Kannski er þetta munurinn á raunverulegu lággjaldaflugfélagi og hinum. Lægstu fargjöld Norwegian frá Keflavík til Barcelóna og heim aftur með farangur innifalinn eru gróflega HELMINGI LÆGRI en allra lægstu fargjöld Wow Air alla næstu mánuðina.

Tvö lággjaldaflugfélög. En annað þeirra býður miklu lægri fargjöld…

Barsa er alltaf góður áfangastaður. Vissulega skemmir aðeins að 50 milljón aðrir erlendir ferðamenn virðast vappa um borgina hvenær sem er ársins en Barsa er bara samt stórkostleg heimsóknar.

Barcelóna er líka sú borg heims, að meðtaldri London, þar sem við klakabúar njótum raunverulegrar samkeppni til og frá. Milli Keflavíkur og Barcelóna fljúga fjögur flugfélög nokkuð reglulega: Wow Air, Icelandair, Vueling og Norwegian og endrum og sinnum bætist Primera Air í hópinn.

Og hvað gerist þegar íslensk flugfélög fá loks alvöru samkeppni? Júbbs. Þau dragast afturúr og geta ekki eða vilja ekki keppa í verði.

Brilljant dæmi um þetta er að bera saman lægstu fargjöld Norwegian annars vegar til Barcelóna og Wow Air hins vegar. Bæði kalla sig lággjaldaflugfélög og Wow Air þykist meira að segja vera flugfélag fólksins. En Wow Air virðist vera flugfélag ríka fólksins sé mið tekið af fargjöldum þess til Katalóníu ef taska er með í för.

Í yfirstandandi mánuði kemst einstaklingur út og heim aftur með Norwegian (25.-29.) með handfarangur og innritaða 20 kílóa tösku fyrir heilar 29.274 krónur miðað við miðgengi dagsins. Lægsta verð á flugi fram og aftur með Wow Air á Wow Plus farrými (16.-26.) kostar manninn 44.241 krónu. Ekki nema 54% verðmunur á sömu vörunni.

Kíkjum á október. Allra ódýrasta fargjald báðar leiðir með Wow Air þann mánuðinn (19.-26.) kostar 45.241 krónu. Sama leið í sama mánuði með Norwegian (11.-16.) kostar manninn 24.213 krónur miðað við miðgengi dagsins. Ekki nema 86% verðmunur á sömu vörunni.

Allt er þegar þrennt er sagði einhver spekingur. Við förum að ráði hans og kíkjum á desember. Lægsta verð með tösku báðar leiðir með Wow Air (4.-14.) reynist kosta 33.991 krónu. Norwegian býður hins vegar best (1.-11.) fargjald fram og aftur fyrir 22.900 krónur á mann. Það 48% lægra verð hjá þeim norsku.

Vitum ekki með ykkur þarna úti en slíkur verðmunur hjá tveimur flugfélögum sem bæði kalla sig lággjaldaflugfélag er vægast sagt óeðlilegur.