Skip to main content

M eð tilkomu Eyrarsundsbrúarinnar mikilfenglegu milli Danmerkur og Svíþjóðar er nú sáraeinfalt mál að heimsækja Malmö frá Kaupmannahöfn ellegar öfugt. Aðeins 20 mínútur skilja borgirnar tvær að með lest og litlu lengur með bíl. Það er því þjóðráð að takast stutta ferð á hendur ef dvalist er í Kaupmannahöfn en í Malmö tekur ekki langan tíma að sjá og upplifa það markverðasta. 

Hún er þriðja stærsta borg Svíþjóðar og er best lýst sem hafnarborg þó þjónustuiðnaður fari þar hratt vaxandi sem annars staðar. Hún hefur verið vinsæl borg að heimsækja fyrir Svía enda héraðið fallegt og í grennd við Malmö má meðal annars finna sæg golfvalla. Hér búa 275 þúsund manns sem þýðir að Íslendingar ættu að finna sig nokkuð vel hér.

Þó töluverður munur sé á Svíum og Dönum og Íslendingar margir kjósi félagsskap þeirra síðarnefndu er ekki svo einfalt að flokka íbúa Malmö. Borgin var eitt sinn dönsk og yfirbragð hennar er meira danskt en sænskt. Sama á við um hugarfar borgaranna sem er ólíkt léttara en til dæmis í Stokkhólmi, Gautaborg eða norðar í landinu.

Til og frá

Kaupmannahafnarflugvöllur

Fyrir Íslendinga er handhægast að fljúga til Kaupmannahafnar og taka þaðan bíl, lest eða rútu yfir Eyrarsundið. Sérstakir sænskir leigubílar bíða á sérmerktu stæði fyrir utan flugstöðina í Kastrup sem fara beinustu leið til Malmö á 40 mínútum eða svo. Það kostar þó aldrei minna en 14 þúsund krónur.

Mun betri leið er þó að stíga beinustu leið upp í lest. Fara þrjár slíkar hverja klukkustund frá flugstöðinni og til aðalstöðvarinnar í Malmö og einu sinni hverja klukkustund á kvöldin og næturna. Stakt far kostar 1800 krónur og tekur túrinn 30 mínútur. Miða er hægt að kaupa á sölustöðvum í flugstöðinni sjálfri ellegar í sjálfsölum á brautarpallinum.

Allra ódýrast er að taka rútu en fyrirtækið Graahundbus þjónustar þessa leið. Eru þeir vagnar merktir 999. Stakt fargjald kostar 1500 krónur og fer unglingur eða barn undir sextán ára aldri ókeypis með hverjum fullorðnum. Kaupa skal miða í vagninum.

Malmö flugvöllur

Sé flogið til Sturup flugvallar sem er formlega alþjóðaflugvöllur Malmö eru aðeins leigubílar eða rútuþjónusta í boði. Völlurinn er 30 kílómetra frá borginni og tekur ferðin um 20 mínútur. Fyrir fargjald með rútunni greiðast 1800 krónur aðra leið. Leigubíll verður vart ódýrari en 6000 krónur í miðbæ Malmö.

Ratvísi

Engin vandamál hér. Borgin er lítil og nett og erfiðara að villast á Hvolsvelli.

Samgöngur og snatterí

Eins og Svíum er gjarnan lagið eru almenningssamgöngur hér fyrsta flokks þó vandséð sé í raun hversu mikið notagildi þeirra er fyrir ferðamenn. Borgin er lítil og það sem er spennandi að sjá er í og við miðbæinn. Fólk í sæmilegu formi klárar þann rúnt á tveimur dögum sléttum fótgangandi.

Líkt og í Kaupmannahöfn eru aðstæður hér frábærar fyrir hjólreiðafólk og hjól hægt að leigja á allnokkrum stöðum. Mikill fjöldi grænna svæða, garða og stíga gera það að dásamlegum hlut að þvælast um á hjóli.

Sé um styttri ferðir að ræða til skoðunar duga tveir jafnfljótir vel til brúksins. Allt merkilegt í borginni sjálfri er vel innan göngufæris kringum miðborgarsvæðið. Þá eru göngutúrar hollir og spara þér talsvert fé.

Hinir fölgrænu strætisvagnar borgarinnar fara vítt og breitt eins og sjá má á þessu korti. Skånetrafiken heitir almenningsvagnafyrirtæki borgarinnar og á heimasíðu þeirra má fá frekari upplýsingar og finna vegvísi. Miðaverð er misjafnt eftir vegalengd en miða má kaupa í sjoppum, á stoppistöðvum flestum og í vögnunum sjálfum.

Leigubílar eru dýrir hér sem annars staðar í Svíþjóð. Startgjald þeirra er rúmlega 900 krónur á daginn.

Söfn og sjónarspil

>> Listasafn Malmö (Malmö Könstmuseum) – Besta listasafn borgarinnar sem státar af einum mesta fjölda verka norrænna listamanna í allri Skandinavíu. Þar eru reglulega einnig áhugaverðar farandsýningar. Safnið er í Malmöhus höllinni í 15 mínútna göngufæri frá miðbænum. Strætisvagnar 3 eða 32 til Tæknisafnsins. Opið 10 – 16 milli júní og ágúst en 12 – 16 þess utan. Aðgangseyrir 700 krónur fyrir fullorðna. Heimasíðan.

>> Listahöllin (Malmö Könsthall) – Stærri farandsýningar enda gjarnan hér enda eitt stærsta listahús Norðurlanda og var á sínum tíma merkilegt mannvirki. Það er þó komið nokkuð til ára sinna og sýningum hér fer fækkandi. Fylgjast skal með á heimasíðu safnsins. Strætisvagnar 2,5 eða 7 úr miðbænum til Triangeln. Opnunartími misjafn. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.

>> Duggusafnið (Koggmuseet) – Vinsælasta safn Malmö er þetta miðaldasafn í hafnarhverfinu. Tvær duggur í fullri stærð þar til sýnis og hægt að fara með þeim rúnt á haf út. Þar er ennfremur veitingastaður sem þykir spennandi enda áherslan á þjóðlegan mat. Strætisvagn 2 eða 3 að Nýhöfn, Nyhamn. Opið frá apríl til október milli 11 og 16 en lokað þess utan. Aðgangur 700 krónur en 1200 krónur sé farin dugguferð. Heimasíðan.

>> Gangnasafnið (Citytunneln) – Göng þau er tengja borgina við Eyrarsundsbrúnna eru merkilegt mannvirki og flókið. Þetta safn gefur innsýn í það verkefni. Aðgangur frír. Heimasíðan.

>> Leikfangasafnið (Leksaksland) – Leikföng frá a til ö sem börnin ættu að hafa gaman af nema hvað ekki má snerta neitt. Forvitnilegt engu að síður. Strætisvagnar 3 eða 7 til Slussen. Opið miðviku – sunnudaga milli 11 og 16. Miðaverð 700 krónur. Heimasíðan.

>> Hönnunarsetrið (Form/Design Center) – Við Lilletorg stendur þetta hönnunarsafn og þykir gott. Mestmegnis farandsýningar svo fylgjast verður með heimasíðu ellegar bara koma við enda vart hægt að vera meira í miðborg Malmö en hér. Opið 11 – 17 virka daga nema mánudaga og 12 til 16 um helgar. Aðgangur frír. Heimasíðan.

>> Hallargarðurinn (Slottsparken) – Stór, opinn og fallegur garður í miðborginni aðeins kílómetra frá lestarstöðinni. Hingað sækir fjöldi fólks á öllum tímum en mest á sumrin. Tjarnir, dýralíf og mannlíf og lítill japanskur garður til að toppa allt. Opinn allt árið. Nánar hér.

>> Súkkulaðifabrikkan (Chokladfabriken) – Eigendur kalla þetta safn og skrá það þannig en í raun er það sölutrix enda er um alvöru súkkulaðiverksmiðju að ræða. Fjölmargar tegundir og sannarlega freistandi að kíkja.  Kaffihús á staðnum til að njóta veitinganna. Opið virka daga milli 12 og 18 og 10 til 14 á laugardögum. Lokað sunnudaga. Frítt inn. Heimasíðan.

>> Hallarkastalinn (Malmöhus) – Einn elsti kastali Norðurlanda og sá elsti sem reistur er undir áhrifum Endurreisnarinnar. Forvitnilegur en ekki fallegur en umhverfið flott í Hallargarðinum. Þetta var upphaflega virki mikið og sterkt en vann þó ekki á tímanum og aðeins hluti virkisveggsins stendur. Innandyra er meðal annars lítið dýra- og sædýrasafn og menningarsafn. Hér er einnig Listasafn Malmö og ásömu lóð er Tækni- og hafsögusafn. Opið 10 – 16 milli júní og ágúst en 12 – 16 þess utan. Aðgangseyrir 700 krónur fyrir fullorðna.

>> Hinn snúni búkur (Turning Torso) – Ein er sú bygging sem staðsett er í Malmö sem er þekkt um heim allan en það er þessi merkilegi turn sem lítur út eins og snúinn eða beygjandi búkur. Byggingin er hæsta bygging á Norðurlöndum öllum og er blanda skrifstofu- og íbúðahúsnæðis. Hún er sjáanleg langt að úr öllum áttum en ekki er í boði að skoða hana að innan nema eigi vini sem þar búa. Í flæðarmálinu skammt frá bygginguni er vinsælasti sjósundsstaður borgarinnar.

>> Möllevangstorgið (Möllevångstorget) – Beint suður af miðborginni liggur þetta torg sem er iðandi af lífi öllum stundum. Það gengur undir nafninu Möllan en þarna er fjöldi fyrirtækja og verslana í eigu innflytjenda og því annar bragur þarna í kring en finnst annars staðar í borginni. Þá er og góður ávaxta- og grænmetismarkaður á laugardögum.

>> Gamla Vestra (Gamla Väster) – Svæðið milli Hallarkastalans og Lillatorgs er í ríkari kantinum en það sem betra er að fjölmörg smærri listagallerí er þar að finna.

>> Péturskirkjan (St. Petri kyrke) – Elsta kirkja Malmö og elsta standandi byggingin í borginni. Að margra mati ein fallegasta kirkja Svíþjóðar. Heimasíðan.

>> Borgarbókasafnið (Malmö Stadsbibliotek) – Fyrir alla sem hafa snefil af arkitektúr í blóðinu þá er safnið sjálft skoðunar vert enda glæsilegt. Heimasíðan.

>> Almenningsgarðurinn (Folkets Park) – Þó enginn skortur sé á fallegum görðum víða um borgina er aðeins einn sem gengur undir nafninu „almenningsgarðurinn“. Stór, fjölbreyttur og pakkaður af fólki þegar sólin skín. Fjölmargt að sjá og skoða og leiktæki og tívolístemmning fyrir smáfólkið. Fyrir þá eldri er lifandi tónlist og útikaffihús. Strætisvagnar 5 eða 32 frá Aðalstöðinni. Alltaf opinn og alltaf frítt inn í garðinn. Heimasíðan.

>> Ribersborgarströndin (Ribersborgsstranden) – Vinsælasta baðströnd Malmö og fín fyrir alla aldurshópa enda grunnsævi langt út í sjó. Löng bryggja hér og fjöldi skemmtibáta. Lifandi staður.

Verslun og viðskipti

Eins og aðrar norrænar borgir er fínt úrval verslana og vara í borginni en að megninu til er það í dýrari kantinum.  Borgarbúar hér eru mest fyrir verslunarmiðstöðvar sem sést hvað best á að hér eru einar fjórar slíkar. Þar er langmesta úrvalið sé hugmyndin að eyða peningum.

Til umhugsunar: Þó aðeins séu nú rúmlega 20 mínútur milli Malmö og Kaupmannahafnar er verðlag almennt hærra Svíþjóðarmegin. Þá finnst fátt í Malmö sem ekki finnst í Kaupmannahöfn og því heilt yfir vænlegra að snúa sér þangað.

Verslunarmiðstöðvarnar fjórar eru:

♥  HansaCompagniet – Við Store Nygade er þessi með mikið úrval en þó mest í fatnaði. Opið alla virka daga 10 – 19 og 12 – 16 um helgar.

♥  Triangeln –  Skammt frá Pilldammsgarðinum stendur þessi nýtísku miðstöð. Yngra fólk finnur hér ýmislegt við hæfi. Strætisvagnar 1,2,3,4,5 og 6 stoppa allir fyrir utan.

♥  Storgatan – Tískufatnaður á tískufatnað ofan en einnig H&M. Töluvert smærri en hinar. Opið virka daga 10 – 19 en 10 – 17 á laugardögum.

♥  Caroli – Við Östergade stendur þessi ágæta miðstöð. Enn og aftur eru tískuvörurnar áberandi í hillum hér en úrval annarra vara líka. Strætisvagnar 3 eða 7. Opið virka daga 10 – 19 og 12 – 16 um helgar.

Helstu verslunargöturnar eru Södergatan og Södra Förstadsgatan með margvíslegum verslunum.

Matur og drykkur

Malmö er engin sælkeramekka en hefur sinn skerf af bráðfínum veitingastöðum. Það kostar þó skildinginn að snæða þar. Margir smærri veitingastaðir eru dreifðir í hinum ýmsu götum miðborgarinnar og lítið mál að fylla svangan maga. Ódýrasta svæðið er þó án alls efa í innflytjendahverfinu kringum Möllevångstorgið.

Til umhugsunar: Tvö fríblöð liggja víða á börum borgarinnar sem bæði gefa góða innsýn í hvað er vinsælt hverju sinni í mat og drykk. Þau eru þó aðeins á sænsku en heimsíður þeirra eru uppfærðar nokkuð reglulega. Nöjesguiden, Dygnet Runt.

Líf og limir

Borgarbúar sumir hverjir kalla Malmö hina sænsku Chicago sökum fjölda smáglæpa sem þar eiga sér stað. Ferðamenn eru ekki sérstök skotmörk og verða sjaldan fyrir áreiti. Þó ber hér eins og annars staðar að nota hina frægu heilbrigðu skynsemi. Hverfi innflytjenda eru verri hvað þetta varðar en önnur hverfi.

Töluvert er um leigubílasvik og forðast skal alfarið að taka ómerktan leigubíl. Semja skal um verð í upphafi ferðar og undir engum kringumstæðum þvælast um í leigubíl kófdrukkin. Bílar eru dýrir hér og margir smyrja ofan á það eins og þeir geta.

View Larger Map