Skip to main content

M argir hafa ímugust á því fólki sem nýtur þess helst í sólríkum löndum að fetta sig öllum klæðum og spássera um í fæðingarfötunum. Þeir hinir sömu ættu að láta vera að aka tiltekna strandlengju Almería á Spáni.

Nektarstrendur finnast víða um heim en Vera á Spáni er miklu meira en nektarströnd.

Nektarstrendur finnast víða um heim en Vera á Spáni er miklu meira en nektarströnd.

Það fer ekki ýkja hátt en eitt merkilegasta nektarsvæði heims er að finna ekki svo ýkja langt frá vinsælum áfangastöðum Íslendinga eins og Torrevieja og Roquetas de Mar. Reyndar mitt á milli þessara staða.

Staðurinn heitir Vera eftir svæðinu sem um ræðir sem aftur er formlega hluti af Almería-héraði.

Hér finnst staður á ströndinni sem heitir Vera Playa og þykir einstakur, ekki aðeins á Spáni, heldur og miklu víðar. Ástæðan sú að Vera Playa er í raun lítill bær sem eingöngu er ætlaður „náttúrusinnum.“ Með öðrum orðum nöktu fólki.

Það er því ekki aðeins þriggja kílómetra strönd hér eingöngu ætluð nektarsinnum heldur og heill bær líka. Bær með nektarhóteli, nektarverslunum og nektarveitingastöðum. Hér sést sem sagt ekki fatnaður af neinu tagi á neinum manni.

Vera Playa er hægt að heimsækja þó enginn sé vilji til að sprikla um með allt sitt úti en enginn má dvelja hér, gista eða nota ströndina án þess að vera í fæðingarfötunum.

Enginn skyldi heldur halda að hér sé einhver mekka úrkynjunar eða hedónisma. Ef frá er talið fataleysið er hér nánast allt eins og í næsta hefðbundna bæ. Börn leika sér um allt, fólk verslar í matinn eða fær sér í gogginn á næsta bar eða rabbar saman á næsta bekk. Allt ósköp eðlilegt bara ef ekki væri fyrir að allir eru á Adams- og Evuklæðum.

Vitaskuld er dálítið fyndið að vitna þetta fyrsta sinni en ekki þarf langan tíma áður en gestir finna annað hvort hjá sér þörf til að fækka fötum sjálfir ellegar láta sig hverfa. Fyrir þá sem þetta kunna að meta er þjóðráð að bóka herbergi á eina nektarhóteli Spánar, Vera Playa Club, eða reyna að verða sér úti um eina af þeim átján hundruð íbúðum sem hér eru leigðar til nektarsinna. Líka best að gera það með löngum fyrirvara því hér er setið um gistingu yfir sumartímann.