Hversu mikið er yfirvöldum í Sádí-Arabíu í mun að koma landinu á kortið sem ferðamannastað og hætta að reiða sig 100 prósent á viðbjóðslega olíu úr iðrum jarðar? Svo mikið að ritstjórn Fararheill hefur aldrei kynnst öðru eins!

Undarlegustu hlutir dregnir fram í kynningarmyndböndum Sádí-Araba. Skjáskot

Í september 2019 birti ferðamálaráð Sádí-Arabíu sitt fyrsta alvöru ferðamannamyndband til handa vestrænu ferðafólki.

Það myndband kom tveimur mánuðum eftir að fréttamiðlar greindu frá því að yfirvesírinn, Mohammed bin Salam (MBS), hefði fyrirskipað að landið yrði opnað fyrir vestrænum ferðamönnum. Fram að þeim tíma var megaerfitt fyrir alla nema heittrúaða múslima, og bandaríska hermenn, að heimsækja landið. Erlendir blaðamenn sem inn komust og eyddu þar tíma voru eltir á röndum af leyniþjónustusveit landsins og óheimilt að taka viðtöl við Jón og Gunnu án leyfis.

Mohammed þessi illræmdur fyrir að senda aftökusveit til Tyrklands til að taka af lífi, og búta sundur lík virts gagnrýns blaðamanns, Jamal Khasoggi, aðeins ári fyrr. Kauði líka illræmdur fyrir linnulausar loftárásir á bláfátækt nágrannaríkið Jemen og stráfella þar tæplega 20 þúsund venjulega borgara sísona. Árásir sem hafa skapað verstu hungursneyð seinni tíma samkvæmt úttekt Sameinuðu þjóðanna.

Ekki aðeins sendnar auðnir í Sádí. En það er töluvert haft fyrir að vökva…

En MBS vildi meira. Hann setti í forgang einhverjar stórkostlegustu áætlanir um uppbyggingu ferðamannastaða sem sést hafa. Það var kallað Áætlun 2030 og samkvæmt henni á Sádí-Arabía að vera einn af fimm vinsælustu ferðamannastöðum heims árið 2030. Til að ná því markmiði á að eyða litlum 6000 milljörðum króna. Rúmlega sexföldum fjárlögum íslenska ríkisins árlega miðað við árið 2019.

Hvers vegna vestrænt ferðafólk allt í einu?

Stórt spurt. Hvers vegna er ríki sem hefur verið harðlokað öðrum en múslimum er heimsækja Mekka ár hvert allt í einu að lofa öllu fögru handa öllum öðrum sem vilja kíkja við?

Svarið við því átti að blasa við fyrir löngu síðan en fattarinn var enginn. Olía og vörur úr olíu, eldsneyti til dæmis, er á útleið. Veröldin okkar þolir ekki endalausa ágengd á auðlindir á sama tíma og alvarleg mengun styttir líf hundruða milljóna ár hvert. Þess utan er ríki sem reiðir sig á olíu algjörlega háð markaðslögmálum og eins og síðustu ár hafa sýnt fram á getur verð á olíu hækkað og lækkað eins og jójó á sterum. Síðast, en ekki síst, þá er olían undir Sádí-Arabíu ekki óþrjótandi og MBS vill ekki verða blankur. Þá getur hann ekki lengur hent nokkrum krónum í almúgann til að halda landanum ánægðum.

Sautján fyrirtæki sem ekkert fatta

Fararheill er lítill og kósí ferðavefur fyrir Íslendinga á íslensku. Hann fer eðlilega ekki hátt á Google og ef einhver veit ekki af okkur þarf að leita dálítið á netinu. Dálítið mikið 🙂

Það er nákvæmlega það sem minnst sautján ferðaþjónustufyrirtæki í Sádí gerðu í kjölfar greinar okkar um þessa áætlun Sádanna í sama mánuði 2019. Þá grein má sjá hér.

Velkomin til Sádí-Arabíu. Ekki aldeilis…

Þar fjölluðum við um þessa áætlun Sádanna og gerðum lítið úr. Enda engin ástæða til að auglýsa land sem ber enga virðingu fyrir kvenfólki, slátrar fátækri nágrannaþjóð án þess að blikka auga og hefur ekki tekið á móti einum einasta flóttamanni frá þessum heimshluta EVER!

Við fengum sem sagt, í kjölfar greinar okkar, sautján fyrirspurnir og tilboð frá ferðaþjónustufyrirtækum í landinu. Okkur var boðið í langa heimsókn á fyrsta farrými frá London í sjö tilvikum. Í öðrum sjö tilvikum frítt uppihald, flug og kynningarferðir hingað og þangað okkur að kostnaðarlausu og meira að segja frír matur og áfengi á hótelunum sem um ræddi. Þrjú fyrirtæki buðu okkur fríar skoðunarferðir um borgir og  bí en tímdu ekki flugi eða gistingu.

Eðlilegt punktur is

Gera má ráð fyrir að þýðingarforrit Google sé ekki að þýða íslensku sérstaklega vel yfir á arabísku. Ef það væri raunin ættum við alls ekki að fá nein heimsóknarboð frá hinum og þessum ferðaþjónustufyrirtækjum í landinu miðað við grein okkar. En kannski nægði þeim að sjá að land þeirra var tiltekið í grein á litla Íslandi.

Lesendum finnst eflaust merkilegt að einhver pínkuvefur á Íslandinu góða fái tilboð frá ferðaþjónustuaðilum erlendis.

En raunin er að Fararheill er eini íslenski ferðavefurinn sem helgar sig ferðalögum Íslendinga erlendis. Það er til vefurinn Túristi en sá er gerður út frá Svíþjóð síðast þegar við vissum. Raunin er að við fáum margoft boð erlendis frá um að gera hinu og þessu skil gegn fríu flugi, gistingu og whatnot. Það í raun ástæða þess að á þessum vef eru engar auglýsingar, áskrift eða vesen. Við elskum að ferðast og deila okkar reynslu en ólíkt Túrista þá gefum við engan afslátt af neinu og þiggjum ekkert ókeypis. Við borgum fyrir okkur sjálf. Jafnvel þó okkur bjóðist frítt flug og gisting. Annars gætum við ekki verið hlutlaus og heil.

Ekki fara til Sádí

Til að gera langa sögu stutta þá höfnuðum við öllum tilboðunum frá Sádí-Arabíu. Þó öll fjögur hér hjá Fararheill höfum sannarlega áhuga að heimsækja landið þá höfum við ennþá örfá prinsipp. Eins og til dæmis að auglýsa ekki land sem rekið er af öfgafjölskyldu sem heldur að lög og reglur gildi um aðra en þau. Þjóð sem hefur niðurlægt konur frá örófi alda. Þjóð sem heggur hendur og fætur af þjófum og tekur haus af alvarlegri glæpamönnum og allt saman í beinni útsendingu á næsta torgi. Þjóð sem enginn heilvita maður tæki minnsta mark á ef ekki væru risastórar olíulindir undir pleisinu.

Yfir og út!