Mörgum bleiknefjum úr ballarhafi dreymir um kósí kot undir spænskri sól og þegar eiga einhver þúsund Íslendinga eignir þar um slóðir. Nú er mjög líklega að renna upp góður tími til fjárfestinga.

Að líkindum fer að renna upp góður tími til fasteignakaupa á Spáni að okkar mati. Skjáskot

Engir úr ritstjórn Fararheill fræðingar í fasteignamarkaði á Spáni en við með þokkalega heilbrigða skynsemi, lágmarks kunnáttu í líkindafræðum og fylgjumst nokkuð grannt með fjölmiðlum þar ytra.

Við í öllu falli ekkert verri en allir þessir formlegu „sérfræðingar” sem merkilega sjaldan hitta naglann á höfuðið (Hrunið einhver?)

Það okkar mat að það sé að renna upp hreint ágætur tími til að kaupa kósí íbúð eða villu í landinu. Það veltur reyndar töluvert á gengi krónu gagnvart evru ef krónuræfillinn lækkar ekki frekar verður líklega hægt að gera ágæt kaup frá miðju ári eða svo. Fyrir því eru þessar ástæður:

Það eru ekki svo mörg svæði eftir til uppbyggingar nálægt sjó á Spáni. Skjáskot

A) KÓRÓNAVÍRUSINN  –  Þegar þetta er skrifað er kórónafaraldurinn að færast í aukana nánast alls staðar á hnettinum. Spánn hefur farið einna verst út úr þeim pakka, landsframleiðsla dregist saman um tæp 13%, og tilfellum þar fjölgar mikið dag frá degi. Með tilliti til þess að lyf, jafnvel þó þau virki sem skyldi, munu líklega ekki dempa tilfelli á Spáni eða annars staðar fyrr en með haustinu í fyrsta lagi má ljóst vera að enn helsti tekjustofn Spánverja; ferðafólk, mun ekki ná sér á þessu ári. Fleiri heimamenn verða blankir og gjaldþrotum mun fjölga tilfinnanlega. Að sama skapi geta margir þeir sem þegar eiga eignir á Spáni ekki nýtt þær sem skyldi, hvorki þeir sjálfir né til útleigu, og þar með fer ein helsta ástæða margra að festa peninga í fasteign undir sólinni.

B) BREXIT  –  Tæplega 400 þúsund Bretar eiga eignir á Spáni. 90% þeirra eigna við strendur landsins. Með tilliti til hræbillegra flugfargjalda á milli um áratugaskeið hefur það verið góð hugmynd. Ferðir svo örar, skammar og ódýrar að jafnvel helgarferð til Spánar er gáfuleg hugmynd. En svo er ekki endilega lengur eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu. Nú geta Bretar aðeins dvalið á Spáni í 90 daga í senn án þess að halda heim á leið á ný. Ekkert endilega hræðilegt en tugþúsundir Breta halda til á Spáni yfir allan veturinn áður en sumarið er tekið heimavið. Það ekki í boði lengur. Nú þarf hver Breti að halda sig heimavið minnst þrjá mánuði eftir dvöl á Spáni áður en næsta 90 daga dvöl er í boði. Með öðrum orðum: Bretar geta nú aðeins nýtt íbúðir sínar og villur í sex mánuði hámark árlega. Ekki þarf mikið ímyndarafl til að geta sér til að margir þeirra reyna að losna við eignir sínar í kjölfarið. Ef för er ekki algjörlega frjáls á milli hafa margir þeirra hvorki vilja né efni á að halda úti annarri dýrri eign erlendis.

Fararheill mælir með íbúðakaupum á Spáni á næstunni.

C) TÖLFRÆÐIN  –  Við gætum vitnað í „sérfræðingana” svona að endingu. Íbúðaverð á Spáni féll um 1,6% á síðasta ári og fræðingarnir flestir reikna með frekara falli um 4-12% frá því sem nú er. Sem aftur merkir að á næstunni verður fasteignamarkaðurinn á Spáni kaupendamarkaður en ekki seljendamarkaður. Ef Kófið verður áfram vesen og leiðindi geta leiguaðilar á borð við Airbnb eða HomeAway að mestu pakkað saman. Það mun valda mörgum erlendum eigendum frekari fjárhagsáhyggjum og þeir munu selja fyrir klink frekar en falla í skuldagryfju. Ekki ósvipað því sem gerðist í Hruninu 2008. Síðast, en ekki síst, eru færri að skoða eignir á Spáni á Google nú en hafa gert síðan 2009 samkvæmt tölfræði þess vefmiðils.

Af ofangreindu er líklega alls óhætt að gera ráð fyrir drjúgu verðfalli á fasteignum á Spáni, og reyndar í Portúgal líka, næstu mánuði og misseri. Í versta falli er óhætt að slá föstu að fasteignaverð á næstunni verður eins hagkvæmt og mögulegt er þó ekki sé nema vegna þess að Spánverjar eru næstum alveg búnir að skipuleggja, hanna og jafnvel byggja þau strandsvæði sem eru í boði sunnan- og vestanmegin í landinu. Nú er illa hægt að finna ný svæði til uppbyggingar nálægt sjó nema farið sé til Baskalands eða Galisíu til norðvesturs. En Baskaland og Galisía hafa alltaf verið, ólíkt Costa Blanca, Costa del Sol eða Almeríu, tiltölulega dýr svæði á spænskan mælikvarða.

En svona ef kaup eru ekki á döfinni er þjóðráð að negla gistingu hér að neðan sé ferðinni heitið til Spánar á næstunni 😉