Vá hvað þetta minnir á íslensku bankana árið 2005. Firnastuð á öllum alla daga, heilu hótelin leigð fyrir veislur og kósíheit hér heimavið og heilu fjallaþorpin erlendis og auðvitað frítt flug fyrir mannskapinn. Svo virðist sem forráðamenn flugfélagsins Play séu ekki alveg á sömu blaðsíðu og aðrir landsmenn.

Rauður litur Play táknar eldmóð starfsmanna og kannski líka húrrandi partístand yfirmannanna.

Ekki fyrr var lokið blaðamannafundi þar sem nýtt íslenskt lággjaldaflugfélag var kynnt til sögunnar, Play, en að forráðamenn héldu feita veislu á einhverjum dýrasta stað sem fyrirfinnst á Íslandi!!!

Enginn vafi leikur á að reikningurinn fyrir mörg hundruð þúsund króna dúlleríinu fór þráðbeint á nýja flugfélagið sem er þó enn að leita hófa um fjármögnun og ekkert hundrað prósent í hendi.

Gott og blessað að lyfta sér upp þegar skipið er komið í höfn að lokinni langri og strangri ferð. En að skipperinn og bestu vinir aðal séu komnir á kaf í áfengi á allra dýrasta stað áður en dallurinn hefur verið affermdur er lítt til eftirbreytni. Með öðrum orðum: þetta flugfélag hefur enn ekki sett eina einustu rellu á loft og er ekki einu sinni með bókunarvef í loftið þegar þetta er skrifað. Þá vilja þeir ekki tjá sig neitt um fjármögnun og við höfum aðeins þeirra orð fyrir að fjármögnun sé tryggð.

En svoleiðis stoppar ekki toppana í að halda feitt partí á dýrasta stað landsins. Sem segir okkur hér að fólk sem eyðir húrrandi peningum í flottheit fimm mínútum eftir að fyrirtækið fær kennitölu er ekki beint að reyna að halda að sér höndum. Milljónin sem fór til Bláa lónsins hefði mögulega getað nýst til að bjóða oggupons lægri fargjöld en ella eða oggupons hærri laun starfsfólks…