Þeir sem eldri eru þarna úti ættu flestir að muna eftir óvenju tíðum ferðum Íslendinga til Búlgaríu hér fyrir um 20 árum síðan eða svo. Þá héldu margir í víking þangað til að njóta sólar og billegs alkóhóls en líka til að komast til lækna án þess að þurfa að selja hjarta og lungu á svarta markaðnum.

Ætli bati eftir aðgerðir gangi ekki betur við þessar aðstæður?

Ætli bati eftir aðgerðir gangi ekki betur við þessar aðstæður?

Sumir kölluðu þetta tannlæknaferðir enda fór annar hver maður í þessar ferðir til að láta laga stellið eða fá sér nýtt og það fyrir einn fjórða af því sem slíkt kostaði hérlendis á þeim tíma.

Ýmislegt bendir til að sama staða sé orðin hér á landi að nýju. Tannlækningar og aðgerðir hafa eins og allt annað hækkað mikið í verði á sama tíma og laun margra standa í stað eða lækka jafnt og þétt.

Búlgaría sömuleiðis hefur ekki breyst nein ósköp en þó er hlutfallslega dýrara að þvælast þangað til lækninga nú en var þá. Búlgaría er heldur ekki mekka skemmtilegheita svona ef fólk vill sýna nýja stellið.

Öðru máli gæti gengt um Góa á Indlandi. Jú, aðeins lengra að fara og jú, aðeins dýrara að fara líka. En á móti kemur að Indland er um það bil hundrað prósent yndislegri en Búlgaría eða Pólland og ekki síst að þar kosta tannlækningar almennt núna einn fjórða af því sem þú greiðir hérlendis.

Nú kann einhver grautarhaus að hugsa sem svo að Indverjar kunni nú varla að skeina sér og óhugsandi sé að treysta slíku fólki fyrir tannlækningum eða lækningum almennt. Það rasismi af hæstu gráðu og skýrir alls ekki hvers vegna Þjóðverjar, Frakkar og Bretar eru farnir að sækja hingað í töluverðum mæli til að fá læknishjálp. Ef Þjóðverjar treysta einhverju eru líkurnar góðar að þjónustan sé góð.

Í Góa-héraði finnast þrír stórir og fullkomnir ríkisreknir spítalar sem allir taka að sér aðgerðir fyrir erlenda ferðamenn og allir þrír fá toppeinkunn á samfélagsmiðlum. Þess utan eru hér tugir einkarekinna lækna- og tannlæknastofa sem hafa sitt lifibrauð nánast alfarið af ferðafólki.

Svo er reikningsdæmið einfalt. Ferðapakki hingað kostar sitt, um 140 þúsund krónur, en sparnaðurinn af aðgerð jafnar það duglega út og gott betur en það í mörgum tilfellum. Svo kostar skid og ingenting að lifa hér og njóta 🙂