Tæplega tuttugu þúsund Íslendingar stunda golf sér til skemmtunar. Stór hluti þeirra heldur utan snemma á vorin eða seint á haustin til að gera sig klára ellegar framlengja gleðina og greiða þá oftast töluverðar fúlgur fyrir. En það er aldeilis ráð til að njóta án þess að fara á fund bankastjóra eða maxa kortið.

Jólastress í klaka og bleytu eða þetta?

Samkvæmt nettri úttekt Fararheill á viku til tveggja vikna golfferðum gegnum innlendar ferðaskrifstofur má fólk teljast heppið að negla slíkt undir hundrað og fimmtíu þúsund krónur á kjaft eða 300 þúsund samtals á par eða hjón. Vissulega pakkaferðir með tryggingar, beint flug, ótakmarkað golf og oft fararstjórn á hinum ágætustu gististöðum. Samt æði vel í lagt fyrir stuttar golfferðir.

Ekki hvað síst þegar litið er til þeirra erlendu ferðaþjónustuaðila sem sérhæfa sig í lengri golfferðum fyrir fölbleikt fólk frá norðurslóðum. Ferða sem standa öllum til boða en fólk þarf almennt að koma sér sjálft á staðinn.

Eitt dæmi um þetta má finna á vef ferðaskrifstofunnar Nordpoolen sem herjar mikið á Norðmenn og Svía með góðum árangri. Á vef þeirra má finna golfferðir í mánuð, tvo og jafnvel þrjá yfir háveturinn með golfi alla daga og dvöl á hinum ágætustu hótelum eða hótelíbúðum allt niður í 200 þúsund á kjaft miðað við tvo saman.

Vika með golfi á 150 kall per haus eða heill mánuður fyrir 200 kall á haus með golfi út í eitt? Engin samkeppni þar jafnvel þó fólk þurfi að bæta við flugi.

En Nordpoolen fjarri því eini aðilinn sem gerir sérstaklega út á lengri golfferðir yfir vetrartímann. Ein alveg ágæt með fína dóma er hin portúgalska ferðaskrifstofa Golf@M. Þar má nú finna mánaðardvöl með golfi alla daga, golfbíl og gistingu í fínustu hótelíbúð í vetur fyrir heilar 84 þúsund krónur á kjaft miðað við tvo saman. Samtals 170 á hjónakornin. Það gerir svo mikið sem 5.600 krónur á dag fyrir gistingu og golf undir sólinni við Miðjarðarhafið fyrir tvo saman.

Öllu meira brilljant en golfferðir ferðaskrifstofanna að okkar mati. Það er að segja ef þú átt mánuð eða tvo til að stytta dimman veturinn.