Skip to main content

V el getur verið að rakarinn frá Sevilla sé dauður og ekki fari Don Juan heldur lengur hér um og heilli kvenþjóð með ljóðum og klækjum. En Sevilla nútímans státar þó enn af syngjandi ruslakörlum og klappstýrukórum í götum sem eru þrengri en gallabuxur sem hlaupið hafa í þvotti.*

Sevilla er stærsta borgin í Andalúsíuhéraði Spánar og hingað kemur enginn sem ekki elskar hita og sól. Lítið er hér skjól fyrir miklum hitum og engin sjór til að hlaupa í til að kæla sig niður. Og hér er virkilega þörf á að kæla sig niður og það oft á dag.

Sagt er í Madríd, höfuðborg Spánar, að hver dagur í júlí í þeirri borg sé þriggja sturtna dagur. Það er að segja að hinn hefðbundni ferðamaður, og jafnvel þeir sem vanir eru töluverðum hitum, svitna svo mjög við það eitt að anda að þrjá sturtur á dag er lágmark ætli menn að eiga samskipti við annað fólk.

En sé Madríd þriggja sturtna í júlí er Sevilla fjögurra sturtna og það meginhluta ársins. Hér fer hitastig jafnvel í 38 gráður í október þegar best, eða verst , lætur. Þessi staðreynd þýðir að margir sem borgina heimsækja njóta hennar ekki til fulls því hitinn ber fólk ofurliði. Það fer semsagt meiri tími í að þurrka svita en missa andann yfir þeim merku byggingum og fjölbreyttu mannlífi sem hér er.

Merkilegt nokk, þó enginn sé hér sjórinn, er Sevilla tæknilega séð hafnarborg. Hún er byggð á þeim punkti Guadalquivir árinnar þar sem skipasiglingar hætta að vera mögulegar og enn er nokkur umferð skipa hingað þó á síðari árum og áratugum hafi Cádiz tekið við af Sevilla sem hafnarborg Andalúsíu. Mannlífið reyndar því miður einskorðast nokkuð af miklum fjölda ferðamanna hér allan ársins hring.

Einhverra hluta vegna verða menn mun meira varir við ferðamannafjöldann hér en í flestum öðrum borgum Spánar séu ferðamannastaðirnir meðfram ströndum Spánar. Þetta gildir þó aðeins um miðborgarsvæðið og eru ferðamenn utan þess teljandi á fingrum annarra handar.

Ritstjórn Fararheill kallar Sevilla þriggja daga borg fyrir þá sök að hér þarf þrjá daga að lágmarki til þess að bæði njóta lífsins en jafnframt sjá allt það merkilega sem hér er að sjá.

* Það er einn frægur ruslakarl sem þekktur er fyrir að rífa upp raust sína og fara með stutta óperukafla meðan hann hirðir ruslið af götunum. Þá eru nokkrir smáir flamenco skólar í ýmsum götum hér og það heyrist langar leiðir þegar kennsla í dansi eða tónlist hefst hverju sinni.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur Sevilla er Aeropuerto San Pablo í um fimmtán kílómetra fjarlægð frá borginni. Sá er í minni kantinum og flugbrautin aðeins ein sem þýðir að lítið má út af bregða til að hér verði tafir.

Hér eru hefðbundnar verslanir fyrir ferðafólk og annars staðar á flugvöllum á Spáni og fátt eitt um þær að segja. Hér eru líka fimm bílaleigur og ákjósanlegt að hefja för hér ætli fólk sér að keyra um og njóta.

Ætli fólk þó beint í borg er hægt að taka bíl en kannski ekki ýkja skynsamlegt. Nær lagi er að taka leigubíl sem fer inn í miðborg á fimmtán mínútum og kostar milli 2.300 og 3.200 eftir því hvenær dags þvælst er á milli.

Töluvert ódýrara en ekki mikið óþægilegra er Flugrúta sem fer á hálftíma fresti til og frá miðborgar Sevilla. Stakt fargjald kostar svo lítið sem 360 krónur og greiðist um borð.

Til umhugsunar: Það er annar flugvöllur hér sem lágfargjaldaflugfélögin nota stundum þegar flogið er til Sevilla. Það er Aeropuerto La Parra sem er mun lengra frá og þjónusta minni. Þaðan tekur tvær klukkustundir að komast til Sevilla og getur þurft að hafa svolítið fyrir því ferðalagi enda rútur stopult á milli en sá völlur þjónustar borgina Jerez.

Til Sevilla er einnig komist með lest til Santa Justa stöðvarinnar og fara reglulega lestir til og frá næstu borgum og bæjum allt frá ströndinni og upp til Madríd, Zaragossa og Barcelóna. Santa Justa er strangt til tekið í miðri borginni en í um 15 til 20 mínútna fjarlægð frá miðborginni og öðrum merkilegum stöðum með strætisvagni.

Frá Barcelóna, Madríd eða Cordóba er í boði AVE hraðlestin og tekur aðeins tvo og hálfan tíma að komast til og frá Madríd. Hefur þetta haft töluverð áhrif til góðs því áður en þær lestir voru teknar í notkun tók vart minna en fjóra og hálfa klukkustund að fara sömu vegalengd.

Tvær rútustöðvar eru í Sevilla. Önnur við Plaza de Armas, við Guadalquivir ánna og rétt handan við Nautahringinn, er að mestu ætluð rútum milli bæja og borga innan Andalúsíu. Hin við Prado de San Sebastian skammt frá Plaza de Espana, er að mestu ætluð rútum er lengra fara. Reynsla ritstjórnar Fararheill er þó sú að hægt er að fara víðast um landið frá báðum stöðvum.

Loftslag og ljúflegheit

Enginn skyldi vanmeta hitann í Sevilla. Þetta er borg þar sem 35 til 40 gráðu hiti er regla yfir hásumartímann og jafnvel langt fram á vetur er hægt að steikja á sér líkamann í hitum sem fara oft vel yfir 30 gráðurnar.

Eins og nýlega könnun Fararheill.is leiddi í ljós kunna Íslendingar ágætlega við hita upp að 30 gráðum en ekki hærra. Taka verður mið af hitum standi til að heimsækja borgina. Fyrir Íslendinga er lífvænlegast að koma hingað yfir háveturinn í nóvember, desember eða janúar þegar hitinn fer aðeins í 10 til 15 gráður. Það eru líka einu mánuðir ársins þar sem mögulega er þörf á peysu sem er þykkari en pappír þegar kvölda tekur.

Hverfi og hleypidómar

Þau hverfi sem máli skipta fyrir ferðamanninn sem hér stoppar tímabundið eru í eða kringum miðborgina. Önnur eru nær eingöngu íbúðahverfi og lítt skemmtileg heimsóknar nema fyrir undarlegt fólk sem elskar að stika götur.

Fyrst ber að nefna gömlu miðborgina, Centro, en nafnið segir sig sjálft. Hér er flest það áhugaverðasta að sjá í Sevilla og allt meira eða minna tengt miðöldum.

Triana heitir hverfið hinu megin árinnar Guadalquivir frá miðborginni. Þar er ekki að finna neinar merkar minjar nema ef vera skyldi skemmtigarðinn Isla Mágica en sá stendur á því svæði sem 1982 var notað undir Heimssýninguna í Sevilla. Skemmtigarðurinn er allsæmilegur fyrir fullorðna og stórkostlegur fyrir smáfólkið. Hér má finna nokkurn fjölda veitinga- og skemmtistaða. Macarena hverfið til vesturs frá miðborginni er skemmtilegt og líf þar langt frameftir. Sömu sögu er af segja af Alfalfa til norðurs af miðborginni.

Söfn og sjónarspil

* Kort af öllum stöðum að finna neðst á síðunni.

>> Alcazar höllin (Real Alcázar de Sevilla) – Ein allra fallegasta höllin í Andalúsíu er þessi hér sem er byggð í márönskum stíl af hinum ekki svo vinsæla Pedro hinum Grimma eins og sá konungur var kallaður. Höllin frá fjórtándu öld er byggð af efnum með sínum fjölmörgu herbergjum og görðum og ekkert ti l sparað á sínum tíma. Hér þarf dágóða stund til að taka allt inn og ekki er svo vitlaust að staldra við í herbergi því er Kristófer Kólumbus ákvað og skipulagði sjóferð sína sem meitlaði síðar nafn hans í stein fyrir að finna Ameríku. Höllin stendur við Patio de Banderas. Hún er opin skoðunar alla daga milli 9:30 og 17. Aðgangseyrir er 1.200 krónur. Heimasíðan.

>> Gyðingahlutinn (Barrio Santa Cruz) – Svæðið kringum Dómkirkjuna er kallað Gyðingasvæðið og er elsti hluti borgarinnar. Alla jafna væri hér þjóðráð að dúlla sér dögum saman en fjöldi ferðamanna hér allan ársins hring er hreint rugl og ofbýður öllum venjulegum Íslendingum. En séu túristar á hverju strái í uppáhaldi er engin þörf að halda annað. Reyndar fyrir vikið er bæði matur hér og mjöður dýrari en ella vegna ferðamannanna og má gera ráð fyrir að góður málsverður sé fimm til tíu evrum dýrari en annars staðar í borginni.

>> Spítali hinna sjúku (Hospital de los Venerables Sacerdotes) – Spítali hinna sjúku er merkilegt nafn enda fer líklega enginn á spítala nema vegna veikinda af einhverju taginu. Hér er hins vegar ekki spítali lengur heldur þykir spítalinn atarna eitt allra besta dæmið um andalúsískan arkitektúr sem finnst í Andalúsíu allri. Hér er afar falleg kapella sem er verð skoðunar. Aðgangseyrir 850 krónur. Plaza de los Venerables. Aðgangseyrir 750 krónur.

>> Spánartorg (Plaza de Espana) – Komið til ára sinna enda byggt fyrir Heimssýninguna 1929 og tölvert sér á öllu hér en engu að síður er frábært að rölta hér um því á sínum tíma var ekkert til sparað til að gera svæðið glæsilegt og það sést enn þann dag í dag. Byggingin áhrifamikil og litlir kanalar um allan garðinn. Þá er allir bekkir í garðinum skreyttir fagurlega með azulejos keramikflísum sem margir kannast við frá Spáni og Portúgal og eru listaverk út af fyrir sig. Kannski sérstaklega áhugavert fyrir aðdáendur Star Wars kvikmyndanna en hluti þeirra var tekinn hér. Ráðlegt er að strolla hér mjög snemma eða mjög seint því hér er nú ráðuneyti innflytjendamála og hingað koma innflutjendur í hrönnum að sækja dvalar- og atvinnuleyfi. Byggingin stendur í norðausturhluta Garðs Maríu Lovísu við Avenida de Isabel la Católica. Aðgangur er ókeypis en bygginguna sjálfa er ekki hægt að skoða að innan.

>> Gullturninn (Torre de Oro) – Sagan segir að í fyrndinni hafi efsti hluti þessa turns verið þakinn gulli. Það er reyndar horfið hafi það verið raunin en turninn stendur bærilega fyrir sínu og þar er nú Siglingasafn borgarinnar. Hver sá sem réð þessum turni á sínum tíma réði hverjir sigldu upp og niður hina mikilvægu Guadalquivir á. Paseo de las Delicias.

>> Háskólinn (Universidad de Sevilla) – Það hljómar kannski kjánalega að mæla með göngutúr í háskóla en það er óhætt hér því þær byggingar sem háskóli borgarinnar starfar í eru að nokkru leyti leifar af gamalli tóbaksverksmiðju sem var þegar hún var í notkun stærsta iðnaðarhúsnæði Spánar. Elstu byggingarnar eru frá árinu 1728 og þarna var ekkert til sparað enda eina verksmiðja landsins sem framleiddi tóbak sem Spánverjar hafa alla tíð verið hrifnir af. Ekki láta nægja að skoða að utan heldur halda inn þar sem byggingin er ekki síðri með stórkostlegum stigum, kapellu og meira að segja gamalt fangelsi sem byggt var síðar. Háskólasvæðið er örstutt frá Garði Maríu Lúísu sem einnig er þess virði að skoða og njóta. Enginn amast við þvælingi hér og vals um byggingarnar er heimilt. Calle San Fernando. Opinn á skólatíma. Heimasíðan.

>> Fínlistasafnið (Museo Bellas Artes de Sevilla) – Þó ekki sé þetta safn á pari við það sem best gerist á Spáni er það sannarlega eitt þeirra vinsælustu. Þúsundir verka hér til sýnis og mörg hver eftir meistara Spánar og annarra þjóða. Sumir telja þetta safn það annað besta á Spáni og aðeins Prado safnið í Madríd sé merkilegra. Það er hýst í gömlu klaustri og meðal verka sem ávallt eru til sýnis eru verk listamanna frá Sevilla og Andalúsíu þar sem sjá má á myndum sögu og þróun svæðisins. Strætisvagnar C3, c4, C5 og C6. Plaza de Museo 9. Opið daglega nema mánudaga 9 til 20:30. Aðgangseyrir 360 krónur. Heimasíðan.

>> Höll Pílatusar (Casa de Pilates) – Ein af fögrum höllum borgarinnar. Hvorki betri né verri en aðrar slíkar en hægt að skoða í hólf og gólf og höllin er þekkt fyrir að vera byggð eftir ýmsum straumum þess tíma og þykir hafa tekist afar vel til. Töluvert af fögrum listaverkum hér en ekki er hægt að skoða efri hæðirnar nema í fylgd með leiðsögumanni. Plaza de Pilatos. Opin daglega 9 til 19. Aðgangur 1.300 krónur. Heimasíðan.

>> Flamenco safnið (Museo del Baile Flamenco) – Sé það eitthvað eitt sem Sevilla er þekkt fyrir utan landssteinanna er það flamenco dansinn og söngurinn. Þessa verður fólk ekki aðeins vart á þartilgerðum börum og sýningarsölum heldur og á göngu um þröngar götur því víða eru flamenco skólar, saumastofur og söngskólar sem sérhæfa sig í slíkri tónlist. Eins og Fararheill hefur áður skrifað um er þetta mikilvægur iðnaður orðinn í borginni og sem dæmi sækja hingað um hundrað þúsund ferðamenn eingöngu til að kynna sér flamenco. Fyrir hina sem hafa áhuga en ekki lyst á að setja sig í spor dansara eða kyrja melódramatísk lög um fátækt og erfiði er þetta safn ágætt. Þarna er vissulega allt sett á svið fyrir ferðamanninn og lítið ekta kannski en rölt hér inn segir fólki þó flest sem þarf að vita um þennan sérkennilega tónlistarstíl. Um helgar eru hér einnig miklar flamenco sýningar. Safnið stendur við Calle Manuel Rojas Marcos. Sporvagn að Archivo de Indias. Opið daglega 9:30 til 19. Miðaverð 1.500 krónur. Heimasíðan.

>> Nautahringurinn (Plaza de Toros de la Real Mastreanza) – Fyrir áhugasama um nautaat er þetta mekka þeirrar íþróttar því nautaat sem grein rekur upphaf sitt til Sevilla. Fer nautaat hér fram um það bil á eins til tveggja mánaða fresti og er yfirleitt barist um miða. Ráðlegt er að fá hótelið panta miða sé þess kostur. Þá er einnig hægt að heimsækja alla daga til skoðunar þótt ekkert sé nautaat í gangi. Það getur verið fróðlegt fyrir forvitna. Opið alla daga 9:30 til 20. Fullorðinn greiðir 1.300 krónur fyrir skoðun. Heimasíðan.

>> Metropol svæðið (Espacio Metropol) – Eina merkilegustu byggingu í Sevilluborg er að finna á Spánartorginu sem liggur beint upp frá Plaza Nueva þar sem stórverslanir El Corte Inglés er að finna. Þar stendur það sem kallað er Espacio Metropol og er afar sérstakt fjögurra hæða mannvirki úr viði sem hefur þó verið sérstaklega meðhöndlað og lítur út fyrir að vera úr stáli. Hér er á efstu hæð útsýninpallur sem veitir fína útsýn yfir borgina og það á lágmarksverði því aðeins kostar 240 krónur að taka lyftu upp. Þar er ágætis bar og hægt að virða borgina fyrir sér frá níu á morgnana til tíu á kvöldin. Á jarðhæðinni er hefðbundinn markaður og verslanir en á þeirri neðstu er að finna safn rómverskra minja sem grafnar hafa verið upp á þessum stað. Hægt er að sjá safnið að mestum hluta gegnum gler í anddyrinu en fullur aðgangur kostar 550 krónur. Getur ritstjórn sannarlega mælt með tveimur klukkustundum hér í rólegheitum. Plaza de la Encarnación Heimasíðan.

>> Herkúlesartorgið (Alameda de Hercules) – Í Macarena hverfinu, í um tíu mínútna göngufæri frá Plaza Nuevo, er að finna þetta torg sem þó er ekki torg í eiginlegri merkingu. Hér standa fjórar súlur kenndar við Herkúles sem í sjálfu sér eru ekki mikið fyrir augað. Það sem merkilegra er er að allt í kringum torg þetta er gnótt veitingastaða og bara og óvíða annars staðar í borginni þar sem finna má lífog fjör allan sólarhringinn. Grófleg talning ritstjórnar Fararheill leiddi í ljós að hér eru hvorki fleiri né færri en 24 mismunandi veitingastaðir og barir allt kringum torgið. Þó vissulega bregði fyrir ferðafólki er meirihluti fólks hér venjulegir íbúar og þar sem fagmenn versla er þér óhætt.

>> Kjötstræti (Puerta de la Carne)- Nafnið hljómar ekki spennandi kannski enda líklega lítið varið að búa í Kjötstræti en nafnið á við um borgarhlið það sem hér stendur uppi og er eitt af fáum slíkum sem standa. Ekkert stórkostlegt en vert skoðunar ef fólk dettur hér inn af tilviljun á göngu. Óvitlaust að halda niður í eina bílakjallara götunnar en þar má sjá glugga inn í fortíðina.

>> San Jorge kastalinn (Castilo de San Jorge) – Ekki kastali lengur í þeirri merkingu heldur leifar af kastala og það undir Triana markaðnum. Helst er merkilegt við þessar fornleifar að hér er tenging Sevilla við Spænska rannsóknarréttinn alræmda. Forvitnilegt.

>> Silfurturninn (Torre de la Plata) – Þetta grey heimsækja ekki margir því hann fellur í skuggann af hinum ívið frægari Gullturni, Torre de Oro, en sé fólk komið með nóg af öðrum ferðamönnum er líklegt að hér sé það að mestu laust við það fólk. Turninn ekki síðri en sá síðarnefndi en reyndar er hann ekki opinn skoðunar. Calle Santander skammt frá Torre de Oro við Guadalquivir ánna.

>> Jose Gestoso stræti (Calle Jose Gestoso) – Ekkert bendir til að þetta stræti sé neitt merkilegra en önnur stræti borgarinnar. Nema hvað hér má finna, ef vel er leitað, litla skel á byggingu í strætinu en sú markaði miðju Sevilla á miðöldum þegar borgarvirkið var heilt. Ekkert stórkostlegt en gefur ferðafólki hugmynd um hversu mjög borgin hefur vaxið. Ekki síður forvitnilegt að vita til þess að í Sevilla á miðöldum var engin önnur borg Evrópu með jafn stóra miðborg.

>> Arabíska baðhúsið (Aire de Sevilla) – Arabísk baðhús eru yndisleg og enginn á að vera hræddur við að prófa slíkt. Þetta er reyndar nýbygging og sú ekki af lakara taginu og eðlilega verðið eftir því en upplifunin er stórkostleg og hægt að hugga sig við að þessi baðhús eru reist á sama stað og elstu arabísku baðhús Spánar. Margir eru á því að þetta sé þægilegasta arabíska baðhús landsins. Kostnaður er misjafn eftir þjónustu sem fólk er á höttunum eftir en aðeins bað hér kostar um 4.000 krónur. Calle Aire 15 skammt frá Dómkirkjunni. Heimasíðan.

>> Bjórverksmiðjan (Fábrica de Cerveza) – Bjórunnendur finna hér eitthvað við hæfi því þetta er einn einasti staðurinn í borginni þar sem bjórinn er bruggaður á staðnum. Það er reyndar ekki lítið afrek því Spánverjar alla jafna eru mest fyrir gerilsneyddan meðalgúbbabjór frá risaverksmiðjum. Ein slík, Cruzcampo, er hér en jafngott að skoða bara verksmiðju Vífilfells heima. Bjórverksmiðjan er til húsa við Plaza de Armas gegnt rútustöðinni.

>> Borgarvirkið (Almohad ) – Í Macarena hverfinu gengt ráðhúsi Andalúsíu er að finna einasta heila hluta gamla borgarvirkis Sevilla. Aftur ekkert til að missa svefn yfir eða ómissandi á neinn hátt en fyrir áhugasama gefur veggurinn glögga mynd af því hversu mjög borgin hefur stækkað. Sjálfur er veggurinn hefðbundinn kastalamúr í niðurníðslu en ólíkt mörgum öðrum virkjum Spánar var þessi byggður af Aröbum en ekki Rómverjum.

>> Dásamlegu garðarnir (Jardines de las Delicasias) – Gengt Plaza America og Garði Maríu Lovísu er að finna þennan garð sem er mun minni en garður Maríu en þægilegri á flestan hátt fyrir þær sakir að hingað sækja ferðamenn ekki í hrönnum. Það eru því meiri líkur að slaka hér á en í hinum stærri og fallegri garði Maríu.

>> Garður Maríu Lovísu (Parque de Maria Luisa) – Stærsti og fallegasti garður í Sevilla og þykir með þeim fallegri á Spáni. Fáir staðir jafn betur fallnir til að skýla sér frá drepandi sólinni yfir hádaginn en planta sveittum rassi á bekk eða bar hér. Garðurinn er listavel skipulagður, hér er fjöldi trjá- og blómategunda og hægt að una hag sínum vel hér gott stundarkorn. Þá veitir garðurinn skjól frá ysi og þysi í borginni.

>> Buhaira garðurinn (Jardines de la Buhaira) – Annar garður í borginni sem indæll er heimsóknar er þessi sem staðsettur er við Puenta de la Carne í Santa Cruz hverfinu.

>> Kapella hins hreina og óspillta (Capilla de la Pura y Limpia Conceptión) – Þessa ágætu kapellu er ekki hægt að skoða að innan enda kemst enginn inn í hana sökum smæðar. Þetta er nefninlega minnsta kapella í borginni. Hægt er þó að gægjast á glugga og skoða.

>> Perdigones turninn (Torre de los Perdigones) – Í Macarena hverfinu stendur þessi turn nokkuð einn á báti og sést víða að. Hægt er að tölta upp í hann og gefur þar að líta svokallaða camera obscura þar sem myndir af borginni

>> Rómverska vatnsleiðslan (Aquaducto Romano) – Lítið er eftir af mikilli rómverskri vatnsleiðslu sem hér var eins og víðar á Spáni. Þó má sjá þá tvo hluta sem eftir eru á Luis Montoto stræti, Calle Luis Montoto, en annar þeirra er þó staðsettur á umferðareyju. Hinn hefur veri ð lagfærður að hluta.

>> El Rinconillo (El Rinconillo) – El Rinconillo er bar við Los Terceros torgið og ástæðan fyrir því að hann er verður heimsóknar sá að þetta er elsti bar í Sevilla og opnaði dyr sínar fyrir kúnnum fyrst árið 1670. Þar gefur meðal annars að líta ævafornar vínflöskur og yfirbragð hans allt í fornum stíl. Þá fást hér fínustu smáréttir.

>> Vestur Indía safnið (Archivo General de Indias) – Við hlið Dómkirkjunnar mikilfenglegu er að finna þetta ekki síður mikilfenglega safn sem er eitt sinnar tegundar á Spáni öllum. Hér er rakin í máli, myndum og oft á tíðum upprunalegum skjölum ýmislegur sannleikur um fund og hernám Spánverja á löndum Ameríku. Margir þeirra leiðangra til að finna Nýja heiminn fóru héðan og reyndar var Sevilla með einokun á öllum ferðum til Nýja heimsins frá árinu 1503 til 1718. Í þessari byggingu eru allar sögur, fróðleikur og sannleikur um þær ferðir geymdar. Byggingin og safnið eru á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og er ásamt Giralda og Alcazár höllinni þjóðargersemar Spánar. Avenida de la Constitución. Aðgangur er ókeypis en öryggisleit fer fram. Heimasíðan.

>> Macarena kirkjan (Basílica de la Macarena) – Þessi er eðli málsins samkvæmt staðsett í Macarena hverfinu en Macarena þessi er verndarmey Sevilla borgar og því er þessi kirkja í meiri metum meðal heimamanna en aðrar. Kirkjan sjálf ekki stórkostleg að sjá og reyndar alls ekki en innifyrir er líkneski Macarenu skreytt gulli og demöntum og ýmsum þeim djásnum er hún er talin eiga skilið. Kirkjan er því sem næst gengt Þinghúsi Andalúsíu og hér er líka safn eitt. Opin daglega til skoðunar milli 10 og 14 og 17 til 19. Calle Bécquer.

>> Dómkirkjan (Catedral de Sevilla) – Án alls efa stórfenglegasta byggingin í borginni er dómkirkjan sem á sínum tíma var meðal þeirra allra stærstu í heiminum og sú stærsta sem byggð er í gotneskum stíl. Byggingin mikilfengleg og ekki síst vegna Giralda turnsins sem víða sést úr fjarlægð en turninn atarna tilheyrði mosku sem hér var áður en dómkirkjan var byggð. Til stóð reyndar að brjóta turninn niður en hætt var við það og hann gerður rómverskari í staðinn með því að bæta ofan á hann. Sá turn var bæði til að kalla trúaða til bæna en ekki síður til að fylgjast með ferðum fólks í og kringum borgina. Eru tröppur turnsins æði breiðar og stórar sem svo voru byggðar til að bænameistari gæti komist upp turninn á hesti sínum og þyrfti ekki að þreyta sig á eilífri göngu upp og niður. Smíði dómkirkjunnar sjálfrar hófst svo árið 1402 og þar ekkert til sparað og þó æði margar kirkjur Spánverja séu mikilfenglegar er þessi enn í allra fremstu röð. Turninn og kirkjan eru ekki aðeins þjóðargersemar Spánar heldur og á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Síðast en ekki síst er kirkjan hinsti hvíldarstaður frægasta landkönnuðar heims, Kristófers Kólumbusar, en bein hans hvíla í norðausturhluta kirkjunnar. Reyndar deila fræðingar um hvort það séu sannarlega bein hans sem þar hvíla en ósannað er að svo sé ekki. Kirkjan er opin daglega skoðunar og turninn með en ennþá er messað hér á sunnudagsmorgnun og er þá takmarkað aðgengi á meðan. Það er hins vegar ókeypis að skoða á sunnudögum. Avenida de la Constitucion. Opin mán til laug frá 9:30 til 19:30 og sunnudaga frá 2:30 til 17:30. Aðgangseyrir 1.400 krónur. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Fyrir krónueigendur er Sevilla í dýrari kantinum og er reyndar á pari mikið til við Madríd og Barcelona hvað verðlag snertir. Þá eru hér undarlega fáar verslanir sem ekki finnast annars staðar og þekktar keðjur tröllríða hér öllum.

Að þessu sögðu er um alla gömlu borgina að finna minjagripasölur hvers konar, ísbúðir, bari og veitingastaði en til norðurs frá Giralda og Dómkirkjunni er að finna helstu verslunargöturnar. Önnur verslunarsvæði í borginni eru til en þar er ekkert sem ekki finnst hér.

Verslunarmiðstöðvar eru hér en litlar og úrval takmarkað. Ein slík er Plaza del Armas við samnefnt torg við Triana brúna. Önnur verslunarmiðstöð er við Nervion torgið skammt frá knattspyrnuvelli Sevilla.

Ein verslunarmiðstöð til er Los Arcos en sú er reyndar í úthverfi borgarinnar og spottakorn frá miðborginni með bíl eða strætó. Þar eru hins vegar mikið til sömu verslanir og er að finna á Nervion torginu.

Svo eru eðlilega hér að finna stórverslunina El Corte Inglés og það á þremur mismunandi stöðum. Sama verðlag og úrval er í þeim öllum og því næst að kíkja inn í verslanir risans í miðborginni við Plaza Nuevo.

Matur og mjöður

Það þyrfti símaskrá til og gott betur ef lista ætti alla þá bari og veitingastaði sem hér eru og þeir eru því sem næst á hverju einasta strái. Í miðborginni, gamla bænum og í 40 mínútna radíus allt í kring, má ganga að börum og lífi vísum og gildir einu hvort um er að ræða mánudagsmorgun eða föstudagskvöld. Alls staðar iðar allt af lífi. Segir reyndar sagan að hvergi á byggðu bóli séu fleiri barir og veitingastaðir í nokkurri borg en það sama segja reyndar heimamenn í Madríd og í París.

Fyrrnefnt Herkúlesartorg er ómissandi stopp hvort sem er til að finna ekta góða veitingastaði eða bara til að súpa drykki af lífsins móð.

Annar staður sem er afskaplega fínn til átu er Calle Betis sem er Triana megin við ánna Guadalquivir. Ekki gatan per se heldur merkilegur fjöldi veitingastaða á þeirri götu. Sú er að mestu eingöngu veitingastaðir og hver öðrum betri þó vissulega sé túristabragð að verðlagningunni. Útsýnið yfir ánna er eðal og hér er gott stuð um helgar þegar myrka tekur.

Hverfið Alfalfa er einnig suðuspottur mannlífs og hvergi dauður punktur. Miðborgin iðar en þá helst af ferðafólki og verðlag er jú hærra vegna þess. Sem dæmi kostar lítið bjórglas á börum kringum Dómkirkjuna stundum allt að þremur evrum meðan velflestir barir annars staðar í borginni taka sjaldan meira en eina til tvær evrur. Það telur þegar saman kemur eins og annað í lífinu.

En fyrir ævintýragjarna Íslendinga er heils hugar mælt með að stika götur stefnulaust og það er ábyggilegt að fyrr en síðar rekst fólk á veitingastað eða bar sem er því að skapi.

Til umhugsunar: Heimamenn hér eiga sinn eigin drykk, agua de Sevilla, sem seint rennur mjög ljúflega niður sökum þess hve sterkur hann er. Sá samanstendur af fjórum sterkum drykkjum auk kampavíns, aldinsafa og rjóma. Hann verður þó að prófa eitt skipti eða svo.

Sem fyrr er ritstjórn lítið fyrir að mæla með einstökum veitingastöðum enda smekkur fólks jafn misjafn og álit Bjarna Benediktssonar á inngöngu í Evrópusambandið. Hægt er þó að mæla með mörgum af þeim stöðum sem finna má á Calle Betis, Alameda de Hercules og fyrir þá sem vilja kynnast saltfiskmenningu Spánverja er að finna La Bacalao í götunni.. gegnt aðalverslun El Corte Inglés við Plaza Nuevo. Sá býður upp á einar fjórtán mismunandi saltfiskrétti. Sömuleiðis er vandfundnir betri smáréttir en á … Vitriola

Til umhugsunar: Merkilegt nokk er ekki regla í Sevilla að veita smárétti með bjór eða víni eins og raunin er víðast hvar í Andalúsíu. Slíkt er í boði alls staðar en fyrir það verður að greiða. Ekki láta blekkjast af heitinu því smáréttur í Sevilla getur verið ágæt máltíð og dugar oft til að fylla mallakút.

Ekki má heldur gleyma að vatnið í Sevilla er drykkjarhæft og víða í borginni, sérstaklega á torgum, er hægt að komast í … til að svala þorsta. Vatnið er þó fjarri því að fá verðlaun en miðað við vatn almennt í Andalúsíu er það merkilega gott hér.

Líf og limir

Sevilla er tiltölulega örugg fyrir ferðafólk. Lögregla er hér mjög sýnileg og jafnvel sýnislegri en í Barcelóna og Madríd. Sem annars staðar er helst að varast smáþjófa á verslunargötum, í strætisvögnum og vitaskuld skal hafa allan vara á sér við göngutúra að kvöld- eða næturlagi.

Djamm og djúserí

Aftur er hér of mikið úrval bara og diskóteka til að telja upp en Sevillanos, eins og borgarbúar eru kallaðir, kunna að skemmta sér og sá er lumma sem lætur sér detta í hug að halda heim á leið fyrir sólarupprás.

Langbesta partíið í borginni fer fram í apríl og kallast Feria de Abril og fer fram í kjölfar páskahátíðarinnar sem borgarbúar hér taka afar alvarlega eins og flestir Spánverjar.. Þá taka allir sér vikufrí og nýta þann tíma til drykkja og veisluhalda. Er þá afmarkað stórt svæði nálægt miðborginni við ánna og stúkað niður í svokallaðar casetas. Eru slík svæði ýmist aðeins opin ákveðnum hópi fólks eða öllum og aðeins hægt að komast í þau opnu nema einhverjum detti í hug að bjóða þér í einkaveislu. Er hátíðin mikið sjónarspil og ætli fólk aðeins einu sinni að heimsækja Sevilla er ekki hægt að finna betri stund en yfir Feria de abril.

Aftur eru Plaza Alfalfa, Alemeda de Hercules og Calle Betis einnig afar fínir vilji fólk djamma fram á rauða nótt. Á öllum þessum stöðum er líf í tuskum vel fram undir morgun um helgar og reyndar flest kvöld vikunnar.

Markaðir og merkilegheit

Eins og annars staðar á Spáni eru hér markaðir hvers konar þó ekki séu þeir sérstaklega til að gera sér ferð eftir. Smærri markaði er að finna en fyrir ferðamenn er vænlegast að halda til Ronda del Tamarquillo eða Avenida Carlos III snemma um helgar. Eru það stærstu flóamarkaðir borgarinnar og þar má finna ýmsa nýtilega hluti og prútta um verð.

Einn er sá markaður í Sevilla sem kannski helst er frábrugðinn því sem fólk á að venjast. Það er dýramarkaður sem fram fer hvern sunnudagsmorgun við Avenida Torneo við ánna skammt frá Plaza de Armas. Þar geta áhugasamir prúttað um verð á öndum og jafnvel nautum ef því er að skipta.

Tvö knattspyrnulið eru í Sevilla eins og áður hefur verið vikið að. Real Betis Balompié og Sevilla eru bæði ágæt lið á spænskan mælikvarða og reyndar Sevilla verið með þeim bestu á Spáni í töluverðan tíma. Tiltölulega auðvelt er að fá miða á leiki þessara liða svo lengi sem þau keppa ekki innbyrðis eða gegn stórliðum Barcelóna eða Real Madrid. Hótel geta yfirleitt verið fólki innan handar með miða en þá getur líka verið fínt að kaupa miða fyrir utan á leikdegi. Sé uppselt er fjöldi fólks sem selur miða miða á ólögmætan hátt fyrir utan leikvanga klukkustund eða svo fyrir leik. Smyrja þeir gjarnan aðeins á verð en það er gaman að prútta sé virkilegur áhugi að komast á völlinn.

Til umhugsunar: Knattspyrna á Spáni er á margan hátt heilagri en kaþólska kirkjan og þótt enginn sé áhuginn á knattspyrnu sem slíkri er heimsókn á völlinn fyrir margra hluta sakir stórmerkileg lífsreynsla.

Áhugavert getur verið að fara siglingu um Guadalquivir ánna og ekki síst að kvöldlagi þegar borgin er uppljómuð. Ýmsir aðilar bjóða slíkar ferðir og það á bökkunum beint undan miðborginni.

View Áhugaverðir staðir í Sevilla in a larger map