Skip to main content

Þ að er fjarri því fráleitt að segja að Azoreyjur séu eins konar litli bróðir Íslands. Föðurlandið á ýmislegt sameiginlegt með þessum níu portúgölsku eyjum sem saman kallast Azoreyjar.

Þar fyrst og fremst sú staðreynd að eins og Íslandið eru Azoreyjur úti í ballarhafi Atlantshafsins. Í annan stað fyrir þær sakir að þær, eins og Ísland, komu upp á yfirborðið vegna eldsumbrota á Mið-Atlantshafshryggnum og þar lifir í gömlum glæðum eins og heima á Fróni. Í þriðja lagi vegna þess að íbúafjöldi Íslands og Azoreyja er rösklega sá sami. Fjórða ástæðan sú að íbúar beggja lifa á fiskveiðum, landbúnaði og túrisma. Síðast en ekki síst er hér hiti í jörð sem heimamenn reyna að nýta eftir bestu getu.

Eyjurnar níu skiptast í þrjú svæði eftir legu. Vestureyjurnar, grupo ocidental, eru Flores og Corvo. Miðeyjurnar, grupo central, eru Terceira, Graciosa, São Jorge, Pico og Faial. Vestureyjurnar, grupo oriental, eru svo São Miguel, Santa Maria og Formigas. Hvert svæði um sig á sína „höfuðborg“ og því eru þrjár höfuðborgir á Azoreyjum. Það eru Ponta Delgada á São Miguel, Horta á Faial og Angra do Heroísmo á Terceira.

Eyjurnar níu eru nokkuð líkar hvor annarri eins og gengur en þó eiga þær flestar sinn sérstaka sjarma eins og lesa má um í vegvísum Fararheill um helstu staði og borgirnar.

Hitastig hér um slóðir er æði jafnt og gott eða kringum fimmtán stig að meðaltali allan ársins hring. Ekki heldur dapurt að skjótast í sjóbað hér því sjávarhiti hangir í sömu tölu líka. Hér rignir þó nokkuð reglulega og sérstaklega yfir vetrartímann.

Á öllum eyjunum að Formiga undantalinni finnst öll helsta þjónusta, hótel og veitingastaðir en misjafnt er hversu mikið er að sjá og gera á eynum. Sú vinsælasta og sú eina með alþjóðaflugvöll er São Miguel. Þaðan er hægt að fljúga með smærri rellum milli eyjanna en yfir sumartímann er einnig hægt að taka ferju á milli. Hingað er flogið reglulega frá Madeira, Lissabon og Porto og auk þess er nokkuð reglulegt flug frá Bretlandi og Þýskalandi.

Einhver kynni að halda að Azoreyjur væri ekki svo mjög frábrugðnar Madeira sem einnig er portúgölsk en einum og hálfum tíma sunnar. Svo er þó ekki. Hvorki menningarlega né náttúrulega.