Fáar borgir á Spáni eru jafnvel staðsettar og önnur mikilvægasta borgin í Baskalandi: San Sebastian. Aðeins Bilbao er mikilvægari en San Sebastian í Baskalandinu en þá er eingöngu litið til efnahags. Séu borgirnar dæmdar út frá fegurð og staðsetningu er sigurvegarinn klárlega sú síðarnefnda. San Sebastian er þó aðeins spænska nafn borgarinnar. Á forvitnilegu máli heimamanna er talað um Donostia.

Borgin stendur við Biscay flóann og jafnframt við mynni Urumea árinnar sem reyndar hefur verið leidd í leiðinda skurð. Sjálf stendur San Sebastian fyllilega fyrir sínu sem fínn ferðamannastaður en ekki skemmir fyrir að hin fallegu Píreneafjöll eru í grenndinni og héðan er örstutt 20 kílómetra ferðalag til Frakklands. Fallegast af öllu er þó Skelin, Bahía de la Concha, en svo er nefndur sá skeljalaga flói sem borgin stendur við. Kostar það allnokkur andköf að virða hann fyrir sér frá góðum sjónarhóli.

Aukinheldur eru þær ekki margar borgirnar með stórglæsilega sandströnd nánast í miðbænum. Það nýta sér margir og velmegandi Spánverjar eiga hér margir annað húsnæði.

Borgin er höfuðborg Gipuzkoa sem er sérstakt sjálfsstjórnarsvæði innan Baskalands sem aftur býr einnig yfir töluverðri sjálfstjórn frá Madríd. Í borginni búa 190 þúsund manns.

San Sebastian er ekki sneisafull af merkum minjum eða söfnum en hefur engu að síður fengið titilinn Menningarborg Evrópu árið 2016.

Til og frá

Hér er lítill innanlandsflugvöllur í 20 mínútna fjarlægð. Aeropuerto de San Sebastian heitir sá og er einkum flogið hingað frá Madríd og Barcelóna.

Til borgarinnar er komist með strætisvögnum sem fara til og frá á 60 mínútna fresti á daginn. Eru tvö stutt stopp á leiðinni í miðborg San Sebastian og tekur rúnturinn 30 mínútur. Miðaverð 350 krónur.

Prísinn með leigubílum sem standa fyrir utan flugstöðina er gróflega kringum fimm þúsund krónur aðra leiðina.

Fleiri koma þó hingað á einkabílum eða mest lest en sú lestarferð er afar skemmtileg þar sem fjallent er í Baskalandi og útsýn yfirleitt frábær þó verið geti að einhver finni fyrir lofthræðslu. Hafa skal í huga að lestarstöðvar borgarinnar eru tvær. Önnur fyrir héraðslestir en hin stærri fyrir aðrar lestir.

Fyrir þá sem bílandi eru er traffík hér töluvert en þó ekkert til að óttast. Það er hins vegar martröð að finna stæði nálægt miðborginni og þau stæði kosta sitt.

Söfn og sjónarspil

>> Igueldo fjall (Monte Igueldo) – Vafalaust einn allra besti útsýnisstaður yfir nokkra borg í veröldinni er frá Igueldo fjalli. Þaðan sést mætavel skjeljalaga form flóans, yfir mestalla borgina og langt út á haf. Hér stendur gamall viti sem hægt er að klifra og fá enn betri sýn til sjávar og sveita. Sjálft vitahúsið var reist 1855. Hægt er að labba upp Igueldo, keyra langleiðina eða skemmtilegast af öllu að fljóta með farþegakláf sem kominn er til ára sinna enda frá árinu 1912. Hér er einnig að finna skemmtigarð sem ber einnig nafnið Monte Igueldo. Þessi er af ódýrara taginu og fyrst og fremst fyrir smáfólk undir tólf ára aldri. Heimsókn á fjallið er í öllu falli ómissandi stopp sé einhver hér á ferð. Hafa ber í huga að Igueldo er aðeins annað af tveimur hæðum eða fjöllum er liggja sitt hvoru megin við borgina. Hitt er Urgell og þaðan er einnig sjón að sjá borgina og umhverfið.

>> San Vincente kirkjan ( Iglesia de San Vicente) – Elsta kirkja borgarinnar er San Vincente við Calle Narica. Ekki fallegasta smíðin í sínum gotneska stíl en bæði risastórt orgel kirkjunnar og steindir gluggarnir vekja athygli aðkomufólks. Opin daglega 10 til 17. Frítt inn.

>> Maríukirkja (Basílica de Santa María) – Þessi basilíka er reisulegasta kirkja San Sebastian en sú stendur mitt í gamla bænum við Calle de Agosto. Sú er í barrokkstíl og framhluti hennar sérstaklega tígulegur. Opin virka daga 10 til 17. Aðgangur ókeypis.

>> Skeljaströndin (La Playa de la Concha) – Ein allra fallegasta og yndislegasta sandströnd sem fyrirfinnst í borg og það nánast í miðbænum er Playa de la Concha ströndin. Hér er eðli málsins samkvæmt stuð og stemmning alla þá daga sem sól vermir kinn og ekki er heldur laust við að ströndin sé vinsæl á veturnar líka fyrir ýmsa viðburði. Hún er einn og hálfur kílómetri af örfínum skeljasandi.

>> Santa Clara eyja (Isla de Santa Clara) – Í miðjum flóanum er lítil eyja, Santa Clara eyja, sem þegar fjarar má stundum labba út í þurrum fótum. Eigi sérstaklega mikið að sjá en þó er það gamalt vitahús og útsýn sérstök yfir borgina frá eynni. Í boði eru bátsferðir þegar flæðir að.

>> Cristina Enea garðurinn (Cristina Enea) – Sé þörf á að planta rassi og slaka á meðan borgin er skoðuð er til margt fáránlegra en halda í þennan hundrað þúsund fermetra garð. Ekki aðeins vin í eyðimörkinni í borginni sjálfri heldur eru hér fágætar tegundir trjáa og nokkuð dýralíf. Þar eru páfuglar fremstir meðal jafningja en þeir spígspora hér eins og enginn sér morgundagurinn. Hér er og starfrækt sérstök umhverfisverndarstöð. Cristina Enea er við Tabakalera skammt frá Norðurlestarstöðinni. Heimasíðan.

>> Ráðhúsið (Ayuntamiento) – Ráðhús borgarinnar við Concha strönd virðist helst til tilþrifamikið miðað við stærð borgarinnar. Byggingin stór og mikil en hér var áður fyrr eitt helsta spilavíti Spánar fram til ársins 1924 þegar spilavíti voru bönnuð í landinu. 20 árum síðar fluttu bæjarstjórnin inn og staðsetningin gæti ekki verið stórkostlegri við ströndina. Ráðhúsið er opið skoðunar að hluta til á opnunartíma virka daga 10 – 13 og 15 til 17. Heimasíðan.

>> San Telmo safnið (Museo de San Telmo) – Í þessu musteri frá sextándu öld er að finna eitt besta safn baskneskra listaverka frá fyrri tímum. Stöku Spánverjar komast einnig að eins verk eftir Greco. Hér er sögu borgarinnar einnig gerð nokkur skil og mikilvægar fornleifar má hér ennfremur líta augum. Safnið stendur við rætur Ugrull fjalls í gamla miðbænum. Opið 10 til 19:30 alla daga nema mánudaga en lokað í hádeginu. Þá lokar safnið klukkan 14 á sunnudögum. Aðgangur er frír. Heimasíðan.

>> Miramar höllin (Palacio de Miramar) – Engin höll í neinum skilningi en reisulegt íbúðarhús á frábærum stað við ströndina. Hér gerði sér sumardvalarstað María Cristina, ein af drottningum landsins, en aðeins er hægt að skoða garðinn við húsið en ekki það sjálft.

>> Chillida safnið (Museo Chillida-Leku) – Þetta safn listaverka eftir baskann Eduardo Chillida er ekki í borginni sjálfri heldur í tíu mínútna fjarlægð í smábænum Hernani. Það er þó skoðunar virði enda einn virtasti og vinsælasti baskneski listamaðurinn. Afar fjölbreyttir skúlptúrar hans hafa vakið heimsathygli og eitt frægasta verka hans, Vindgreiðan, stendur í klettunum við Biscayne flóann. Safnið er að mestu undir beru lofti og listamaðurinn trúði því að sem flestir ættu að snerta verk hans. Opið yfir sumartímann milli 10:30 til 20 alla daga nema sunnudaga. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Hún ber það kannski ekki utan á sér nema að litlu leyti en San Sebastian er ein ríkasta borg Spánar og jafnframt dýrasta borg Spánar. Það þýðir vitaskuld að tískuvörur eru hér dýrari en annars staðar í landinu og mun meira er af merkjuverslunum en alla jafna í svo lítill borg.

Hér er líka töluvert af minjagripaverslunum og götusalar ekki fáséðir heldur á sumartímum. Helst er að valsa að gamla bænum, Parte Vieja, og þvælast um til að finna hinar ýmsu smærri verslanir sem forvitnilegar geta verið.

Matur og mjöður

Hér erum við náttúrulega alveg að tala saman enda matargerð og San Sebastian nánast eitt og sama orðið á Spáni. Hér eru fleiri veitingastaðir með Michelin stjörnur á fermetra en á nokkrum öðrum stað í veröldinni. Jafnvel þó margir hafi fengið upp í kok af Michelin, sem vissulega hefur farið halloka með tilkomu veitingahúsarýni á netinu, segir þetta sína sögu.

Hér er mekka pinxtosrétta sem eru skreyttir og ríkulega búnir smáréttir úr hvínandi fersku hráefni og sérstaklega eru sjávarréttir hvers kyns víða í boði. Út af fyrir sig er lífsreynsla að koma inn á smáréttastað hér því oft minnir það meira á listasafn en matsölustað.

Saltfiskurinn er hér í hávegum hafður og sá íslenski finnst hér þó reyndar séu Norðmenn farnir að gera sig allbreiða hér í bæ. Sjálfsagt er að spyrja enda vita allir þjónar hér allt sem þarf að vita um matinn sem þeir selja. Og íslensku saltfiskurinn er ennþá af mörgum talinn betri en sá norski.

Til umhugsunar: Smáréttir í Baskalandi er allt annar hlutur en smáréttir annars staðar í landinu. Í Baskalandi eru smáréttafræðin tekin alvarlega sem sést augljóslega á þeim réttum sem finnast hér á stöðum. Á móti kemur að þó girnilegt sé þá eru máltíðir hér, hvort sem er þríréttað eða pinxtos, almennt dýrar. Ekki á að koma á óvart að borga allt að fimmtán þúsund krónur fyrir máltíðina. Þá skal hafa í huga að víða þarf að gera borðapantanir til að komast að.

Fimm veitingastaðir sem ritstjórn Fararheill getur persónulega vottað að eru í fyrsta flokki eru:

Fimm afar góðir smáréttastaðir eru:

  1. A Fuego Negro
  2. Bodega Donostiarra
  3. Paco Bueno
  4. Txepetxa
  5. La Viña

Hátíðir og húllumhæ

Það er enginn skortur á hátíðunum í San Sebastian. Þær helstar eru kvikmyndahátíð borgarinnar, Donostia Zinemaldia,  sem er komin í hóp þeirra tíu mikilvægustu í heimi.

Ekki síðri viðburður er jasshátíð borgarinnar, Jazzaldia, sem fram fer bæði úti og inni ár hvert í júlí.

Tvær minni hátíðir sem kannski heilla ferðamenn lítt eru í janúar og febrúar. Annars vegar þegar heilladýrlingi borgarinnar er minnst með drykkju, hávaða og trommuslætti út í eitt 21. janúar og hins vegar Calderos hátíðin sem einnig samanstendur af trommu- og trumbuslætti út í eitt. Er það til minningar um ungverska sígauna sem hér héldu sig mikið fyrr á tíð og brúkuðu búsáhaldaslátt til að auglýsa þjónustu sína. Eðli málsins samkvæmt er lítt um svefn 4. febrúar vegna þessa.

Líf og limir

Hér er hinn hefðbundni skammtur af vasaþjófum á ferð eins og annars staðar. Einnig má hér sjá á stöku stöðum flögg aðskilnaðarsinna, ETA, en flöggin eru til merkis um að íbúi þar er í haldi lögreglu. Ekki er vel séð að fólk geri slíkt að myndefni. Sömuleiðis eru ein eða tvær götur í gamla miðbænum afdrep byltingarsinna þegar líða fer á kvöldin og sérstaklega um helgar. Þær götur þekkjast harla auðveldlega því umferð gangandi fólks er þar lítil sem engin jafnvel þó næsta gata við sé full af hressu fólki.

View Áhugaverðir staðir í San Sebastian á Spáni in a larger map