Skip to main content

Sé mið tekið af öllum þeim mistökum sem flugmenn á Norðurlöndum viðurkenna að þeir geri vegna þreytu er merkilegt að slys í farþegaflugi séu ekki tíðari.

Hversu mikið má treysta flugmönnum sem vinna fram úr hófi?

Hversu mikið má treysta flugmönnum sem vinna fram úr hófi?

Samkvæmt könnun sem samstarfsfélög European Cockpit Association hafa látið gera meðal flugmanna kemur í ljós að töluverður fjöldi þeirra viðurkennir, nafnlaust, að hafa gert mistök í flugi vegna þreytu.

Misjafnt er eftir þjóðerni hversu margir þeirra viðurkenna slíkt en í Danmörku, Svíþjóð og Noregi segjast þrír af hverjum fimm flugmönnum hafa gerst sekir um mistök í flugi. Enn fleiri þýskir flugmenn eða fjórir af hverjum fimm, segja sömu sögu.

Fararheill hefur áður reynt að grafast fyrir um hvort íslenskir flugmenn hafi gerst sekir um fálm og fum við stýri en þær upplýsingar eru ekki gerðar opinberar og flugmenn sjálfir eðlilega þögulir sem gröfin. Félag íslenskra atvinnuflugmanna svarar ekki einu sinni skeytum. Sem bendir nú frekar til að menn hafi eitthvað að fela en hitt eins og sagan sýnir og sannar.

Eru þeir íslensku þó á engan hátt frábrugðnir þeim erlendu og líklega eru tíð mistök gerð hjá þeim eins og öðrum. En sennilega verður barnið að detta ofan í þennan brunn áður en flugfarþegar fá nokkra vitneskju um nokkuð athugavert eins og oft er raunin hérlendis.

Þó verður að taka könnun þessa með örlitlu salti sökum þess að flugmenn í Evrópu berjast nú hart gegn nýjum reglum Evrópusambandsins sem lengja þann tíma sem áhöfn getur verið við stjórn á farþegavélum án hvíldar. Samkvæmt þeim mega flugmenn  lenda vélum þó þeir hafi verið vakandi í 22 klukkustundir.

Pant ekki vera farþegi í þeim vélum…