Ætli astma- eða öndunarfærasjúklingar séu mikið að hanga á bekk og njóta lífsins í miðborg Lundúna, Kaíró eða Peking? Ólíklegt enda dagleg loftmengun í þessum borgum þúsundfalt yfir heilsuverndarmörkum og enginn vill stytta ævina að gamni sínu. Sömu einstaklingar ættu alfarið að sleppa siglingum með skemmtiferðaskipum af sömu ástæðu.

London á góðum sumardegi. Útsýnið skert verulega og lífið líka ef þú andar þessu lofti að þér.
Rannsóknarteymi bresku sjónvarspsstöðvarinnar Channel 4 ákvað nýlega að mæla mengun um borð í skemmtiferðaskipum heimsins en siglingar með þeim skipunum eru vinsælli en tónleikar Justin Bieber.
Þar sannast mikilvægi alvöru blaðamennsku þó ekki sé nema vegna þess að engin eftirlitsstofnun í neinu landi kannar loftmengun skemmtiferðaskipa á heimshöfunum. Það er jú alþjóðlegt svæði og enginn ræður ríkjum eða setur reglur.
Kannski væri þó óskandi að einhver alþjóðastofnun setti reglur því samkvæmt mengunarmælingum Channel 4 um borð í skemmtiferðaskipum getur mengunin verið MIKIÐ VERRI en í allra menguðustu borgum heimsins. Það er sem sagt svipuð eða meiri mengun um borð í stórum skemmtiferðaskipum og í miðborg Lundúna, Kaíró og Peking á háannatímum. Og auðvitað anda skælbrosandi farþegar öllum viðbjóðnum að sér.
Rannsóknin beindist fyrst og fremst að svokölluðum smáögnum í lofti eða því sem oftast er kallað svifryk. Svifryk getur orðið svo smátt að það á greiða leið inn um öndunarvegi og niður í lungu fólks þar sem það gerir usla þangað til fólk deyr drottni sínum langt fyrir tímann.
Í ljós kom að á sólbaðsþilförum næst útblástursstrompum stærri skemmtiferðaskipa mældist mengun í lofti allt að 144 þúsund míkrógrömm á rúmmetra. Það segir okkur auðvitað ekki neitt nema við séum svifryksfræðingar. En það varpar kannski oggupons ljósi á vandamálið að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gefur gjarnan út viðvaranir þegar svifryksmengun mælist 500 míkrógrömm á rúmmetra.
Sem á mannamáli merkir að þú ert að stytta lífið heil ósköp með skemmtisiglingu. Jafnvel þótt þú skemmtir þér brilljant og hlátur lengi lífið 😉