Annaðhvort voru flugfélög sem fljúga til og frá Íslandi að standa sig verr en nokkru sinni ellegar að flugfarþegar eru loks að átta sig á því að það þarf ekki að taka lélegri eða ómerkilegri þjónustu þegjandi og hljóðalaust. Nema hvoru tveggja sé.

Primera Air og Icelandair þurftu að punga mest út á árinu 2015.

Primera Air og Icelandair þurftu að punga mest út á árinu 2015.

Samkvæmt úttekt Fararheill á kvörtunum og bótakröfum farþega sem Samgöngustofu barst á liðnu ári kemur í ljós að fjöldinn hefur aldrei verið meiri. Alls tók stofnunin 95 mál til meðferðar árið 2015 eða ellefu fleiri en metárið 2012. Hafa skal hugfast að hluti þeirra mála sem komu á borð Samgöngustofu 2015 voru vegna ferða 2014.

Engum á að koma á óvart að svarti sauður ársins er flugfélagið Primera Air að hluta í eigu Andra Más Ingólfssonar. Það flugfélag verið mikið í fréttum þetta árið fyrir tafir og vesen af ýmsu tagi. Alls tók Samgöngustofa afstöðu til tæplega 40 bótakrafna á hendur Primera Air og 31 sinni var flugfélagið dæmt til skaðabótagreiðslna.

Rétt á eftir Andra Má og félögum kemur svo flugfélagið Icelandair. Rúmlega 30 kröfur gerðar um bætur af hálfu þess flugfélags og nítján sinnum þótti flugfélagið hafa gert nóg á hlut viðskiptavina til að greiða út bætur.

Þessi tvö flugfélög eru í algjörum sérflokki á svarta listanum. Í þriðja sætinu er þýska flugfélagið Airberlin sem skyldað var til að greiða óánægðum farþegum sínum bætur í fjögur skipti. Wow Air og easyJet fengu þrjár pillur hvort fyrirtæki og Germanwings, SAS, Transavia og Vueling þurftu einu sinni að punga út seðlum.

Sérstaka athygli vekur hve Wow Air er að taka til í sínum ranni. Wow Air var svarti sauður ársins 2014 samkvæmt úttekt okkar þá eins og lesa má um hér. Óhætt að klappa þeim lof í lófa. Að sama skapi var árið óspennandi fyrir Icelandair. Fjöldi mála þeim í óhag fjölgaði milli ára um 850 prósent.

Fínt að hafa þetta í huga þegar bóka á flug út í heim eða heim. Vonandi kemur aldrei neitt upp á en ef það gerist er ágætt að muna hvaða aðilar berjast á hæl og hnakka til að viðskiptavinir fái ekki lausn sinna mála.