Skip to main content

R igning og rigning, svo ekki sé minnst á rigningu! Þannig hljóðar lýsing margra Bandaríkjamanna á borginni Seattle á vesturströnd landsins og má að nokkru leyti til sanns vegar færa.

Borgin sem þekkt er einnig sem höfuðstaður stórfyrirtækja á borð við Microsoft, Amazon, Boeing og Starbucks er vissulega nokkuð blaut mestallt árið en það er þó oftar rigningarúði en grimmt úrhelli og vegna úrkomunnar er vart að finna grænni borgir í öllum Bandaríkjunum. Ber hún þess vegna annað gælunafn en aðeins rigningarborgin; Smaragðsborgin.

Rúmlega 600 þúsund manns búa hér en fjöldinn hækkar í rúmar þrjár milljónir séu úthverfi öll talin með. Mikil gróska með uppgangi stórfyrirtækjanna fyrrnefndu olli því að borgin stækkaði mjög í allar áttir sem í dag þýðir að bíll er nauðsyn fyrir vinnandi mann og fáar borgir í Bandaríkjunum þar sem umferðaröngþveiti er meira vandamál.

Seattle per se er strangt til tekið engin ferðamannaborg. Að frátöldum allnokkrum glæsilegum görðum og bráðlifandi menningu er ekki ýkja mikið að sjá eða upplifa í borginni sjálfri og jafnvel miðborgin sem þó hýsir margt það sem fýsilegast er fyrir ferðamanninn að sjá þykir vera í leiðinlegri kantinum hjá mörgum þeim sem þangað hafa farið. Seattle er þannig fyrst og fremst borg viðskipta og þótt hafa megi þar gaman eins og í öllum borgum þarf að fara út fyrir Seattle til að komast í kynni við iðagræna náttúru og hluti sem máli skipta.

Til og frá

Aðalflugvöllur Seattle er Seattle Tacoma alþjóðaflugvöllurinn. Hann er í hálftíma fjarlægð frá miðborg Seattle ef umferð er létt en gerið annars ráð fyrir allt að klukkustund til og frá.

Strætisvagnar númer 174 og 194 ganga frá vellinum og niður í bæ. Enn aðrir fara til annarra hluta borgarinnar. Þar af er vagn 560 og vagn 574 vænlegastir fyrir ferðamenn. Fargjaldið er mismunandi eftir því hvenær dags ferðast er. Á annatíma er gjaldið 390 krónur, en þess utan 280 krónur. Hafa verður handbæra nákvæma skiptimynt.

Leigubíll frá flugvelli og niður í miðbæ kostar milli 45 – 55 dollara eða gróflega um og yfir sex þúsund krónur fyrir utan þjórfé. Leigubíla er aldrei vandamál að finna á flugvellinum. Aðeins að fylgja skiltum.

Léttlestin er einfaldasta leiðin til og frá flugvellinum. Vagnar fara fram og aftur og aldrei sjaldnar en á fimmtán mínútna fresti á daginn og kvöldin. Túrinn tekur frá 20 til 40 mínútum eftir því hvert skal halda innan borgarmarkanna. Miðaverð fer líka aðeins eftir lengd en tveir til þrír dollarar, um 300 til 400 krónur, duga langleiðina. Sjá kort hér. Þess skal gæta að fylgja vegvísum að Light Link Rail en ekki Metro public transportation. Þetta er tvennt ólíkt. Þá skal greiða fyrir farið fyrirfram.

Nokkrar skutlur eru hér til taks yfir daginn og selflytja fólk til ákveðinna hverfa eða staða innan fylkisins. Eina skutlan sem nýtist ferðafólki er sennilega Downtown Airporter sem eins og nafnið gefur til kynna ferjar fólk á helstu hótel í miðbænum. Einnig getur Shuttle Express verið ágæt . Kostnaður er misjafn eftir lengd ferða og fjölda taska en gera má ráð fyrir að ein manneskja greiði um 2.200 krónur niður í miðbæ með eina tösku með.

Fram og aftur

Kort er ómissandi í Seattle sé ætlunin að skoða hana fyrir alvöru. Líklega gerist þess ekki mikil þörf ef hangið er að mestu í miðborginni en sökum þess að götuheiti eru skrifuð á sérstakan hátt er dálítil hætta á að villast nema skilningur sé á hvernig þeim er háttað.

Í afar stuttu máli má segja að allar norður eða suðurgötur kallast Avenues meðan vestur eða austurgötur heita Streets. Borginni er gróflega skipt í sjö svæði eftir áttum og öll götuheiti taka mið að þeim. Þannig eru strætin, Streets, skrifuð með svæðisheitum á undan götuheiti til dæmis NE 45 street. Þessu er öfugt farið með Avenues. Þar er götuheitið skrifað fyrst og svæðið síðar eins og hér: 45th Avenue NE. Þetta gildir þó ekki um miðbæjarkjarnann en þar eru svæðisnúmer aldrei notuð.

Samgöngur og skottúrar

Þetta er bandarísk stórborg og sem slík byggð fyrir bíla eins og þær flestar. Nóg er af bílaleigum en öllu huggulegra er að sleppa því stressi í ferðalaginu og nota heldur strætisvagna bæjarins. Þeir virka ágætlega og leiðakerfið tiltölulega einfalt. Fargjald innanbæjar kostar frá 200 krónum til 280 eftir tíma dags. Hafa verður nákvæma skiptimynt. Til að gera einfaldan hlut flókinn þarf ávallt að greiða strax þegar tekin er vagn niður í bæ en ekki þarf að greiða fyrr en á endastöð þegar farið er úr bænum. Nokkrir vagnar aka aðeins um miðbæjarkjarnann og er ágæt leið til að sjá það helsta á skömmum tíma. Sjá leiðakerfið allt í pdf skjali hér og aðrar frekari upplýsingar hér.

Þá er hér líka sérstakir túristavagnar, Emerald City Trolleys, sem fara milli helstu staða í borginni og er auðveldasta leiðin til að sjá það markverðasta.

Svo má ekki gleyma elsta monorail Bandaríkjanna sem hér er. Monorail er léttlest sem flýgur um á einum upphækkuðum teini ef svo má að orði komast. Skrambi skemmtileg leið til að átta sig á helstu stöðum en túrinn er þó fljótt yfirstaðinn en farið er frá miðborginni og að Seattle Center menningarmiðstöðinni.

Söfn og sjónarspil

Til umhugsunar: Mörg söfn í Seattle eru opin fram á kvöld á fimmtudögum og sum þeirra bjóða frían aðgang fyrsta fimmtudag í mánuði hverjum.

>> Flugsafnið (Museum of Flight)  –  Eitt allra flottasta safn sinnar tegundar í landinu. Flugsagan rakin í máli og myndum og hvorki fleiri né færri en tæplega 150 tegundir flugvéla hér til sýnis og geimför í þokkabót. Virkilega flott safn og áhugamenn ættu ekki að staldra skemur við en hálfan daginn til að fá nægju sína. Hafa skal í huga að sérstök leiðsögn er um safnið á slaginu 11 hvern dag. 9404 East Marginal Way. Þægilegt að taka Emerald City túristavagninn sem stoppar hér reglulega á leið sinni en strætisvagn 124 einnig góður. Opið alla daga frá 10 til 21. Miðaverð 2.200 krónur. Heimasíðan.

>> Listasafn Seattle (Seattle Art Museum)  –  Eitt besta safnið hér um slóðir með um 25 þúsund verk alls. Safnið er raunar þrískipt. Aðalsafnið, sérstök álma tileinkuð asískri list og síðast en ekki síst höggmyndagarðinn Olympic Sculpture Park. Öll eru þau tímans virði. Staðsett við 1300 First Avenue. Lokað mánu- og þriðjudaga en opið 10 til 17 aðra daga og lengur á fimmtudögum. Aðgangseyrir 2.300 krónur. Heimasíðan.

>> Henry galleríið (The Henry Gallery)  –  Lítið safn sem tilheyrir háskóla borgarinnar og er staðsett á háskólasvæðinu en það er hér sem mesta gróskan er í Seattle. Sýningar breytast ört og nýir listamenn sem hafa nýtt fram að færa fá hér oft ágætan tíma til að sýna verk sín. Þetta er meira safn en gallerí og lífið á háskólasvæðinu er líka plús í kladdann. 15th Avenue NE & 41 St. Lokað mánu- og þriðjudaga en aðra daga 11 til 16 og lengur á fimmtudögum. Fjölmargir strætisvagnar fara að háskólasvæðinu. Greiða þarf 1.400 krónur fyrir dýrðina alla. Heimasíðan.

>> Viðarbátasafnið (Center for Wooden Boats)  –  Þetta er dálítið merkilegt safn yfir eitt hundrað eldri viðarbáta af ýmsum toga og saga þeirra og smíði gerð ljóslifandi fyrir augum gesta. Ekki leiðinlegt heldur að safnið stendur við Union vatnið og í boði er að leigja ára- eða seglbáta til siglinga. Lokað mánudaga en aðra daga opið 10 til 20. Strætisvagnar 26, 28 og 70 beint á staðinn en þetta er líka ekki svo langt að labba ef dvalið er í miðborginni. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Pike markaðurinn (Pike Place)  –  Það er ekki svo einfalt að lýsa Pike Place. Strangt til tekið er þetta verslunarmiðstöð en þó ekki því hér finnst ýmislegt sem ekki er jafnan í slíkum miðstöðvum. Hér eru bæði almennar verslanir sem og markaðsverslanir sem selja kjöt, fisk og grænmeti og ávexti og allt blandast þetta saman á hátt sem gerir Pike Place í raun nokkuð einstakt fyrirbæri. Enda er það svo að það er þessi staður, af öllum, í borginni sem að trekkir flesta ferðamenn. Þar hjálpar að markaðurinn er í miðborginni og í göngufæri frá velflestum hótelum hér. Einhverjum kann að þykja merkilegt að það var hér árið 1971 sem fyrsta kaffihús undir nafninu Starbucks var sett á laggirnar. Hér er opið allan ársins hring milli 11 og 17. Heimasíðan.

>> Kubota garðurinn (Kubota Garden)  –  Líklega er þetta fallegasti garður borgarinnar enda sá eini þar sem tegundir úr héraði má sjá við hlið fágætra planta og trjáa frá Japan en garðurinn heitir eftir hönnuði hans sem var jú japanskur. Afar fallegur og gnótt lækja, brunna og bekkja til að slaka á eftir þvæling eða verslunarferð. Garðurinn finnst við Renton Avenue S og 55. Avenue. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Geimnálin (Space Needle)  –  Líklega þekktasta tákn Seattle er Geimnálin sem rís 184 metra upp í loftið og er fyrirtaks útsýnisstaður. Fyrir ofan útsýnispall í 160 metra hæð má finna ágætan veitingastað, Sky City, þaðan sem ljúft er að njóta meðan matar er notið. Helsti gallinn er að hér er vel troðið af ferðafólki alla daga ársins og má gera ráð fyrir bið flestum stundum. Hægt er að njóta útsýnis fyrir 1.400 krónur á mann svo lengi sem keypt er á netinu. Fararheill mælir með tvöföldum miða sem gerir fólki kleift að koma bæði að degi til og kvöldi en kvöldútsýn er oft magnaðri. Sá kostar frá 1.900 krónum á netinu. Frítt er á pallinn fyrir þá sem borða á veitingastaðnum. Geimnálin sést víða en stendur við 400 Broad St. Opið alla daga ársins en veitingastaðurinn lokar einu sinni á ári í viku eða tvær í senn. Oftast í janúar. Heimasíðan.

>> Framtíð flugsins (Future of Flight Aviation Center)  –  Þetta safn er betur þekkt sem Boeing safnið og gefur góða innsýn inn í framleiðslu og rekstur farþegavéla þessa risafyrirtækis. Hér má bókstaflega virða fyrir sér risaþotur koma af færibandinu í einhverri stærstu byggingu heims og óhætt að mæla með heimsókn. Skiptir áhugi þá engu því allt hér er svo tilkomumikið og sérstakt. Panta fyrirfram sé þess kostur því hér er örtröð flesta daga. Ströng öryggisgæsla tryggir líka tafir svo verið viðbúin því. 8415 Paine Field Boulevard. Opið daglega 8:30 til 17:30. Miðaverð 2.400 krónur. Heimasíðan.

>> Vísindasetrið (Pacific Science Center)  –  Þetta ágæta setur er hluti af hinu mikla Seattle Center sem er menningarmiðstö borgarinnar númer eitt, tvö og þrjú þó hér sé svona nokkuð yfirborðskenndara en fólk á að venjast í slíkum miðstöðvum. Það helgast að hluta af því að miðstöðin var reist á sínum tíma fyrir Heimssýninguna 1962. Setrið er bara nafn yfir alls kyns afþreyingu sem hér er í boði og tengist vísindum á einhvern hátt. IMAX kvikmyndahús er hér sem og safn af merkum munum úr heimi vísindanna. Ýmsan fróðleik að finna hér og börnin geta leikið sér að því að skoða og jafnvel snerta margt forvitnilegt. Frábært stopp með smáfólk í för og sæmilegt fyrir aðra en alltaf eitthvað hér um að vera. 200 2nd Avenue N. Opið daglega 10 til 17 á veturnar en 10 til 18 á sumrin. Aðgangur að vísindasafninu er 2.400 krónur en að miðstöðinni sjálfri er aðgangur frír. Heimasíðan.

>> EMP safnið (Experiment Music Center)  –  Það gæti farið eftir aldri fólks hversu sniðugt er að heimsækja þetta framúrstefnusafn steinsnar frá Seattle Center. Safnahúsið sjálft magnað enda eftir hinn þekkta Frank Gehry og mjög í hans stíl. Innandyra er mjög mismunandi hvað er í boði en hér er allt leyfilegt og ýmsar sýningar komast hingað sem ekki fá inni annars staðar. Ekki svo að skilja að þær séu verri en geta verið háværari og skrýtnari en gengur upp í hefðbundnum söfnum. Mælum innilega með stoppi og svo metur fólk hverju sinni hvort þarna er eitthvað spennandi. 325 5th Avenue. Opið daglega 10 til 17. Aðgangseyrir 2.400 krónur. Heimasíðan.

>> Fry listasafnið (Frye Art Museum)  –  Þetta ágæta listasafn við Terry Avenue sérhæfir sig í málverkum og þá helst eftir stærri meistara í þeim geira. Allnokkur stórkostleg verk prýða veggi hér og gestir gefa heimsókn hér fínustu einkunn. 704 Terry Avenue. Opið 10 til 17 alla daga nema mánudaga. Strætisvagnar 3, 4 og 12 frá miðbænum. Heimsóknin kostar ekki neitt. Heimasíðan.

>> Náttúrufræðisafnið (Burke Museum)  –  Lífið á jörðinni og allt sem því fylgir er hér gerð hreint ágæt skil á þessu stóra náttúrufræðisafni. Kjörið stopp fyrir smáfólkið og einn og einn fullorðinn ætti að hafa gaman af líka. Safnið á háskólasvæðinu 17th Avenue og NE 45 St. Opið 10 til 17 daglega. Aðgangseyrir 1.400 krónur. Heimasíðan.

>> Dýragarðurinn (Woodland Park Zoo)  –  Annað áhugavert fyrir yngri kynslóðina gæti verið dýragarður Seattle sem þykir einn sem flottasti í landinu öllu. Vel yfir 300 dýrategundir hér til sýnis og fjöldinn allur af plöntum og skordýrum líka. Aukabónus að allur ágóði af miðasölu fer til björgunar dýra í útrýmingarhættu. Garðurinn stendur við 601 N 59 St. Opið daglega 9:30 til 18. Aðgangur 1.600 krónur. Strætisvagn 5 frá miðbænum stoppar hér fyrir utan. Heimasíðan.

>> Sædýrasafnið (Seattle Aquarium)  –  Ekki síðra dýrasafn er sædýrasafn borgarinnar sem staðsett er í Olympic Sculpture garðinum við ströndina. Reyndar skiptist fólk mjög í tvo hópa hvað þetta safn varðar og finnst sumum það lítið og lélegt. En fyrir okkur Íslendinga sem sjaldan eða aldrei förum á sædýrasafn er þetta alveg ágætt. Hér er þó megináherslan á þau sjávardýr sem lifa í hafinu undan ströndum Bandaríkjanna. 1483 Alaskan Way. Strætisvagn 99 stoppar hér. Opið 9:30 til 17 daglega. Fullorðnir greiða 2.600 krónur. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Sædýrasafnið býður sérstakt tvennutilboð á netinu. Má þannig kaupa aðgang að safninu og njóta stuttrar siglingar um höfnina í þokkabót fyrir eitt verð. Óvitlaus pakki enda bæði eyjur hér allt í kring og borgin séð frá hafi er skemmtileg sýn.

>> Gasstöðvagarðurinn (Gas Works Park)  –  Ekki mjög sexí nafn á almenningsgarði en svo nefnist þessi vegna leifa stórrar gasverksmiðju sem hér var eitt sinn starfrækt. Mikið hefur verið gert til að gera staðinn heillandi og unga fólkið sérstaklega kemur hingað mikið til skrafs og ráðagerða og leikja. Hér er líka stór og mikill hóll sem heiðingjar nota gjarnan undir uppákomum á sumrin. Í öllu falli fínn labbitúr og ágæt sýn héðan yfir strandlengjuna.

>> Grasagarðurinn (Bellevue Botanical Garden)  –  Annar skemmtilegur garður og sérstaklega fyrir náttúrubörn er grasagarður borgarinnar. Sérstaklega er garðurinn fallegur á sérstökum ljósakvöldum sem haldin eru reglulega og auglýst á heimasíðu garðsins. Opinn daglega 9 til 16 og stöku sinnum fram á kvöld. Frí leiðsögn um garðinn á laugardögum klukkan 14. 12001 Main Street, Bellevue. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.

>> Gullæðissetrið (Klondike Gold Rush Park)  –  Hér varð allt vitlaust á augabragði 17.júlí 1897 þegar fregnir bárust af miklum gullfundi í Klondike í Kanada. Hingað barst mest það gull sem þar fannst og setti mjög svip á borgina. Setrið á horni Jackson Street og Second Avenue S við Pioneer torgið er tileinkað þessum tíma í sögunni og þar sýning á ljós- og kvikmyndum um þetta ævintýri. Þar er líka hægt að fara í gönguferð með leiðsögn um þær byggingar sem sögu segja og síðast en ekki síst eru stuttar fræðsluferðir héðan um gullgröft. Skemmtilegt ef fólk hefur tíma. Opið 10 til 17 daglega. Frír aðgangur að setrinu en fræðsluferðirnar kosta. Heimasíðan.

>> Brúðusafnið (Museum of Dolls)  –  Ekki allra kannski en brúðuaðdáendur finna hér æði fjölbreytt safn sem samanstendur af rúmlega þrettán hundruð brúðum af ýmsum gerðum og stærðum frá ýmsum tímabilum. Safnið lokaði dyrum sínum fyrir hópum en enn er hægt að óska eftir að skoða með því að senda skeyti á safnverðina. Heimasíðan.

>> Borgarbókasafnið (Seattle Public Library)  –  Yfirleitt þarf nokkuð til að mæla með ferð á bókasöfn í erlendum borgum en hér er það ekki einu sinni spurning. Bókasafn borgarinnar er heimsþekkt en ekki fyrir bækur per se heldur bygginguna sjálfa og magnaðan arkitektúrinn bæði innan- og utandyra. Það er mjög miðsvæðis við 1000 Fourth Avenue og auðfundið. Opið virka daga 10 til 18. Heimasíðan.

>> Ballard skipastiginn (Ballard Locks)  –  Skipastigar eða skipaskurðir hvers kyns virðast heilla fjölmarga um heim allan og kannski útskýrir hvers vegna slíkur skurður er einn allra heitasti ferðamannastaðurinn í Seattle. Þessi hleypir bátum milli Pugent sunds og inn á Washington og Union vötnin og finnst mörgum dásamlegt að sitja bara og horfa á. Hér er aðeins meira um að vera á vorin þegar laxagöngur fara um laxastiga sem hér eru. Hér í kring er líka grasagarður sem þekktur er fyrir margar merkilegar plöntur til að fegra umhverfið. 3015 NW 54 St. Strætó 17 eða 44 beint á staðinn.

Til umhugsunar: Hér eins og annars staðar er til sölu sérstakt afsláttarkort, CityPass, sem er ráð ætli fólk virkilega að skoða allt sem í boði er. Fyrir skemmri ferðir er það þó varla að borga sig.

Verslun og viðskipti

Þó dollarinn sé oft öllu vinsamlegri íslenskri krónu en aðrir helstu gjaldmiðlar gagnast það takmarkað í Seattle því borgin er ein sú dýrasta í landinu. Áberandi munur er að almennu verðlagi hér og til að mynda á Flórída.

Engir skortur er þó á verslunum og þó krónan sé veikburða er hægt að gera kjarakaup inn á milli í Seattle. Að Pike markaðnum frátöldum þar sem finna má næstum allt milli himins og jarðar eru helstu verslunargöturnar beint upp af markaðnum. Fyrsta og önnur breiðgata, First og Second Avenue, eru vænlegastar hvað smærri verslanir varðar og þar má gera ágæt kaup. Sama má segja um Belltown hverfið. Verðlagið hækkar þegar ofar í hlíðina dregur á þriðju, fjórðu og fimmtu breiðgötu en þar eru stærri verslunarhús borgarinnar eins og Macy´s sem og flestar heimsþekktar verslanir. Tvær verslunarmiðstöðvar má finna Pike götu. Unga fólkið finnur mest fyrir sig á Capitol Hill svæðinu og í háskólahverfinu norður af Union vatni.

Yfir í Belluvue sem er tæknilega ekki hluti af Seattle er firnastór verslunarmiðstöð Bellevue Square með yfir 200 verslunum undir sama þaki. Skammt frá er lúxusverslunarmiðstöðin Bravern. Þá er annar markaður hér fjölsóttur af heimamönnum og að mestu laus við túristana í Pike Place. Það er Melrose Market sem er smár en góður.

Við Pine stræti finnast ýmsir ágætir verslunarstaðir. Stórverslunin Nordström er hér og sömuleiðis verslunarmiðstöðin Pacific Place sem er mjög þægileg.

Outlets verslanir eru ekki í borginni sjálfri heldur í nokkurri fjarlægð. Tvær slíkar eru Seattle Premium Outlets og Premium Outlets sem lesa má nánar um hér.

Matur og mjöður

Fimm bestu matsölustaðir borgarinnar samkvæmt kokkabókum

Hátíðir og húllumhæ

Hátíðir og stærri viðburðir eru algengir í Seattle og næsta nágrenni og reyndar svo að tæmandi listi yrði langur og leiðinlegur. Þeir stærstu og þekktustu er meðal annars danshátíðin Seattle International Dance Festival, tónlistarhátíðin Rock´n´roll Marathon, leiklistarhátíðin Outdoor Theater Festival og Best of Northwest þar sem áherslan er á hönnunarvörur unna í héraðinu og nágrenni.

Er þá fátt eitt nefnt en á helstu ferðamannastöðum sem og börum í Seattle má finna What´s On bæklinga þar sem kynnt er viku fyrir viku hvað er í gangi þann og þann tíma.

Líf og limir

Eins og aðrar bandarískar stórborgir eru glæpir algengir og alvarlegir glæpir nokkrir. Svæði til að varast í Seattle eru Third Avenue milli James og Yesler stræta og á milli Pike og Pine stræta. First Avenue milli Bell og Blanchard og Pine stræti milli 4. og 5. götu. Allar þessar eru þekktar fyrir glæpi en yfirleitt eftir að skyggja tekur. Pike og Pine eru velþekkt athvörf fíkniefnasala. Þá eru vasaþjófar alls staðar við Pioneer torgið og margir ágengir sölumenn sömuleiðis. Almennt er þó fólki óhætt víðast hvar yfir hádaginn.