E nn ein greinin þess efnis að allt sé nú til reiðu hjá hinu nýja flugfélagi Play og flug muni hefjast strax í júnímánuði samkvæmt heimildum RÚV. Þetta mun vera í fjórða skiptið sem forsvarsmenn þess ýja að starti.

Litlar líkur á háflugi hjá Play eins og Wow Air fékk. Samsett mynd

Vonandi gengur þetta loks eftir hjá Play og hið nýja flugfélag nýtur stuðnings Samgöngustofu sem tjáir sig ekki um hvort hið nýja flugfélag sé komið með flugrekstrarleyfi eða hefur yfirhöfuð sótt um slíkt ennþá. Hreint ekki í fyrsta skipti sem sú stofnun er með allt niðrum sig.

Athygli okkar, en engra annarra, hefur vakið að lífeyrissjóðurinn Birta er allt í einu orðinn stór hluthafi í Play eins og fram kemur hér. Það er merkilegt vegna þess að þetta er gríðarleg áhættufjárfesting, flug er mökkmengandi starfsemi sem er ekki það sem lífeyrissjóðir eiga að styðja nú þegar heimurinn er að bráðna og ekki króna mun koma í kassann fyrstu árin jafnvel þó allt gangi smurt. Það er nefninlega fjári góð ástæða fyrir að Play mun aldrei ná sama feita vexti og Wow Air gerði.

Þær ástæður eru:

  • Ólíkt því sem var þegar Wow Air tók til starfa og fyrstu árin sem það flugfélag starfaði eru forsvarsmenn Icelandair ekki alveg úti á þekju í þetta skiptið. Þeir voru það 2012, 2013, 2014 og jafnvel 2015 þegar allt sem Wow Air snerti varð að gulli og þeir urðu jafn stórir og hið eldgamla Icelandair á augabragði. Það var fyrst árið 2016 sem flugfargjöld Icelandair yfir línuna lækkuðu nægilega mikið til að svara samkeppni Wow Air að einhverju marki.
  • Ólíkt því sem var þegar Wow Air tók til starfa er Icelandair ekki lengur risafyrirtæki með krumlurnar í klofinu á öllum andskotanum. Þeir hafa straumlínulagað allt klabbið eftir að hafa sjálfir verið á nippinu að fara yfir um. Fyrirtækið ekki lengur að reisa hótel og veitingastaði um allar trissur, skipuleggja ferðir fyrir erlent ferðafólk eða senda flugmenn og forstjóra í þær ferðir eða snarfjölga fáránlegum áfangastöðum á borð við Cleveland og Aberdeen.
  • Enginn veit hvar eða hvenær Kófið endar. Kannski er fjórða, fimmta eða sjötta bylgja þessa ömurlega faraldurs á leiðinni. Það mun þýða lokun landamæra fjölda landa fyrirvaralítið og ef Play ætlar að byrja á þremur áfangastöðum eins og talið er, er illt í efni ef einn þeirra eða fleiri loka dyrum sísona jafnvel þó íslensk stjórnvöld séu að bjóða alla velkomna. Minna varið í Tene ef þú þarft að dvelja 14 daga í sóttkví við komu aftur.
  • Jafnvel þó Kófið sé heilt yfir í rénun – sem ekkert bendir til, – og svokölluð bóluefnavegabréf verði gefin út fyrir þá sem hafa fengið bóluefni, er það brotabrot af þeim fjölda fólks á heimsvísu sem alla jafna hefur flogið. Það er ekki einu sinni vitað fyrir víst hversu lengi þau bóluefni sem nú er verið að dreifa duga til. Ýmislegt bendir til að þau bestu dugi aðeins í átta mánuði eða svo.
  • Forsvarsmenn Icelandair vita nú upp á hár allt sem þurfti að vita um Wow Air eftir að herra Mogensen leitaði á þeirra náðir með björgun á sínum tíma. Þeir vita upp á hár hvað hver flugleið Wow Air var að gefa í aðra hönd og upp á hár hver kostnaður var við hvert flug hins dauða flugfélags. Sá kostnaður er mjög á pari við þann kostnað sem Play þarf að greiða og því veit Icelandair frá fyrstu stundu hvað þarf að gera til að svara tilteknum tilboðum hins nýja flugfélags umsvifalaust ef áfangastaðir verða þeir sömu.
  • Forsvarsmenn Icelandair hafa loks kveikt á þeirri peru að reglulegt áætlunarflug til vinsælla áfangasta Íslendinga getur líka gefið í aðra hönd. Þeir eru því ekki bara lengur að einblína á Leifsstöð sem stoppistöð yfir hafið. Þetta ár er hið fyrsta sem Icelandair býður áætlunarflug til Tenerife svo dæmi sé tekið. Það er því ekki lengur svo að Play geti setið að þeim kjötkötlunum vandræðalaust.
  • Þó flugfloti Icelandair sé enn við elliheimilismörk, 22,7 ár er meðalaldur flota Icelandair, eru nýjar Max-vélar komnar í pakkann og þeim mun fjölga. Þær vélar eru með þeim sparneytnustu, allavega þegar þær haldast á lofti, og keppa auðveldlega við nýjar eða nýlegar vélar Play. Eldsneytiskostnaður er annar stærsti kostnaðarliður flugfélaga á eftir launagjöldum.

Að þessu sögðu erum við hér ekki að vona að Play falli með brauki og bramli. Þvert á móti er öll samkeppni af hinu góða og sannarlega þurfum við ferðaelskandi einstaklingar sem mest val. En alls óhætt að benda forsvarsmönnum Play á að þeir hafa ekkert frítt spil á hendi nú eins og Wow Air fékk í upphafi. Fyrir utan að fávíst fólk hjá stórum lífeyrissjóði landsmanna skuli hafa látið platast.