanlegar skaðabætur fara að kikka inn. Lágmarksbætur fyrir tafir eða seinkun á styttri flugleiðum eru tæpar 40 þúsund krónur að lágmarki.
En burtséð frá bótum þá þurfa menn hjá Wow að gæta sín. Það var nefninlega með þessum sama hætti sem áætlanir Iceland Express fóru fjandans til dögum og vikum saman þegar sá aðili var og hét og hafði ekki lítið slæmt umtal í för með sér.
Þó upplýsingafulltrúi Wow Air hafi lýst því yfir á föstudaginn að líklega tækist að koma áætlunarflugi félagsins í skorður á ný daginn eftir (laugardag) glímir flugfélagið enn við tafir og það kemur alls ekki á óvart á þessum bænum.
Wow Air hefur aðeins fimm vélar alls til umráða og þar sem ekki liggur ljóst fyrir hvort sú sem bilaði á föstudaginn var er komin í loftið á ný gæti allt eins verið að fyrirtækið sé að keyra allt sitt áætlunarflug á fjórum vélum. Þegar haft er í huga að flotinn er keyrður í botn og vélar þeirra stoppa sjaldan lengur en örfáar klukkustundir er auðvitað skrambi erfitt að vinna upp tapaðan tíma. Sem útskýrir hvers vegna ennþá nú, fimm sólarhringum síðar, eru enn vandamál til staðar.