H vað í ósköpunum er hægt að segja um París sem ekki hefur verið sagt áður? Hvað sem mönnum kann að finnast um Frakka sjálfa, sem mörgum þykja helst til þurrkuntulegir, er það staðreynd að vinsælasta ferðamannaland heims undanfarin ár er Frakkland og yfir 90 prósent þeirra sem stíga þar fæti dvelja nær eingöngu í París.

Ástæða þess er einfaldlega sú að París er stórkostleg og að mati Fararheill ein allra skemmtilegasta borg heims. Vissulega finnast mínusar við heimsókn hingað. Umferð hér er viðurstyggilega mikil og loftgæði því sjaldan ýkja góð. Verðlag í vinsælum verslunum er í hærri kantinum og töluvert mikið þarf að leita til að komast í álnir í því sambandi. Þá eru hér hverfi sem eru ekki par sniðug að þvælast mikið um eftir að skyggja tekur. Að síðustu getur skipt höfuðmáli hvenær nákvæmlega þú heimsækir þessa perlu.

En allt þetta er nánast smáatriði miðað við allt það jákvæða sem borgin býður gestum sínum. Í París eru allnokkur heimsklassasöfn sem eru svo stórkostleg að þau fanga meira að segja fólk með engan áhuga á listum klukkustundum saman. Hér eru kostuleg mannvirki sem hvert einasta mannsbarn þekkir af myndum og eru töluvert betri í eigin persónu. Hverfi hér eru svo mörg og fjölbreytt að rölt á milli býður nánast upp á endalaust nýja upplifun og stemmningu. Engum orðum þarf að eyða í mat eða drykk enda lifir hér nánast enginn veitingastaður eða bar lengur en fimm mínútur sem ekki annaðhvort býður góðan mat eða sérstaka stemmningu. Hér er strönd meðfram Signu á sumrin og hægt að skauta í Eiffel turninum á veturna. Samgöngumátar fjölbreyttir, fljótir og ódýrir. Verslun er hér nánast hreinn unaður og ekki bara sökum mikils úrvals heldur ekki síður vegna þess að borgin er svo lifandi. Og svo framvegis og svo framvegis og svo framvegis.

Ritstjórn Fararheill mælir eindregið með að fólk feli ekki hvaðan það kemur. Okkar reynsla er að Íslendingar eru miklir auðfúsugestir meðal heimamanna og þeir opna sig mun fyrr en ella enda margir forvitnir um land og þjóð.

Tíð og tími

Töluverðu máli getur skipt hvenær ársins þú heimsækir þessa perlu sem kallast París. Fararheill mælir með för snemma vors milli apríl og maí eða hreint og beint seint að vetri kringum október og nóvember. Auðvitað er hitastig og ljúflegheitin mest yfir sumarmánuðina en þá er borgin svo kjaftfull af ferðafólki að það getur skemmt upplifunina. Biðraðir í Louvre safnið og Eiffel turninn eru þá lengri en eftir brauði í Moskvu fyrir fall kommúnismans og talsverð hætta á að styttri ferðir þangað skilji lítið eftir nema pirring og örvæntingu í stað minninga um góðar stundir í stórkostlegri borg. Yfir sumarmánuðina eru vitaskuld einnig hótel og gististaðir mun dýrari en ella.

Þó skiptir tíminn minna máli ef viðkomandi er búinn að skoða allt það helsta og er að koma aftur til þess eins að njóta. Þá er júní og september fínir til brúksins en varast skal að þvælast hér mikið í júlí eða ágúst sökum hitans. Nema fólki finnist það heimsborgaralegt að kófsvitna við það eitt að taka ákvörðun.

Til og frá

Tveir flugvellir eru í grennd við París og til beggja flogið frá Íslandi hin síðustu ár. Charles De Gaulle flugvöllur er sá stærri en sá liggur í norðaustur frá borginni. Elsti hluti hans er kominn til ára sinna og nokkra stund getur tekið að fá farangur og tékka sig út eða inn.

Afar misjafnt er hversu langan tíma tekur að komast í miðborg Parísar frá CDG flugvelli. Taki fólk leigubíl eða strætisvagn fer það mikið eftir umferð þann tíma dags. Almennt má þó gera ráð fyrir að rúnturinn taki allt frá 30 mínútum og vel rúmlega klukkustund þegar verst lætur.

Akstur inn í miðborgina með leigubíl kostar um átta þúsund krónur en sú upphæð hækkar í tíu þúsund hið minnsta ef ferðast er eftir klukkan 17 á daginn og fram til morguns. Sömuleiðis er fargjaldið hærra á tyllidögum í Frakklandi.

Allnokkrar rútur eða strætisvagnar fara til og frá CDG flugvelli en fáir þeirra fara beint inn í hjarta Parísar heldur aka einungis að rútustöðvum um borgina. Undantekningin er Roissybus sem fer til og frá Opera stöðinni reglulega frá morgni til kvölds. Rúnturinn aðra leið tekur um klukkstund og verð á mann um 1.500 krónur. Greitt er í vagninum.  Þá fara fjórar rútur Air France til fjögurra annarra staða nálægt miðborginni og ekki þarf að fljúga með því flugfélagi til að ferðast með þeim vögnum. Önnur leiðin kostar gróflega um 2.600 krónur en prenta þarf út farmiðann sé bókað á netinu. Sölustaðir eru í flugstöðinni.

Einfaldast er líklegast að taka lest. RER lestin fer langleiðina inn í miðborg Parísar í undirgöngum og er það nokkur lífsreynsla að þvælast hálftíma í niðamyrkri og vera svo allt í einu mættur í iðandi borgina á leiðarenda.Tíu mínutur tekur að komast að lestarstöðinni og leiðin kyrfilega merkt á flugvellinum auk þess sem skutla flytur fólk frítt á milli. Lestirnar ganga á tíu til fimmtán mínútna fresti frá morgni til miðnættis og hún stoppar á leiðinni við Gare du Nord, Châtelet Les Halles, Saint Michel-Notre Dame, Luxembourg, Port Royal og í Denfort Rochereau. Mörg hótel eru í grennd við þessa staði og auðvelt að komast lengra með jarðlestarkerfinu. Stakur miði aðra leiðina inn í borgina kostar 3.000 krónur.

Hinn flugvöllur Parísar er Paris Orly til suðurs af borginni. Sá er í svipaðri fjarlægð frá miðborginni en ólíkt CDG þá fara engar lestir alla leiðina inn í borgina. Tvær lestir fara frá Orly en skipta þarf um lest til að komast inn í borgina.

Því er leigubíll eða rútur betri kostur frá Orly. Leigubílarnir eru 30 til 40 mínútur á leiðinni í miðborgina og kostnaðurinn kringum 7.200 krónur plús aukakostnaður á tyllidögum.

Mun ódýrari kostur eru rútur en þrír vagnar fara inn á miðborgarsvæðið héðan. Rúta Air France númer 1 heldur til Gare Montparnasse og Etoile í kjölfarið. Annar vagn Air France heldur beint til Charles de Gaulle flugvallar og gæta skal þess að taka réttan farkost. Vagnar númer 183 og 285 halda að Porte de Choisy og Villejuif-L´Aragon sem er þó aðeins fyrir utan hjarta borgarinnar en við jarðlestarstöðvar. Fargjaldið með þeim síðastnefndu er aðeins 350 krónur á mann en með rútu Air France kostar fargjaldið 1.200 krónur.

Nóg er af bílaleigum í báðum flugstöðum en ritstjórn mælir ekki með bílaleigubíl í París. Þarlendir gárungar segja að auðveldasta leiðin til að fá hjartaáfall sé fyrir aðkomufólk að aka bifreið inn á hringtorgið við Sigurbogann um sexleytið á annatíma. Með tólf akreinar inn á það og tólf út aftur þarf bæði nokkra reikningshæfileika auk mikillar frekju gagnvart öðrum vegfarendum til að eiga nokkra möguleika að komast út á réttum stað. Heimamenn gera þetta ekkert auðveldara með sífelldum flautum og öskrum. Og það er aðeins eitt einasta hringtorg í miðborginni.

Samgöngur og skottúrar

Borgin er flennistór og reyndar ein allra stærsta borg að flatarmáli í heiminum öllum. Hótel eru dreifð um alla borgina og mörg borgarhverfin skemmtileg út af fyrir sig. Hverfi borgarinnar dreifast hringlaga um alla borg og telja alls 20 hverfi. Gróflega má segja að hverfi 1 til 11 séu hjarta Parísar og flest utan þess nær eingöngu íbúðahverfi sem eru takmarkað spennandi og sum alls ekki.

Sé hugmyndin að drekka París í sig sem er eina leiðin til að heillast er labberí algjörlega málið en reynist það um of eru hér túristavagnar sem fara milli helstu ferðamannastaða fyrir lítið gjald. Þá er óvitlaust að leyfa sér að taka leigubíla ef þreyta segir til sín á einhverjum tímapunkti. Þeir eru ekki ódýrir en París er ekki borgin til að skera slíkt við nögl. Sérstaklega er forvitnilegt að hitta leigubílstjóra sem ekki skilja stakt orð í ensku en það hindrar þá marga ekki að lýsa fyrir þér í smáatriðum úr sínu hversdagslega lífi á leiðinni.

Fólk skal ekki vera feimið við að prófa jarðlestarkerfið, Metro, sem er alveg hreint ágætt þó sumar stöðvanna séu ekki byggðar með fatlaða eða hreyfihamlaða í huga. Stakur miði með jarðlestinni kostar aðeins 220 krónur og þú losnar alveg við umferðartafir sem eru stórt vandamál í borginni. Hér má sjá ítarlegt jarðlestakort með öllum stoppistöðvum. Fara skal varlega seint á kvöldin því smáglæpir eru tiltölulega tíðir hér og sérstaklega í úthverfum.

Söfn og sjónarspil

>> Louvre safnið (Musée du Louvre) – Frægasta og að margra mati besta listasafn veraldar og skal enginn þvælast um París án þess að kíkja hér inn. Annars er ekki hægt að kíkja neitt því safnið er svo viðamikið og heillandi að hér geta menn bókstaflega eytt heilu vikunum án þess að ná að komast með góðu móti yfir allt sem hér er til sýnis. Safninu verður ekkert lýst með orðum og það verður einfaldlega að upplifa á eigin skinni. Fyrir meðalmanninn með lítill áhuga á listum er samt óhætt að taka frá hálfan dag án þess að leiði sæki að. Um að gera að spara sér sporin og kaupa miða á netinu fyrirfram ellegar er hætta á að þurfa að standa í biðröð. Fjórir inngangar eru inn á Louvre. Aðalinngangurinn, þessi með glerpíramídanum, er opinn hvað lengst og þar er líka að finna upplýsingamiðstöð safnsins og verslun. Opnunartíminn er alla daga vikunnar nema þriðjudaga en þá er safnið lokað. Safnið er opið frá 9 til 18 og til 21 á miðvikudags- og föstudagskvöldum. Jarðlestir 1 og 7 ganga beint að Palais Royal-Musée du Louvre stöðinni undir safninu. Annars er safnið auðfundið á röltinu sökum stærðar sinnar. Almennur aðgangur að safninu kostar 1.800 krónur en þá er ekki innifalinn aðgengi að þeim hluta safnsins er hýsir verk tengd Napóleón. Greiða þarf aukalega 2.000 krónur fyrir það nema fólk kaupi sameiginlegan miða sem þá kostar 2.400 krónur. Fyrir þá nísku er frítt inn á almenna hluta safnsins fyrsta sunnudag hvers mánaðar og þá má hafa í huga að frítt er inn fyrir íslenska þegna frá 18 til 25 ára aldurs séu þeir með skilríki. Að síðustu er lítið mál og reyndar nauðsynlegt að fá leiðsögn um safnið en það kostar aukalega. Allar upplýsingar um það má fá við upplýsingaborð safnsins. Heimasíðan.

>> Hvíta kirkjan (Basilique du Sacre Coeur) – Ein af fallegri kirkjum heims er hin alhvíta Sacre Coeur sem stendur hæst á Montmartre hæðinni og gefur, að Eiffel turninum frátöldum, einna besta útsýnið yfir Parísarborg. Hæsti toppur kirkjunnar er hærri en turninn víðfrægi. Sjálf er kirkjan afar falleg og umhverfi hennar allt heillandi. Heimamenn segja að Sacre Coeur hvítni við rigningar og það kann að vera rétt því hún heldur lit sínum ótrúlega vel þrátt fyrir mikla loftmengun í borginni. Frítt er að skoða kirkjuna sjálfa sem er opin daglega frá 11 til 21 en greiða þarf lítið gjald til að komast upp í turna hennar. Að kirkjunni er komist með jarðlest 2 að Anvers en þá er eftir spottakorn að Montartre og það vel upp í móti. Fyrir þá sem erfitt eiga með gang er ráð að taka far með Montmartrebus sem fer fram og tilbaka hjá kirkjunni en það kostar einn Metró miða. Annar möguleiki er að taka kláfferju upp að kirkjunni en sá kláfur, Funiculaira de Montmartre, fer frá Place Suzanne-Valadon og upp hæðina. Það kostar einnig einn Metró miða. Hafa skal varann á sér við kirkjuna enda þar fjöldi svindlara og þjófa. Geymdu ekkert verðmætt í vösum. Heimasíðan.

>> Notre Dame dómkirkjan (Cathédrale Notre Dame de Paris) – Ekki stærsta eða fallegasta dómkirkja heims en sennilega sú frægasta þökk sé kroppinbak rithöfundarins Victor Hugo. Hún er þó afar tignarleg þar sem hún stendur á eynni Île de la Cité í hjarta borgarinnar sem hefur alla tíð verið trúarleg miðja borgarinnar. Smíði Notre Dame hófst á rústum rómverskrar kirkju árið 1163 og lauk smíðinni 1345. Kirkjan er 128 metra löng og auðþekkjanleg á tveimur turnum sínum. Hæsti punktur hennar er 90 metra turnspíran. Kirkjan er opin daglega á sumrin frá 7 til 21 og frá 7 til 18 yfir vetrartímann. Aðgangur er frír og ýmislegt markvert að sjá innifyrir auk þess sem gestir geta tekið þátt í messum á sunnudögum. Jarðlestir 1, 4, 7, 10 og 11 stoppa allar í grenndinni og er Cité stöð eða Saint- Michel stöðin næst kirkjunni. Heimasíðan.

>> Sigurboginn (Arc de Triomphe) – Enn eitt heimsþekkt tákn Parísar er þetta steinsteypuferlíki við Champs Elysées breiðgötuna og miðja vegu á stærsta hringtorgi Parísar sem kennt er við Charles de Gaulle. Sigurboginn var reistur af Napóleón 1806 til að minnast mikilla sigra hans á vígvöllum og hér hanga oft á tíðum gamlir hermenn og eyða tímanum. Hér er ennfremur minnismerki hins óþekkta hermanns og logar kyndill hér allan ársins hring því til staðfestingar. Uppi á toppnum er fínt útsýni yfir þennan hluta borgarinnar og eftir breiðgötunni Champs Elysées. Þangað er aðeins komist upp þröngar tröppur. Ókunnugir eiga stundum erfitt með að finna innganginn að Sigurboganum en ekki undir neinum kringumstæðum reyna að hlaupa yfir hringtorgið nema sjálfsmorð sé á dagskránni. Gengið er inn gegnum undirgöng frá Avenue de la Grande Armee. Sigurboginn er opinn alla daga ársins milli 10 og 22. Greiða þarf 1.300 krónur fyrir aðgang að toppnum en það er þess virði. Jarðlestir 1,2 og 6 ganga að Charles de Gaulle/Etoile stöð hér nálægt. Heimasíðan.

>> Borgarsafnið (Le Musée Carnavalet) – Tiltölulega fáir sækja heim þetta ágæta safn sem tileinkað er sögu Parísar en þar er að sjá margt skemmtilegra muna úr sögunni. Þar ber auðvitað hæst klósetthluti Napóleóns en að gamni slepptu er hér mikið merkilegra muna eða um 600 þúsund talsins alls. Sömuleiðis er það hlutverk þessa safns að varðveita katakombur Parísar sem eru allnokkrar og ein slík beint undir Notre Dame kirkjunni. Hægt er að skoða þær í þaula. Safnið staðsett í tveimur gömlum höllum við rue de Sévigné. Jarðlest 1 að Saint-Paul. Opið 10 til 18 alla daga nema mánudaga. Miðaverð 800 krónur á mann. Heimasíðan.

>> Eiffel turninn (La Tour Eiffel) – Langþekktasta kennimerki Parísar, Frakklands og jafnvel heims ef út í það er farið er stálturninn frægi á Champs du Mars torginu. Turninn sem upphaflega átti aðeins að standa tímabundið yfir Heimssýninguna í borginni árið 1889 stendur enn og ekkert í heimi hefur eins mikið aðdráttarafl ef miðað er við fjölda gesta. Er heildargestafjöldinn kominn nokkuð yfir 260 milljónir þegar þetta er skrifað. Eiffel er hæsta bygging í París og er efsti útsýnispallur hans í 280 metra hæð. Það er hæsti útsýnispallur í Evrópu. Turninn í heild er þó mun hærri og nær 320 metrum. Hér eru tveir veitingastaðir staðsettir og hefur annar þeirra, Le Jules Verne, fengið Michelin stjörnu fyrir gæði. Auk þess finnast hér verslanir og heill kampavínsbar fyrir þá rómantískustu. Greiða þarf fyrir að fara upp í Eiffel turninn og fer kostnaður eftir hæð. Þeir sem vilja á toppinn verða að borga 2.200 krónur fyrir herlegheitin en fyrir þá sem láta aðra hæðina nægja greiða 1.500 krónur. Athyglisvert er að á annarri hæðinni er starfrækt skautasvell frá og með desember ár hvert. Jarðlest 8 að Champs de Mars en hingað er líka komist með bátum eftir Signu. Turninn er opinn gestum frá 09 til 23 alla daga ársins og stöku sinnum til miðnættis. Heimasíðan.

>> Pompidou miðstöðin (Centre Pompidou) – Ein merkilegasta byggingin í París er þessi miðstöð Pompidou við Place Beaubourg torgið. Sumir segja miðstöðina minna helst á olíuhreinsistöð enda eru allar lagnir og lyftur utan á byggingunni og gefa henni sérstætt útlit. En byggingin sjálf er þó bara forsmekkur því innifyrir er eitt helsta og besta nútímalistasafn heims. Skammstafað MNAM og þar er að finna yfir 60 þúsund verk frá tuttugust öld og fram til vorra tíma. Safnið er staðsett á efstu tveimur hæðum hússins en á fyrstu þremur er almenningsbókasafn. Mjög heimsóknar virði og mikið líf er yfirleitt í tuskum á torginu við húsið á sumrin. Safnið er miðsvæðis í borginni en hingað er næst komist með jarðlest 11 að Rambuteu. Opið 11 – 21 alla daga nema þriðjudaga. Aðgangur að safninu kostar 2.100 krónur. Heimasíðan.

>> Lúxemborg garðurinn (Jardin du Luxembourg) – Allra vinsælasta útivistarsvæði borgarbúa er garðurinn kenndur við Lúxemborg í sjötta hverfi við rue de Médicis skammt frá hinum fræga Sorbonne háskóla. Eðalstopp á heitum sumardögum enda margt hér um að vera og auðvelt að finna skjól frá sólinni. Fjöldi skúlptúra, gosbrunnar, leiktæki og síðast en ekki síst Lúxemborgarhöllin í norðurenda garðsins. Höllin atarna og garðurinn í ítölskum stíl eftir óskum Marie de Medici frá Flórens sem hér bjó um tíma. Höllin var einnig tímabundið höfuðstöðvar þýska flughersins meðan á Seinni heimsstyrjöldinni stóð en hún er nú stjórnsýslustofnun fyrir franska þingið. Garðurinn er opinn daglega frá 7 til 21:30 á sumrin en til 20 á veturna. Jarðlest að Odeon eða lest að Luxembourg. Aðgangur frír.

>> Orsay safnið (Musée du Orsay) – Enn eitt stórkostlegt safnið sem finna má í þessari heillandi borg er þetta ágæta listasafn sem jafnfram hefur það til ágætis að vera staðsett í gamalli lestarstöð. Hér er megináherslan á verk impressjónista og Monet, Van Gogh og Degast hér í tugatali. Sannarlega þess virði að skoða og njóta og innanhúss er veitingastaður og tvö kaffihús. Safnið má segja að sé skáhallt á móti Louvre á hinum bakka Signu og stendur við rue de la Légion d’Honneur. Jarðlest 12 að Assemblée Nationale. Opið 9:30 til 18 daglega nema á mánudögum og til 21 á fimmtudagskvöldum. Miðaverð 1.900 krónur. Heimasíðan.

>> Concorde torgið (Place de la Concorde) – Stærsta torg Parísar er við enda Champs Elysées götunnar og við hlið Tulieres garðsins fallega sem aftur er fyrir framan Louvre safnið. Ekkert stórmerkilegt að sjá nema umferð í dag en saga þessa torgs er merkileg. Torgið hét áður Uppreisnartorg og það var hér sem Lúðvík konungur, Marie Antoinette og yfir þúsund aðrir voru hálshöggnir af uppreisnarsinnum í frönsku byltingunni árið 1792. Á miðju torginu stendur æði merkilegur steindrangur sem kallaður er Nál Kleópötru. Þetta er 3200 ára gamall drangur sem fluttur var hingað frá Egyptalandi úr musteri Ramses II.

>> Gamla óperuhúsið (Palais Opéra) – Þetta fallega óperuhús er minna notað nú til dags en áður en þar fara samt fram stöku óperu- og ballettsýningar. Áður fyrr var þetta glæsta hús mekka listhneigðra Parísarbúa á árum áður. Stórglæsileg bygging í barrokkstíl og innandyra enn fallegra. Ritstjórn hvetur fólk til að líta inn og taka andköf eða tvö. Opið 10 til 17 daglega en þá er aðeins hægt að skoða lítinn hluta hússins. Til að taka inn alla fegurðina verður að skrá sig í skipulagðar skoðunarferðir sem fram fara þrisvar á dag á miðviku- laugar- og sunnudaga. Bóka þarf á netinu. Best er þó að kaupa miða á sýningu og taka þetta allt inn. Jarðlestir 3, 7 eða 8 beint að Opera. Aðgangur 1.500 krónur. Heimasíðan.

>> Vosges torgið (Place des Vosges) – Elsta og að sumra mati fallegasta torg Parísar er Place des Vosges sem er friðsælt torg umkringt mögnuðum byggingum á alla kanta. Áður fyrr bjuggu þar mikils metnir borgarbúar en nú eru þar betri verslanir og veitingastaðir. Jarðlestir 1, 5 eða 8 að Bastillunni.

>> Nýja brúin (Pont Neuf) – Skemmtileg staðreynd er að elsta brúin í París heitir Nýja brúin og liggur út í Île de la Cité. Jarðlest 7 að Pont Neuf.

>> Tuileries garður (Jardin des Tuileries) – Annar yndislegur garður mitt í hjarta Parísar er þessi á milli Louvre og Place de la Concorde. Eins og raunin er með marga slíka garða í Frakklandi er ekki látið nægja að planta trjám og bekkjum og setja upp fallega skúlptúra. Hér eru líka tvö lítið söfn. Upprunalega hannaður af sama aðila og skipulagði garða Versala og hefur verið færður í sitt gamla horf á ný.

>> Musterið (Panthéon) – Það er ekki algengt að menn byggi glæsilegar kirkjur en hætti svo við og breyti kirkjunni í stofnun. Það er þó raunin með hina fallegu Panthéon sem stendur við samnefnt torg í fimmta hverfi. Ekki er hægt að skoða herlegheitin en frá tröppunum gefur að líta ágætt útsýni yfir hluta borgarinnar. Innandyra eru grafreitir nokkurra einstaklinga sem fólk ætti að kannast við. Þeirra á meðal Victor Hugo, Voltaire, Jean Monnet og Marie Curie svo nokkrir séu nefndir.

>> Endurhæfingastofnunin (Hôtel des Invalides) – Við rue de Grenelle er að finna geysistóra og glæsilega byggingu sem lítur út fyrir að hafa verið ein konungshöllin enn enda framhliðin ein saman 195 metra löng. Svo er þó ekki því þetta gistihús var reist sem endurhæfingarstöð fyrir hermenn. Síðar var bætt við spítala, kapellu og enn síðar stóru kirkjuhúsi. Stórglæsileg bygging sem vel hefur verið viðhaldið og hér er ennfremur grafhýsi Napóleóns sjálfs. Í dag finnast þarna ein þrjú söfn undir sama þakinu. Musée de l´Armée er tileinkað stríði og stríðstólum fyrri tíma, Musée des Plans-Reliefs sýnir kort og líkön af hernaðarlegum mannvirkjum Frakka fyrr og síðar og Musée de l’ordre de la Libération er tileinkað frelsun Parísar úr höndum Þjóðverja í Seinni heimsstyrjöldinni. Jarðlest 8 að Invalides. Opið 10 til 17 daglega. Aðgangseyrir að öllum söfnunum 1.500 krónur. Heimasíðan.

>> Stórboginn(Grande Arche de la Défense) – Nokkuð utan við miðborgarkjarnann er að finna La Défense hverfið sem segja má að sé háhýsahverfi Parísar. Hér eru skýjakljúfar viðskiptaheimsins á einum og sama staðnum og það án þess að setja skugga á eldri hverfi borgarinnar. Hér er líka frægur skúlptúr, Stórboginn, sem á að vera nútímaútgáfa af Sigurboganum. Jarðlest 1 eða lest að Grande Arche de la Défense.

>> Rauða myllan (Moulin Rouge) – Það sem fyrr á árum var rauða hverfi Parísar er að hluta til enn rauða hverfið en þó með þeim formerkjum að ferðamenn koma hingað í stríðari straumum en gengur og gerist um vafasamari hverfi stórborga. Það helgast fyrst og fremst af frægð Rauðu myllunnar þar sem mjög ungar stúlkur dönsuðu fyrir auðuga eldri karlmenn við mikla hrifningu eftir opnun 1889. Enn dansa þar ungar stúlkur en nú meira klæddar en áður. Vændi er töluvert í nálægum götum en það er þó ekki ýkja áberandi. Boulevard de Clichy í átjánda hverfi. Jarðlest 2 til Blanche. Heimasíðan.

>> Konungshöllin (Palais Royal) – Þetta meistarastykki í miðborginni var um tíma aðsetur Lúðvíks konungs fjórtánda áður en Louvre og síðar Versalir heilluðu karlinn meira sem aðsetur. Eins og konungshöll á að vera er þessi ósköp falleg og ekki síðri er garður hallarinnar. Garðinn er hægt að skoða en höllina ekki. Place du Palais Royal. Hingað komist með jarðlestum 1 eða 7 að Pyramides. Opið frá 7:30 til 20:30. Heimasíðan.

>> Alexandersbrú (Pont Alexandre III) – Efalítið allra fallegasta brúin í París og vel skreytt skúlptúrum og sautján metra háum styttum við báða enda. Brúin stendur beint móti Hôtel des Invalides.

>> Ráðhúsið (Hôtel de Ville) – Vandfundnar eru fegurri byggingar en þessi hér við samnefnt torg í hjarta borgarinnar en skolli margir halda að hér sé raunverulega rekið hótel. Svo er þó ekki heldur er þetta Ráðhús Parísar og hefur aldrei verið hótel. Byggingin skreytt í bak og fyrir og forvitnilega að berja húsið augum. Torgið fyrir framan er æði frægt líka og ekki aðeins sökum þess að hér er sett upp skautasvell á veturnar. Hér fóru lengi vel fram allar aftökur í París. Byggingin því miður ekki opin skoðunar. Jarðlest 1 eða 11 að Place de Ville.

>> Bastillutorg (Place de la Bastille) – Engin ósköp að sjá en forvitnilegur staður fyrir söguáhugamenn. Það var nefninlega hér sem franska byltingin hófst með áhlaupi á Bastillu fangelsið þann 14. júlí 1789. Þeim degi er enn fagnað í dag bæði sem Bastilludeginum en ekki síður sem þjóðhátíðardegi Frakklands. Jarðlest 1, 5 eða 8 að Bastille.

>> Stórahöll (Grand Palais) – Reisuleg og mikil bygging sem byggð var sérstaklega fyrir Heimssýninguna árið 1900. Gengt þessari höll er önnur eins en mun minni hinu megin Signu. Byggingin hefur verið gerð upp og þar fara nú fram ráðstefnur og sýningar. Jarðlest 1 eða 13 að Champs-Elysées Clemenceau.

>> Chaillot höll (Palais de Chaillot) – Enn einn magnaður staður í París er þessi ágæta höll og Trocadéro garðurinn fyrir utan með sinn fagra gosbrunn. Chaillot höllin var byggð fyrir Heimssýninguna 1937 sem einnig fór fram í Parísarborg. Höllin sjálf afar fallegt mannvirki og útsýn héðan ágæt til miðborgarinnar. Innifyrir eru þrjú söfn. Annars vegar Mannkynssögusafn, Musée de l´Homme, og hins vegar sjóminjasafnið Musée de la Marine í vesturálmu hallarinnar og hér er líka arkitektasafnið Cité de l’architecture et du patrimoine. Þar er sérstök áhersla lögð á arkitektúr í Frakklandi eftir franska einstaklinga. Hér er sömuleiðis Chaillot þjóðarleikhúsið sem lengi hefur verið vettvangur tónleika og stærri viðburða og er enn. Staðurinn auðfundin enda þráðbeint á móti Eiffel turninum hinu megin árinnar. Jarðlest 6 eða 9 til Trocadéro.

>> Cluny safnið (Musée de Cluny) – Betur þekkt meðal heimamanna sem Miðaldasafnið eða Musée National du Moyen Âge en hér eru til sýnis munir og verk frá miðöldum. Umgjörðin ekki af verri endanum enda safnið staðsett í því sem voru rómverskar rústir og gömlum miðaldakastala. Flókið dálítið en skýrist þegar komið er á staðinn. Flott safn í hjarta borgarinnar á Place Paul Painlevé torgi. Jarðlest 10 að Cluny. Opið daglega 9 til 18 nema mánudaga. Miðaverð 1.200 krónur. Heimasíðan.

>> Louis Vuitton stofnunin (Fondation Louis Vuitton)  –  Glæsilegt nýtt safn hannað af hinum fræga Frank Gehry með hjálp frá hinum hálfíslenska Ólafi Elíassyni. Innandyra eru mismunandi sýningar en hugmyndin þó að verk í eigu fjölskyldu tískugúrúsins Louis Vuitton verði hér í aðalhlutverki. Það ekkert slæmt því safn þeirra telur mörg þúsund merkileg verk af ýmsum toga. Opið daglega milli 12 og 19 en á föstudögum lokar ekki fyrr en um kl.23. Það er staðsett við Avenue du Mahatma Gandhi. Jarðlestarstöð Les Sablons og þaðan tíu mínútna gangur eða strætisvagn 244 sem stoppar hér fyrir utan. Almennt miðaverð 1.900 krónur. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Vá! Það er líkast til aðeins upphrópun á borð við vá sem getur komist nærri því að gera verslun í París einhver skil og dugar þó varla til. Hér fæst allt milli himins og jarðar og sérstaklega er yndislegur mikill fjöldi smærri sérverslana sem selja ótrúlegustu hluti og gera það raunverulega gaman að kíkja í verslanir. Keðjuverslanir sem tröllríða heiminum finnast hér en eru ekki eins áberandi og víða annars staðar.

Heila símaskrá þyrfti til að gera verslun í París sæmileg skil. Eftirtalin eru þó helstu svæðin miðsvæðis. Hafa skal í huga að verðlag almennt í París er hátt og nokkuð yfir því sem gerist og gengur heima á Fróni. Auðvitað finnast þó verslanir sem selja ódýrari varning og klæði en slíkar verslanir eru dreifðari um borgina og jafnvel faldar í hliðargötum sem erfitt er að finna fyrir ferðamenn með lítinn tíma.

 • Faubourg Saint-Honoré / Louvre /Tuileries – Sé feitur peningur í veskinu er þetta besta verslunarsvæðið enda hér að finna flestar af helstu lúxustískuvöruverslunum heims. Ekki fær hver sem er að rölta þar inn. Jarðlest 1 að Tuileries.
 • Boulevard Haussmann – Helstu verslunarkjarnar borgarinnar eru hér og þar á meðal frægasta stórverslun Parísar Galeries Lafayette. Þar er allt undir einu þaki en sú verslun er ekki í ódýrasta kantinum. Jarðlest 3 eða 7 að Opera.
 • Marais hverfið – Gamalt og heillandi hverfi en töluverður fjöldi óþekktari sérverslana hér að finna. Sérstaklega hafa skartgripa- antík- og listaverkasalar komið sér hér fyrir en tískuvöruverslanir eru hér allnokkrar.
 • Champs Elysées / Avenue Montaigne – Síðarnefnda gatan er smám saman að taka titilinn af Saint Honoré sem mesta lúxus verslunargatan en á þeirri fyrrnefndu er að finna samansafn ýmislegra forvitnilegra búlla. Jarðlest 1 eða 9 að Franklin D. Roosevelt.
 • Saint Germain des Pres – Hér er mesti glansinn farinn af þeim vörum sem margir selja hér. Antíkmunir og safngripir ganga hér mikið kaupum og sölum. Inn á milli má finna hönnunarbúðir og bókabúðir eru hér allmargar. Hér er líka stórverslunin Le Bon Marché hvers matarmarkaður þykir með þeim bestu í borginni. Jarðlest 4 að Saint Germain des Pres.
 • Les Halles / Rue de Rivoli – Les Halles er gríðarstór verslunarmiðstöð neðanjarðar og þar má finna velflestar keðjuverslanir heims á einum stað. Sama er uppi á teningnum við Rue de Rivoli þar sem þekktar verslanir eru í tonnavís. Jarðlest 4 að Les Halles.

Matur og mjöður

Sé þörf á heilli símaskrá til að gera verslunum í París sæmileg skil þarf nokkrar slíkar til að rispa örlítið yfirborðið varðandi mat og vín í París. Þó aðrar borgir státi nú af mörgum frábærum veitingastöðum er París enn í fararbroddi hvað varðar hinar frægu Michelin stjörnur. Meira að segja staðir með engar slíkar á efnisskránni eru fyrirtak.

Ritstjórn Fararheill hefur þá reglu í erlendum borgum að vera ekkert að fletta bókum eða netsíðum í leit að eðalfínum veitingastöðum heldur nægir ósköp einfaldlega að spyrja næsta heimamann. Sá veit yfirleitt ári á undan skríbentum á netinu hvaða ákveðnu staðir eru „inni“ þá stundina og einnig hvort hinn og þessi staðurinn er dýr eða ódýr. Yfirleitt leggja þeir glaðir eitthvað til málanna og hefur ritstjórn aldrei orðið fyrir vonbrigðum með slík ráð.

Þetta er hægt í París enda fara borgarbúar oft út að borða og þekkja sinn mat. Sé feimni við það eru hér nokkrir staðir miðsvæðis sem fá fínar einkunnir gesta á ferðavefsrisanum Tripadvisor, á vef Michelin sem er ennþá biblían í matarbransanum og á vef Zagat sem er hinn upprennandi risi í þeim bransa.

 • A la Biche au Bois – 45 Avenue Ledru-Rollin
 • Chez Clément Saint Michel – 9, place Saint-André des Arts
 • L´Accolade – 23, rue Guillaume Tell
 • Le Denicheur – 4, rue Tiquetonne
 • Kintaro – 24, rue Saint Augustin
 • Auguste – 54, rue de Bourgogne
 • Le Relais Louis XIII – 8, rue des Grands Augustins
 • La Truffe Noire – 2, place Parmentier
 • Le Celadon – 15, rue Daunou

Að þessu sögðu skal fólk vera óhrætt að prófa og hafa skal í huga að margir af bestu veitingastöðum Parísar líta ekki út fyrir að vera mjög merkilegir við fyrstu sýn. Allmargir staðir með Michelin stjörnur eru ekki skreyttir gulli í hólf og gólf heldur þvert á móti virðast örlítið fráhrindandi.

Þá er tímanum illa varið í París ef ekki er sest niður með glas af víni minnst einu sinni og helst oftar. Kaffihúsin meðfram Signu eru hvert öðru yndislegri og mörg hver stórkostlegur útsýnisstaður yfir mannlífið í borginni. Eitt það vinsælasta er La Coupole en þar settust niður í denn tíð fólk á borð við Hemingway, Josephine Baker og Salvador Dali svo fáir séu nefndir. En með slíkt úrval afbrags kaffihúsa er ekki verri kostur að finna annað og gera að sínu í stað þess að elta aðra túrista því hlutirnir geta orðið talsvert ódýrari fyrir vikið.

Til umhugsunar: Ekki er þörf að skilja eftir þjórfé í París né annars staðar í Frakklandi. Þjónustugjald er innifalið í reikningnum. Að því sögðu er eðlilegt að tippa ef þjónustan eða maturinn er fram úr hófi.

Líf og limir

Ákveðin svæði í París er best að sneiða algjörlega hjá og hafa skal góðan vara á sér seint um kvöld eða að næturlagi. Það á við um Rue St. Denis hjá Pompidou safninu. Sama gildir um Place Pagalle fyrir neðan Montmartre. Þá er takmarkað sniðugt að labba við Forum des Halles eða Barbes breiðgötu eftir að skyggja tekur.

Þjófnaðir eru nokkuð algengir á stöku stöðum og ýmsir hugsa sér gott til glóðar að rekast á drukkið fólk á vafri.

Þó þjófnaðir séu vandamál eru það svikahrappar sem eru mesta bölið í París. Þeir halda sig nálægt ferðamannastöðum og bíða færis. Gullna reglan er að stoppa alls ekki á götum eða torgum þegar einhver kallar á þig eða þykist eiga við þig erindi. Undantekningarlítið er sá að draga athygli þína að sér meðan félagar ræna þig öllu merkilegu.

View París Frakkland in a larger map