Skemmtilegir þessir íslensku fjölmiðlar. Býflugabændur stöðvuðu suðið í býflugum í London og Rihanna tók um brjóstin á körfuboltaleik. Á sama tíma ríkir neyðarástand kringum hinar einstöku Galapagoseyjar.

Á Galapagos eyjum finnst dýralíf sem þróast hefur um aldaraðir án utanaðkomandi áhrifa en það er aldeilis að breytast. Mynd Scott Ableman

Á Galapagos eyjum finnst dýralíf sem þróast hefur um aldaraðir án utanaðkomandi áhrifa en það er aldeilis að breytast. Mynd Scott Ableman

Ekkert gengur að losa olíuskip af strandstað við megineyju þess klasa sem eins og vitiborið fólk veit er undirstaða þróunarkenningar Darwins og eyjurnar allar á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem einstakur staður á jarðríki.

Það er engin furða að stjórnvöld í Ekvador hafi umsvifalaust lýst yfir neyðarástandi þegar slysið varð. Eyjurnar frægu draga um helming allra ferðamanna til þessa fátæka lands og munar um minna.

Samkvæmt þarlendum fjölmiðlum hefur tekist að fjarlægja megnið af 15 þúsund gallonum af olíu sem skipið var að flytja en það situr þó enn fast á strandsstað. Næg olía er þó enn um borð sem lekið getur út og mun valda ómetanlegum skaða á eyjunum ef allt fer á versta veg. Sérfræðingar meta það 50/50 hvort skipið náist af strandstað áður en leki kemur að skipinu.

Vekur talsverða furðu að leyfa olíuflutninga svo nálægt eyjunum en það alls ekkert einsdæmi. Ástralir voru bara nýlega að leyfa olíuflutninga á takmörkuðu svæði kringum Kóralrifið mikla. Kannski ráð að flýta för á þessa tvo staði því það er ekki spurning hvort slys verður heldur hvenær og hversu stórt. Kolsvart dautt kóralrif og olíuflekkaðar eyjur munu varla trekkja marga ferðamenn.