Kjaftfullt af dásamlegum strandsvæðum í þessu mikla landi Tyrklandi

Þ eir fáu sem hafa látið sig hafa utanlandsferð síðustu dægur og mánuði hafa líklega fengið beint í andlitið að íslenska krónan hefur gefið verulega eftir nánast allt síðasta ár. Allt á Tenerife og Rimini er nú töluvert dýrara en áður var. En þetta er ekki raunin alls staðar sem betur fer.

Ein skitin evra fékkst í bankanum á 134 krónur fyrir sléttum tveimur árum. Nú selst hver evra á 153 krónur. Á mannamáli er þannig allt sem þú kaupir í evrulöndum tæplega 15% dýrara nú en í aprílmánuði 2019. Enginn heimsendir en það munar um allt á þessum síðustu og verstu.

Krónan ekki verið sterkari gagnvart tyrkneskri líru um aldaraðir en núna.

Þetta gildir meira og minna um alla alvöru gjaldmiðla gagnvart krónunni. Það þarf drjúga leið að fara til að finna súperáfangastað þar sem krónudruslan hefur ekki aðeins haldið sínu heldur bætt um betur. Staðir sem eru ódýrari nú en þeir voru fyrir Kófið.

Nei, við ekki að tala um Simbabwe eða Búrma heldur Tyrkland. Þar er harðstjórinn Ordegan loks að bíta úr nálinni með því að raða já-mönnum í helstu stöður síðustu árin og allt þar í tómu tjóni. Svo miklu tjóni að við með okkar sorglegu örkrónu höfum ekki fengið fleiri tyrkneskar lírur per krónu frá upphafi mælinga. Sem auðvitað merkir að allt í Tyrklandi er nú töluvert ódýrara en verið hefur og var þó flest þar ódýrt fyrir.

Stóra spurningin

En sjaldan er kálið sopið. Súpergott verðlag í Tyrklandi nýtist Frónbúum lítt því þangað eru engar beinar flugferðir. Þaðan af síður pakkaferðir.

En hvernig er þangað komist fyrir lítinn pening? Svarið við því, eftir úttekt Fararheill, er Berlín í Þýskalandi.

Sjáðu til, þangað er komist næstu mánuðina þokkalega ört með Icelandair fyrir þetta 40 þúsund kall eða svo fram og aftur. Ekkert súperverð þangað en frá Berlín til Istanbúl og til Berlínar aftur frá Istanbúl kostar aðeins fimmtán til 20 þúsund kall langt fram eftir árinu. Það fargjöld sem lággjaldaflugfélagið Pegasus er að bjóða á fjölmörgum dagsetningum í vor, sumar og vetur.

Þannig er komist til hinnar ágætu Istanbúl og jafnvel áfram til betri strandstaða fyrir rúmar 60 þúsund krónur á kjaft. Sem kannski er ekkert súper heillandi verð en ekki gleyma að krónurnar þínar duga miklu lengur og betur í Tyrklandi en á Kanaríeyjum. Smá vesen er þess vegna þess virði 🙂

Vefur Icelandair. Vefur Pegasus.