Það fjandanum erfiðara að ferðast þessa síðustu og verstu. Ekki aðeins eru takmarkaðar ferðir til og frá landinu heldur og breytist það á fimm mínútna fresti hvort áfangastaðurinn tekur á móti ferðafólki eða ekki.

Eitt að vera með farmiða út í lönd. Annað að komast inn þegar á staðinn er komið.

Vissulega hægt að gúggla sér til um hina og þessa staðina en fjöldi greina um efnið er orðinn slíkur að erfitt getur verið að meta hvað er rétt, hvað er rangt og hvort upplýsingarnar séu glænýjar.

Fátt jafn súrt en komast að því á áfangastað að þín bíður fimm til fimmtán daga löng sóttvarnardvöl og sá gistikostnaður lendir alfarið á þér. Slíkt er í gildi víða og er jafnvel mismunandi á milli svæða innan sama lands. Svo er líka mögulegt að þú verðir beinlínis að snúa við sökum lokunar. Í öllu falli er fríið farið fyrir lítið.

En Evrópusambandið hefur loks kynnt til sögunnar kort sem á að hafa allra nýjustu upplýsingar frá öllum ríkjum álfunnar hverju sinni. Á vefmiðlinum Re-Open EU má finna þær upplýsingar.

Mælum eindregið með heimsókn þangað áður en farmiði er bókaður eða stigið er um borð í relluna.