Skip to main content

Innviðaráðherra ætlar að skipa nefnd um mál þar sem hann veit upp á sig sökina. Skjáskot RÚV

Hmmm! Innviðaráðherra, Sigurður Ingi „einhvers staðar verða peningarnir að vera“ Jóhannsson, hefur skipað starfshóp til að komast til botns í hvers vegna ófært var til Keflavíkurflugvallar í nokkrar klukkustundir í vonskuveðri síðustu sólarhringa. Enn eitt dæmið um afglöp í ríkisrekstri.

Fjölmiðlar hafa farið mikinn síðustu dægrin vegna ófærðar og vesens ferðafólks á leið til og frá Keflavíkurflugvelli. Svo djúpt hefur verið tekið í árina að ráðherra telur líkur á að orðspor Íslands hafi beðið hnekki.

Grípum oggupons niður í grein RÚV um málið:

„Mér finnst það óboðlegt hversu lengi það er [ófærð til og frá.] Við getum auðvitað ekki alltaf unnið sigur á veðrinu og þurfum að aðlaga okkur að því. En ég held að við þurfum að fara yfir það af hverju lokunin stóð svona lengi. Og fara í gegnum aðferðarfræðina, verkferlana og tryggja að þetta gerist ekki aftur,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Sérðu núna fyrir þér eitthvað sem hefði mátt gera öðru vísi?

„Við kölluðum í ráðuneytinu strax fólk til okkar í gær til þess að átta okkur á stöðunni og munum halda því áfram. Vonandi skýrist það sem fyrst að átta sig á hvort það hefði verið hægt að gera betur, sem ég efast ekki um,“ segir Sigurður Ingi.

Húha!

Innviðaráðherra dissar Vegagerðina og starfsmenn hennar hundrað prósent með þessum orðum. Telur sig vita mun meira um stöðu mála en yfirmenn Vegagerðarinnar sjálfrar. Gaurinn er lærður dýralæknir sem er hið besta mál en okkur vitandi eru engir valáfangar um vegamál og vegagerð í því námi.

En ók. Það eru að koma jól þannig að við sýnum linkind og skilning á að Sigurður Ingi blaðrar enn tómt bull vitandi betur og mun alltaf gera. Eða hefur einhver gleymt því að kauði hafði fullan skilning á að Sigmundur Davíð, þáverandi formaður Framsóknarflokks, geymdi peninga sína skattlaust lengst í rassi með tilheyrandi tapi ríkisins. Fyrir utan auðvitað „með þessari svörtu“ kommentið fræga.

Teljum því aðeins upp tvennt sem fréttamenn RÚV hefðu nú getað spurt ráðherrann út í vegna málsins.

A) Eflaust mátti gera betur að halda Reykjanesbrautinni opinni og ekki síst kannski með það í huga að umrætt óveður, og það var virkilega slæmt veður, var í kortunum og spáð fyrir um mörgum dögum áður. Byggt á engu nema „kommon sens“ og grunnskólareiknigetu má slá föstu að við þær aðstæður sem réðu ríkjum og hversu löng Reykjanesbrautin er hefði verið algjört lágmark að fjórar vélar/bílar hefði verið að linnulaust þegar veðrið blés sem mest. Ekki aðeins snjóaði heil ósköp á skömmum tíma heldur var mikið kóf og það skóf á veginn sekúndu eftir að snjóblásturtæki fór hjá í hartnær sólarhring. Líklega er óhætt að negla að til að halda allri Reykjanesbraut opinni í slíku veðri hefði þurft sex tæki til að vel væri og mögulega þyrfti fleiri til. Allavega lágmark átta menn/konur/kynsegin að störfum þann tíma með tilliti til vakta og tólf til sextán manns nærri lagi.

Ekki er óhugsandi að Vegagerðarmenn hafi verið úti á frosnu túni þegar óveðrið gekk yfir og vanmetið duglega kraftinn í vetri konungi. Mun líklegra er þó sú staðreynd að Vegagerðinni er þetta árið gert að vinna sína vinnu allan ársins hring með rúmlega FIMM MILLJARÐA króna minna fjármagni en í fyrra.

Ráðherrann veit upp á hár, að því gefnu að hann muni sinn grunnskólareikning,  að þegar fjármagn til að halda helstu vegum landsins opnum allan ársins hring er skert um tæplega 20 prósent þá þarf eitthvað undan að láta. En hendum endilega milljónum króna í nýja nefnd um málið…

B) Mögulega er það stærri spurning en hvort tekst að halda Reykjanesbrautinni opinni tuttugu og fjóra sjö, alla daga, tólf mánuði ársins hvort ríkisvaldið ætli að forgangsraða ferðafólki framyfir sína eigin þegna í landinu.  Því þó vissulega komi ferðamenn með góðan skilding inn í landið þá eru það íbúar landsins sem halda öllu uppi í öllu tilliti alla daga alltaf.

Fréttastofa RÚV er ekki mikið að hóa í og heimta einkaviðtal við ráðherrann þegar íbúar á Ströndum, Hólmavík, Melrakkasléttu, Jökuldal eða Siglufirði komast ekki lönd né strönd sólarhringum saman. Um það eru fjölmörg dæmi síðustu árin og áhugasamir geta gúgglað ef þeir eru nett bilaðir á geði. Að frátöldum þjóðvegi 1 er vetrarþjónusta nánast eftir minni, ergo; verður minni og minni, og það bara gefið að pakkið í sveitunum geti plumað sig sólarhring eða jafnvel sólarhringa án þess að komast svo mikið á næsta bæ til að fá svo mikið sem lánaðan klósettpappír.

Það sannarlega spurning sem þarf svara við hvort ríkið, sem vill fjárspreðandi ferðamenn í króka og kima allan ársins hring, ætlar að forgangsraða að erlendir ferðamenn komist til og frá Leifsstöð umfram það að íbúar landsins komist í nauðsynlega þjónustu í næsta byggðakjarna.

Svarið við því gæti vel skipt sköpum í næstu kosningum því ekki má gleyma að vægi atkvæða landsbyggðarfólks er meira en annarra landsmanna.

– TH