Skip to main content

Einmitt þegar við héldum að hlutirnir gætu barasta alls ekki orðið verri hjá Primera Air, þá verða þeir verri.

Stórtíðindi í heimi þjónustu. Gefa viðskiptavinum puttann. Skjáskot

Andri Már Ingólfsson, aðaleigandi Primera Air, hefur þegar fengið fullt af verðlaunum fyrir markaðsstarf við að koma flugfélagi sínu á koppinn og upp í 40 þúsund fet.

Nema hvað, herra Ingólfsson, vanmat duglega hvað fólk gerir þegar það fær minni en enga þjónustu hjá flugfélagi sem auglýsir sig til himnaríkis.

Gott dæmi um það má sjá hér til hliðar. Þar tilkynnir þjónustuver Primera Air lesendum að til þess að minnka gríðarlegt álag á þjónustuverið hafi starfsmönnum verið uppálagt að svara öllum símtölum en skella svo strax á aftur. Slíkt minnki til muna álagið á símaverið 🙂

Þetta er með betri bröndurum sem við höfum séð. Það lítur nefninlega allt út fyrir að skeytið sé raunverulega frá Primera Air sem myndi umsvifalaust setja flugfélagið á stall sem það flugfélag heims sem byði áberandi verstu þjónustuna og stærði sig af því líka.

Skeytið atarna er reyndar ekki frá Primera air heldur frá bíröfnum aðilum sem fengið hafa sig svo fullsadda á hörmungarþjónustu flugfélagsins að þeir stofnuðu eigin tístvef og birta nú alls kyns skemmtileg skeyti í þeirra nafni. Þó aðeins skemmtilegt ef þú áttar þig á að um grín er að ræða enda @air_primera alls ekki tístvefur flugfélagsins. Það er @primeraair.

Gaman að þessu framtaki. Í það minnsta eru þessir aðilar að fíflast með Primera Air í gráglettnum tón. Þrír aðrir tísthópar um flugfélagið láta allt flakka og skammast sín ekkert fyrir. Hópar á borð við PrimeraAirAreThieves og DoNotFlyPrimera svo ekkert sé nú minnst á PrimeraAirAreScum.

Fátt sem bendir til að markaðsmaður ársins á Íslandi sé að gera gott mót erlendis. Þvert á móti. Það er falleinkunn í markaðsfræðum að lofa öllu fögru en standa svo ekki við staf þegar allt kemur til alls. Það er meira að segja markaðsfræði 101.

Ólíklegt reyndar að herra Ingólfsson bæti ráð sitt. Hann hefur haft nokkur ár til þess og meðal annars hér heima en margir eru mjög súrir út í fyrirtækið og það eðlilega enda tekur allt upp í ár að fá skitnar bætur þegar flugfélagið stendur ekki við sitt.

En góðu heilli eru neytendur í Evrópu ívið harðari en við hér á klakanum þegar kemur að fyrirtækjum sem lofa í ermi en allt reynist gervi.