Við sögðum ykkur frá því fyrir rúmu ári að Air France væri á lokametrunum að merkja farangur farþega sinna með sérstöku rafrænu merki svo eigandinn gæti ávallt vitað hvar hún væri niðurkomin. Air France enn að bauka með þetta meðan Lufthansa tekur forskot og er þegar farið að bjóða þessa þjónustu.

Lufthansa tekur upp nýja og betri siði

Lufthansa tekur upp nýja og betri siði

Framtíðin er sem sagt hér. Í öllu falli hvað farangur varðar. Eftirleiðis geta snjallsímaeigendur vitað upp á hár hvar farangur þeirra er niðurkominn. Svo lengi sem þeir fljúga með Lufthansa.

Um er að ræða rafrænt merki sem sett er á innritaðar töskur hjá flugfélaginu og með þeim hætti getur bæði flugfélagið og viðskiptavinurinn séð á augabragði með sérstöku appi hvar taskan er niðurkomin hverju sinni. Þetta skiptir auðvitað helst máli ef eitthvað fer úrskeiðis, taska skilar sér ekki í rétt flug einhverra hluta vegna. Þá þarf viðskiptavinurinn ekki að bíða lon og don eftir upplýsingum.

Þetta er þó aðeins fyrsta skrefið hjá flugfélaginu. Hugmyndin er að fljótlega verði einnig hægt að greiða skaðabætur beint til viðskiptavinar ef eitthvað kemur upp á í flugi með þessu sama appi. Verði tafir á flugi svo dæmi sé tekið greiðir Lufthansa matarmiða strax inn á reikning biðfarþega gegnum appið og þar sömuleiðis greitt inn ef taska skilar sér ekki og farþegi þarf að kaupa helstu nauðsynjar í hvelli.

Til mikillar eftirbreytni og líklegt má telja að þetta sé framtíðin hjá fleiri flugfélögum. Segir Lufthansa að þegar kerfið verði að fullu orðið klárt eigi þetta að spara flugfélaginu mikinn tíma og mikla peninga.