Í fjórða skiptið á innan við áratug íhuga borgaryfirvöld í Pattaya í Tælandi nú að henda frægri göngugötu sinni, Walking Street, út í hafsauga og endurhanna allt það svæði á nútímalegri máta.

Borgaryfirvöld í Pattaya hafa ímugust á sinni frægustu götu og vilja breyta til.

Göngugata Pattaya er mögulega frægasta göngugata heims og fyrsta gata heims sem formlega ber heitið Göngugata þrátt fyrir að ökutæki geti ekið þar um alla daga.

Við þá götu nákvæmlega ekkert nema barir, klúbbar, nuddstofur, vafasamir veitingastaðir, spilasalir og stöku krambúðir inn á milli. Út af henni í allar áttir enn fleiri nuddstofur, barir, klúbbar og misjafnir veitingastaðir

Sem sagt: á einum bletti, matur, djamm, drykkja og vændi inn á milli. Þetta er, með öðrum orðum, gatan sem gerði og gerir Pattaya fræga á heimsvísu.

En nú er öldin aðeins önnur. Borgaryfirvöld í Pattaya lengi haft uppi áætlanir um að henda Göngugötunni fyrir róða, brjóta niður allt við þá götuna og leggja þess í stað upp nútímalega og vel upplýsta strandgötu með fleiri verslunum en knæpum. Slyðruorð Pattaya sem mekka vændis og kynlífs fyrir ríka vesturlandabúa skal fjandans til.

En slíkt er flóknara en net skattaskjólsfyrirtækja Sigmundar Davíðs. Helst þá sökum þess að mútur hvers kyns er regla en ekki undantekning í Tælandi. Þrívegis hefur sá sem þetta ritað sloppið við sekt og vesen vegna hraðaksturs við lögreglutékk með því einu að veifa 50 dollara seðli framan í löggæslumanninn. Guð má vita hvað hægt er að fá fram með því að veifa þúsund dollurum framan í háttsettan borgarstarfsmann.

Þar ofan á er sá þrándur í götu að margir af vinsælustu klúbbum, börum og hótelum í og við Walking Street eru í eigu tælensku mafíunnar. Á þeim bænum hika menn ekkert mikið við að beita ofbeldi og hótunum ef skerða á hlut þeirra.

Sem útskýrir hvers vegna borgaryfirvöld hafa í þrígang hent flottum plönum út um gluggann og Walking Street heldur áfram að vera Walking Street með sömu vafasömu knæpunum ár eftir ár. Líklega alveg óhætt að slá föstu að ákvörðun númer fjögur um stórfelldar breytingar og nútímavæðingu fer sömu leið.