Skip to main content

Um árabil hafa ferðaþjónustuaðilar hérlendis boðið upp á skipulagðar ferðir í Svartaskóg í Þýskalandi en það landsvæði þykir bera af öðrum í landinu og ferðaþjónusta þar stór og mikilvæg atvinnugrein. En nú eru blikur á lofti, eða réttara sagt vindmyllur á lofti.

Bærinn Ottenhöfen í Svartaskógi er einn þeirra sem verða af kyrrð og ró þegar vindmyllur hefja söng sinn í framtíðinni

Bærinn Ottenhöfen í Svartaskógi er einn þeirra sem verða af kyrrð og ró þegar vindmyllur hefja söng sinn í framtíðinni

Fyrir þá sem ekki vita er Svartiskógur, Schwartzwald,  stærsta skóglendi í Þýskalandi og stærsta fjalllendi landsins að frátöldum Ölpunum sjálfum en Svartiskógur telst vera svæðið frá landamærum Sviss til suðurs alla leið til Karlsruhe 200 kílómetrum norðar. Hæðótt skóglendið er stórgóður staður til útivistar hvers konar og hundruðir Íslendinga eiga ábyggilega góða kunningja á stöku fjallahótelum sem landinn hefur sótt undanfarin ár og áratugi og kneyfað þar dágott ölið með heimafólki. Óvíða má sjá jafn marga bæi í jafn yndislegri umgjörð og hér finnst.

Nema nú eru íbúarnir með heykvíslar á lofti ef svo má að orði komast. Þýsk stjórnvöld hafa nefninlega í hyggju að reisa hér 60 þúsund vindmyllur sem eiga að hluta að afla landsmönnum orku í stað þeirra kjarnorkuvera sem Þjóðverjar ætla að loka endanlega.

Háa greindarvísitölu þarf ekki til að ímynda sér hvað 60 þúsund vindmyllur, hver um sig 200 metra há og hávaðasöm, þýða fyrir kyrrlátt skóglendið og útsýnið af hæstu tindum.

Stjórnvöld hafa þó enga aðra góða kosti til að afla nauðsynlegrar orku og þegar hafa nokkrir tugir vindmylla risið inn í skóginum með tilheyrandi jarðraski. Það fara því að verða síðustu forvöð að heimsækja þennan hluta Þýskalands og berja augum græna trjátoppa svo langt sem augað eygir.