Það er ekkert verið að flækja málin í Danmörku. Skagi sem nær langt út í haf skal heita Skagi. Og það í raun segir það allt sem segja þarf um þennan vinsæla skaga sem Danir sjálfir sækja heim ótt og títt. Reyndar hefur frægðarsól Skagen borist vel út fyrir strendur Danmerkur og flestir Norðmenn og Svíar vita mætavel af þessum sandskaga Dana sem skiptir Skagerrak og Kattegak hlutum Norðursjávarhafsins.

Vinsældirnar helgast meira af því að hér sóttu, og sækja enn að nokkru leyti, þeir sem flokkuðust sem hippar á sínum tíma. Frjálst fólk sem setti nekt og almenn frjálsheit ekki fyrir sig. Um tíma var það líka Skagen en ekki Hróarskelda sem var mekka lifandi tónlistar í landinu. Nokkuð er ennþá um að hér spásseri þeir sem telja sig hippa í anda.

Að síðustu er bærinn hér skemmtilegur enda lítill og þó ferðamenn séu algengir er þeim sýnd kurteisi og gott viðmót fram úr hófi.

Á Skagan búa  alla jafna aðeins tíu þúsund manns en fleiri þúsundir til viðbótar eiga hér heilsárshús. Hingað hafa alltaf sótt listamenn og stjörnur landsins sem þrá sól og sand og þar sem Skagen er meira eða minna sandströnd er það auðfundið. Þar sem hann ennfremur skjagar langt út í sjó er alltaf þægilegur blástur yfir skagann sem gerir það að verkum að hitinn verður aldrei óbærilegur. Í staðinn getur líka blásið duglega ef vindur stendur af norðvestri.

Hér er haldin mikil og eftirminnileg hátíð ár hvert um Miðsumarsbil þegar íbúar og gestir koma saman við bálköst mikinn á ströndinni og skemmta sér og sínum. Sjá myndband hér.

Sökum þess hve skip og bátar strönduðu ört hér áður fyrr má finna elstu vita Danmerkur á Grenen sem er syðsti oddi Skagen. Þá má enn sjá hér hluta kirkju einnar sem yfirgefin var á átjándu öld og hefur smám saman grafist dýpra í sandinn. Er kirkjan, Den tilsandende Kirke, ein af vinsælli stoppum ljósmyndara hér um slóðir.

Hér eru tvö söfn sem máli skipta. Annars vegar bangsasafnið, Skagen Bamsemuseum, þar sem sjá má bangsa af ýmsum stærðum og gerðum. Hins vegar Skagens Museum sem er tileinkað svæðinu sjálfu og þeim listamönnum er hingað sóttu innblástur áður fyrr. Verk þeirra eru oft hér til sýnis auk verka manna sem enn eru að.

View Larger Map