Sennilega er auðveldara að ætla sér að lýsa litrófinu fyrir blindum en tyrknesku stórborginni Istanbúl fyrir áhugasömum. Það helgast af því að borgin, sem er með þeim stærstu í Evrópu allri, er svo einstök á margan hátt og frábrugðin mörgu sem þætti eðlilegt í öðrum borgum álfunar að erfitt er að færa í skiljanlegan búning það sem hún hefur upp á að bjóða.
Fyrir það fyrsta er hún stærsta borg Tyrklands með 16 milljónir íbúa samkvæmt opinberum tölum en fræðingar vilja þó meina að heildarfjöldi allra sem þar búa sé nær því að vera 20 milljónir. Istanbúl er höfuðstaður fjármála og menningar í landinu þó hún taki annað sæti gagnvart Ankara hvað stjórnsýslu varði. Lega borgarinnar er stórfengleg báðum megin Bosporussunds og hún tengir Evrópu og Asíu bæði bókstaflega og huglega.
Ferðamannaiðnaður er gríðarmikill í Tyrklandi og hvergi meiri en í Istanbúl. Götusölumenn eru óþreyttir að elta ferðalanga og bjóða þeim gull og græna og geta orðið pirrandi kringum helstu ferðamannastaði. Þeir hverfa þegar líða fer á haust og þá er einmitt hvað besti tíminn til heimsóknar. Hitastigið komið niður fyrir 30 gráður og loftraki minnkað til muna. Þá eru og mun færri ferðamenn á þvælingi og verðlag allt á hótelum, að söfnum og á minjagripum lækkar til muna. Þó skal hafa í huga að í Istanbúl snjóar þegar langt er komið fram á vetur.
Borgin skiptist gróflega í eftirtalin hverfi:
- Asíuhlutinn er austari hluti borgarinnar með íbúðahverfi eftir öllum ströndum bæði Marmarahafs og Bosporus sunds.
- Bosporus er hverfi velmegunar og þar má finna mörg af markverðustu kennileytum borgarinnar.
- Galata hverfið hýsir flesta og bestu næturklúbba og bari Istanbúl. Þar er mikið líf öllum stundum.
- Gullhornið er það svæði sem skilur evrópska hluta Istanbúl í smærri hverfi.
- Nýborg heitir fjármálahverfi borgarinnar og þar eru líka helstu verslunarhverfin staðsett.
- Princes Islands (Prens Adalan) kallast klasi níu eyja útifyrir borginni. Þar má finna hvað besta útsýn til borgarinnar og ekki skemmir að þar er öll umferð vélknúinna ökutækja bönnuð.
- Sulthanamet er elsta hverfið og æðisleg blanda arkitektúrs og menningar frá heimsveldum Rómverja og Ottómana. Þarna eru frægustu ferðamannastaðir Istanbúl.
- Vesturhverfin eru íbúðahverfi vestan til Evrópumegin.
Ratvísi
Istanbúl er risastór og þar er mjög auðvelt að villast. Reyndar hjálpar að víða er útsýn til sjávar en ranghalar, þröngar götur, umferð, læti og mannþröng getur auðveldlega svipt ferðamenn allri ratvísi. Nauðsynlegt er að hafa með sér gott kort af borginni jafnvel þó ætlunin sé aðeins að skoða helstu ferðamannastaði. Einnig er vænlegt að kynna sér helstu kennileyti áður en lagt er í hann. Gerðu það hér. Undir engum kringumstæðum leitaðu upplýsinga á götu úti. Fjölmargir sitja um ferðamenn í gróðavon og ýmsar sögur ganga um hjálpsemi heimamanna sem svo reynist aðeins svindl eitt.
Til og frá Istanbúl
Alþjóðaflugvöllur Istanbúl er Istanbul Atatürk flugvöllur en annar minni sem gjarnan er notaður af lágfargjaldaflugfélögum er Sabiha Gökçen flugvöllur.
Istanbul Atatürk liggur 20 kílómetra frá borginni til vesturs. Einfaldasta og fljótlegasta leiðin inn í borgina er með leigubílum frá flugstöðinni en far í miðbæinn kostar 30 tyrkneskar lírur, 2.000 krónur, og tekur í besta falli um 20 mínútur en 40 mínútur eru nærri lagi. Hraðstrætó, Havas, fer einnig frá flugstöðinni á 30 mínútna fresti til Taksim. Farið kostar 700 krónur. Aðrir möguleikar fela í sér að skipta þarf um vagna eða yfir í sporvagn á leiðinni inn í bæinn og taka því lengri tíma auk þess sem leiðinlegt er að dröslast slíkt með farangur. Það er þó töluvert ódýrara. Lest gengur frá vellinum til Aksaray þar sem sporvagn getur farið með þig áfram gegnum hverfin Sultanahmet, Eminönu og Tophane sem eru hvað líklegastir áfangastaðir ferðamanna. Slíkt ferðalag kostar aðeins 200 krónur en tekur líka um klukkustund.
Frá Sabiha Gökçen flugvelli tekur um klukkustund að komast í bæinn. Sá er í Anatolíu og ganga Havas vagnarnir þaðan og til Taksim fyrir 860 krónur. Ódýrari kostur er að taka strætisvagn E10 til Kadikoy og ferju þaðan til Eminonu eða Karikoy. Sú ferð léttir veskið um 400 krónur en tekur einn og hálfan tíma. Leigubílar eru fljótlegasti kosturinn sem fyrr en það er vart ódýrara en 3000 krónur.
Til umhugsunar: Reynsla ferðalanga er sú að verðlag á báðum flugvöllunum við Istanbúl er fáránlega hátt miðað við verðlag almennt í landinu. Kaffi eða bjór er á þreföldu verði hið minnsta.
Verslun og viðskipti
Vart þarf að taka fram að þeir sem á annað borð versla í Tyrklandi koma heim með leðurvörur, teppi, krydd, skartgripi eða keramikvörur en Tyrkir framleiða fyrsta flokks vörur í öllum þessum flokkum. Þeir eru þó engir aukvisar þegar kemur að skóm eða fatnaði eins og almennur klæðnaður borgarbúa ber með sér. Föt og skór eru mun ódýrari en á Íslandi en hafðu varann á þar sem margar verslanir selja falsaðar vörur.
Skemmst er frá að segja að til að verða sér úti um fyrrnefndu vöruflokkana fimm eru markaðir Istanbúl bestu staðirnir til þess arna. Úrvalið gríðarlegt í öllum flokkum og yfirleitt hægt að prútta í flestum básum. Vissulega má finna smærri verslanir víða um borgina sem einnig er þess virði að skoða en sé tilgangurinn ekki að eyða miklum tíma til verslunar eru markaðarnir bæði bestir og skemmtilegastir.
Séu minjagripir á óskalistanum er best að rölta um Sultanahmet og Beyoğlu en þar er gnótt slíkra verslana. Stórverslanir eru nýtilkomnar í landinu en þær helstu eru Vakko og Beymen. Pazar kallast smærri verslunarmiðstöðvar og má jafnan gera ágæt kaup þar og úrvalið fínt. Þær má finna víða um borgina.
Til umhugsunar: Stjórnvöld taka mjög hart á tilraunum til að fara með menningarverðmæti úr landi en komið hefur fyrir, óvart, að ferðafólk hefur keypt slíka gripi á mörkuðum eða í verslunum. Hart er tekið á slíku og fangelsisdómur líklegur. Best að láta allt vera sem fólk er ekki alveg viss um.
Samgöngur og snatterí
Þvælingur um borgina gæti verið auðveldari. Víst er lítill skortur á strætisvögnum, nýjum og gömlum sporvögnum, neðanjarðarlestum og reglulegum bátsferðum en fyrir gesti er kerfið flókið og leggja þarf töluvert á sig til að læra það. Hægt er þó að spara góðar upphæðir með því móti. Sé ætlunin að nota samgöngutæki stöku sinnum er einfaldast að fara inn á heimasíðu samgöngufyrirtækis Istanbúl og nota þar ferðaskipuleggjarann. Hann er þó aðeins nothæfur ef þú þekkir nöfn þeirra gatna sem þú vilt sækja. Sjá hér.
Kaupa verður svokallað token til nota í almenningsfarartækjum borgarinnar. Slíkt er hægt að kaupa í sjálfsölum,sjoppum og á lestar og rútustöðvum. Hver token kostar 120 krónur og gildir í öll samgöngutæki á vegum borgarinnar. Á sölustöðum fást rafrænir afsláttarmiðar, Akbil, sem sparar skildinginn ef þú ert að þvælast um borgina lengur en þrjá daga en borgar sig lítt ef dvalið er skemur en það. Þú getur fengið fyrirfram greitt Akbil kort eins lengi og þú vilt. Kortin gilda þó aðeins í IETT vagna (sjá neðar).
Til umhugsunar: Ef þú vilt bara njóta þess allra besta og slaka á er í raun aðeins þörf að muna strætisvagn númer T4. Sá tengir Sultanahmet við Taksim torg gegnum Beyoglu og Istiklal Caddesi sem eru helstu næturklúbbahverfin.
Sporvagnar hafa ferjað íbúa Istanbúl frá 19. öld en alvarleg tilraun til að koma upp góðu neti slíkra vagna hófst ekki fyrr en 1990. Í dag er kerfið evrópumegin í borginni afar gott og öruggt og unnið er að því að lengja og breikka netið Anatólíumegin með göngum undir Bosporus sundi.
Neðanjarðarlestarkerfi er hér líka þó aðeins sé um tvær línur að ræða. Önnur línan, norður, er stutt og nýtist ferðamönnum lítt en suðurlínan tengir Aksaray við Atatürk flugvöll. Kerfið er allt nýlegt og allar stöðvar vel upplýstar og tiltölulega öruggar.
Fjölmargar ferjur og bátar fara reglulega yfir Bospurus sundið og kostar sú ferð það sama og í önnur farartæki borgarinnar eða 120 krónur. Leiðakerfið lítur svona út:
- Karaköy – Haydarpaşa – Kadıköy
- Kadıköy – Eminönü
- Üsküdar – Eminönü
- Üsküdar – Karaköy – Eminönü – Eyüp (Fyrir Gullna hornið)
- Kadıköy – Besiktaş
- Kabatas – Uskudar – Harem
- Istinye – Emirgan – Kanlıca – Anadolu Hisarı – Kandilli – Bebek – Arnavutköy – Çengelköy
- Anadolu Kavağı – Rumeli Kavağı – Sariyer
- Eminönü – Kavaklar (Skemmtileg sigling fyrir ferðamenn)
- Sirkeci – Adalar – Yalova – Cınarcık (Prinseyjar)
Að auki eru fjölmörg fyrirtæki sem bjóða annars konar skoðunarferðir með bátum staðsett víða og eru vel auglýst.
- Taksim – Eminönü
- Taksim – Kadıköy
- Taksim – Aksaray
- Kadıköy – Bostanci
- Taksim – Tesvikiye
- Beşiktaş – Nisantasi
- Kadıköy – Üsküdar
Allt leiðakerfi borgarinnar má sjá hér. Neðanjarðarlestir eru merktar M1 og M2, sporvagnar eru merktir T1,2,3,4, og einn gamaldags ferðamannavagn er númer F1. Þá eru og tveir kapalvagnar gráir á kortinu.
Til umhugsunar: Fatlaðir geta vel komist um með almennings farartækjum. Helst eru vandkvæði vegna hjólastóla á tveimur neðanjarðarstöðvum en annars staðar ættu fatlaðir ekki að lenda í vandræðum. Hafa skal þó í huga að engar tilkynningar um næstu stopp eru í strætisvögnunum.
Söfn og sjónarspil
- Suleymaniye Hamam – Eina baðhúsið í allri borginni sem er opið báðum kynjum. Einstaklingur greiðir 6000 íslenskar krónur fyrir herlegheitin. Heimasíðan.
- Cağaloğlu Hamam – Eitt af þeim betri í borginni og tíðsótt af ferðafólki. Opið alla daga til 20 á kvöldin. Aðgangur 2000 krónur en greiða þarf meira óski gestir eftir nuddi. Heimasíðan.
- Cemberlitas Hamam – Staðsett á Cimberlitas torgi umkringt helstu merkisstöðum borgarinnar. Aðgangur 2000 krónur en meira fyrir nudd og þjónustu. Opið alla daga til 20. Heimasíðan.
- Corlulu Ali Pasa
- Koca Sinan Pasa Turbesi
- Rumeli Kahvesi
Fræg lokaorð
>Forðast skal í lengstu lög að drekka kranavatn í Istanbúl og Tyrklandi öllu. Þó strangt til tekið eigi það að heita drykkjarhæft þarf ekki annað en sjá að Tyrkir sjálfir líta vart við því eigi þeir annarra kosta völ. Flestir veitingastaðir bjóða upp á vatn í flöskum.
>Matur almennt er góður og hreinlæti víðast hvar í sæmilegu lagi. Tyrkneskur matur á vel við flesta nema stöku krydd geta farið fyrir brjóstið á stöku ferðamanni.
>Hafðu í huga að hótel- og veitingahúsaeigendur eru ansi séðir í Istanbúl. Mörg dæmi þekkjast um að verðlagning á slíkum stöðum sem fá meðmæli í ferðahandbókum eða á netinu hækkar ört í kjölfarið. Það er því ekki fráleitt að sækja ekki á staði sem fá mikil meðmæli því þeir eru undantekningarlítið talsvert dýrari en ella.
Líf og limir
Ákveðin hverfi í borginni eru ekki hundrað prósent örugg fyrir ferðafólk. Taksim og Laleli hverfin hafa versta orðið á sér en þar hafa menn allar klær úti að svindla á ferðamönnum. Alþekkt er að bjóða ferðafólki á ákveðin bar þar sem reikningurinn er svo verulega miklu hærri en eðlilegt getur talist. Viðkomandi er þá fylgt ógnandi að næsta hraðbanka ef ekki eru nægir peningar til að greiða herlegheitin.
Þjófnaðir eru nokkuð algengir og töluvert um þjófagengi á mörkuðunum. Best að taka engin verðmæti né veski með sér á slíka staði heldur aðeins einhverja seðla sem setur ferðalagið ekki úr skorðum þótt tapist.