Gleðidagur fyrir ferðaþyrsta Íslendinga. Wow Air hefur hafið sölu á farmiðum til Los Angeles og San Francisco í Bandaríkjunum en flug til beggja staða hefst næsta sumar. Lægsta verð út 19.999 krónur án farangurs. Flottur prís en nokkuð blekkjandi líka.

Ódýrt út. Dýrt heim. Mynd Wow Air

Ódýrt út. Dýrt heim. Mynd Wow Air

Flug á því verði er mjög af skornum skammti á vef Wow Air. Aðeins er um þrjár dagsetningar að ræða í júní og svo ekki aftur fyrr en komið er fram í október sem hægt er að fljúga svo ódýrt þegar þetta er skrifað.

Gott og blessað með það. Verra kannski að meginþorri þeirra sem ferðast þurfa að komast heim til baka á einhverjum tímapunkti og þar versnar töluvert í því. Lægsta fargjald sömu leið til baka frá San Fran til Íslands næsta sumar kostar nefninlega að lágmarki 47.999 krónur. Lægsta verð til baka er því 140% dýrara en lægsta fargjald út. Merkilega mikil verðbólga á heimleiðinni.

Þetta merkir því að flug fram og aftur að sumarlagi kostar ferðalanginn að lágmarki 60.997 krónur og það áður en nokkur farangur bætist við. Þurfi fólk eina tösku meðferðis kostar það 6.999 krónur hvora leið fyrir sig eða 13.998 krónur í ofanálag.

Lágmarks kostnaður per haus fyrir flugið miðað við tösku meðferðis kostar því 74.995 krónur eða 37.497 hvora leið um sig. Ekkert hræðilegt en töluvert dýrara en 19.999 krónur.

Engu að síður frábært að vera komin í samband við Kaliforníu enda enginn skortur á forvitnilegum hlutum að sjá eða gera í því sólskinsríki.