Skip to main content

A llir vegir liggja til Rómar en ekki Baza og fyrir því er sú ágæta ástæða að Baza er tiltölulega ómerkilegur spænskur smábær. Tiltölulega er lykilorðið hér því hér er staðsett hið ágæta „hótel“ Cuavas al Jatib. Sem er ekki hótel heldur hellar. Getur ritstjórn Fararheill.is mælt heils hugar með stoppi þar eina nótt eða svo til að upplifa hellastemmningu á heimsmælikvarða.

Hellahótel þetta þykir með þeim allra bestu í Granada sem er merkilegt nokk fullt af slíkum hellum sem tvöfalda sem heimili fólks. Hér er sundlaug og arabískt bað í einum hellinum. Heimasíðan hér. Í bænum sjálfum eru svo Baños Árabes sem er bæði þekkt safn og baðhús frá fjórtándu öld.

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja Baza ómerkilegan því líki manni auðnir Andalúsíu er staðurinn ágætur. Hér búa um 22 þúsund manns og hér verður yfirgengilega heitt á sumrin og þokkalega kalt á veturna. En þetta er sálarlítill staður og lítið líf í bænum. Þá getur verið flókið mál að finna mann talandi annað en spænsku.

Í grenndinni hafa fundist mikilvægar fornminjar og nálægðin við fjöllin Sierra de Baza og Sierra de Castril gefa staðnum töluverð bragð og auðvitað hundrað prósent príma gönguleiðir hist og her.

Til umhugsunar: Einn er sá viðburður sem einkar skemmtilegt er að fylgjast með í Baza og það er Cascamorras hátíðin sem haldin er 8. september ár hvert. Upphaf hennar má rekja til deilna um kraftaverkastyttu af Maríu mey sem bæjarbúar í Baza og nágrannaþorpinu Guadix rifust um lengi vel áður en ákveðið var að deila henni. Hefðin er hins vegar sú að geti einstaklingur frá Guadix komið til Baza og náð styttunni án þess að lenda í hremmingum missi Baza yfirráðaréttinn. Þess vegna halda árlega hundruðir frá Guadix áleiðis til Baza og freista gæfunnar en heimamenn bíða átekta þaktir svartri málningu. Mega ræningjarnir frá Guadix ekki fá á sig eina slettu til að falla ekki úr leik. Það hefur ekki tekist í 500 ár.

Til marks um stemminguna á Cascamorras er hér myndband.