Árið 2016 liðið og kemur aldrei aftur nema einhver finni upp tímavél. Jafnvel varla þá því árið var ekki beint hið jákvæðasta fyrir tímaferðalanga. Bowie farinn, Trump valinn, Ólafur Ólafsson laus úr prísund, veröldin sýður og landinn fitnar og étur pillur eins og heimsendir sé handan við hornið.

Annað árið í röð er Primera Air Svarti sauður ársins. Hamingjuóskir til Andra Más frá ritstjórn Fararheill.
Svo ekki sé minnst á flugfélagið Primera Air sem annað árið í röð er Svarti Sauður ársins samkvæmt úttekt Fararheill á kvörtunum og kveinum flugfarþega sem bárust Samgöngustofu á því herrans ári 2016. Vel að merkja: kvörtunum, kveinum og bótakröfum sem flugfélagið blés á og hafnaði en varð að éta ofan í sig á endanum.
Alls komu 78 kvartanir á borð Samgöngustofu nýliðið ár sem margar hverjar eru frá árinu 2015. 95 prósent þeirra mála bótakröfur á hendur þeim flugfélögum sem fljúga til og frá landinu vegna ýmislegra vandamála þó meirihlutinn vegna alvarlegra tafa og seinkana.
Af þessum 78 málum voru hin ýmsu flugfélög dæmd til að greiða viðskiptavinum sínum bætur í 50 tilvikum. Af þeim 50 málum átti Primera Air Andra Más Ingólfssonar hlut að máli í 26 tilvikum. Tuttugu og sex sinnum gerði flugfélagið á hlut farþega sinna og gerði svo illt verra með að hafna alfarið að koma til móts við fólk vegna tafa og seinkana. Í öllum málunum var svo dæmt viðskiptavinum í vil á endanum. Með öðrum orðum: Primera Air vann ekki eitt einasta mál.
Góðu fréttirnar þó þær að Primera Air er örlítið að bæta sig frá meistaratitilsárinu 2015 þegar fyrirtækið fékk á sig 40 bótakröfur og þurfti að lúta í gras í 31 skipti.
Icelandair sem árið 2015 varð í öðru sæti heldur sama sæti nú en tekur sig líka töluvert á samkvæmt listanum 2016. Það flugfélag var dæmt til að greiða bætur í tíu skipti alls. Wow Air þurfti að punga út bótum sex sinnum og fjögur erlend flugfélög, Airberlin, Wizz Air, Evelop og Norwegian tóku restina.
Óhætt fyrir þá sem telja á sér brotið af hálfu Primera Air eftirleiðis að láta reyna á hlutina. Ekki mörg fyrirtæki þessa heims sem hafa 100% rangt fyrir sér 🙂







