B æirnir til austurs frá Malaga borg hafa ólíkt stöðum vestanmegin orðið dálítið útundan í ferðamannagóðærinu á Spáni undanfarna áratugi. Vissulega eru þar hótel og önnur ferðamannamiðuð þjónusta en ef frá er talinn júlímánuður er alla jafna hægt að rölta um þá bæi án troðnings og fá gistingu með engum fyrirvara.

Rincón de la Victoria er einn slíkra staða en Rincon er í tíu kílómetra fjarlægð frá Malagaborg. Hann er þægilega lítill svo hægt er að rölta um allan bæ án þess að þurfa að kasta mæðinni að ráði. Ströndin er engu síðri ströndum annars staðar á Costa del Sol þó hér sé ströndin svört en ekki hvít. Þá er hér laust við yfirborðskennda milljarðamæringa sem leggja snekkjum sínum hér tímabundið meðan þeir rúlla í eitt partí eða svo. Hér er engin höfn.

Reyndar er hér ekkert utan þess nauðsynlega fyrir fólk sem vill bara sól og slökun og vill komast á ströndina án þess að berjast um pláss fyrir handklæði og sólhlíf.

Til umhugsunar: Bærinn er þekktur fyrir árlega ansjósuhátíð, Fiesta de la Boqueron, sem haldin er snemma í september. Þá gefa fiskimenn öllum sem vilja eins mikið og menn vilja og kokkar úr héraðinu metast um hver kokkar besta ansjósuréttinn.

En Rincón er þægilegur vegna smæðar sinnar.  Hann nær spænskri stemmningu þar sem enn eru Spánverjar í meirhluti á götum úti og það eitt er orðið ómetanlegt í strandbæjum Spánar.

Rétt við bæinn er að finna landsþekkta hella, Las Cuevas del Tosoro, en þar áttu Arabar að hafa falið mikla fjársjóði á árum áður. Ferð þangað er vel þess virði.

View Larger Map