Skip to main content

A llra vinsælasti áfangastaður ferðamanna til Jamaíka á síðari árum hefur verið bærinn Ocho Rios sem staðsettur er í samnefndum flóa norðanmegin eyjunnar. Er bærinn vinsælt stopp að auki hjá hinum fjölmörgu skemmtiferðaskipum sem um karabíska hafið þvælast.

Bærinn sjálfur er lítið til að hrópa húrra fyrir því hótelin við ströndina eru meira eða minna lokuð af og himinn og haf er milli aðbúnaðar þar og inni í bænum sjálfum þar sem fólk býr við öllu verri aðstæður.

Ströndin hér er eins og annars staðar á eynni fyrsta flokks og hrein og allnokkrir ágætir veitingastaðir í bænum.

Hingað er hægt að koma fljúgandi á smærri vélum en flestir ferðamenn koma hingað gegnum Montego Bay eða Kingston. Er það gróflega um tveggja tíma rúntur frá báðum stöðum. Nóg er af viljugum leigubílstjórum og reyndar öðrum bílstjórum sem rúnta vilja með ferðamenn og er það þjóðráð því hægt er að díla um verðin og þau eru hagstæð. Hótelin bjóða líka skutlur fyrir gesti sína en það er vel smurt á prísinn þar.

Þó bæinn sjálfan skorti velflest áhugavert er töluvert að sjá í næsta nágrenni og þar er Dunn´s River Falls allra vinsælasti staðurinn. Eru það lítil en afar falleg vatnsföll í fimm mínútna fjarlægð frá bænum og í göngufæri. Enda fossarnir í sjávarmálinu þar sem er lítil einkaströnd og lítill bar til að kæla sig niður. Einnig er hægt að ganga út í fossana sjálfa og kæla sig þar ef drykkja er ekki á stefnuskránni. Aðgangur að fossunum kostar 2.000 krónur.

Örskammt frá Dunn fossunum er að finna Shaw grasagarðinn, Shaw Botanical Garden sem einnig státar af sínum fossum. Eins og nærri má geta er dýra- og plöntulíf fjölbreytt hér og garðurinn fallegur. Þaðan er líka ágætt útsýni yfir bæinn.

Hinu megin við Dunn fossa er að finna Höfrungalónið, Dolphin Bay, sem er vinsæll því þar gefst fólki kostur að synda með höfrungum, hákörlum og stórskötum í stóru yndislegu lóni. Er það þess virði jafnvel þó hér sé yfirleitt allt of mikið af fólki.

Í 20 mínútna fjarlægð frá Ocho er að finna James Bond ströndina og já, hún heitir James Bond ströndin. sú er vissulega stórfín. Þar á höfundur Bond, Ian Fleming, að hafa skrifað nokkrar af bókum sínum um njósnarann og síðar meir dvöldu hér um tíma meðlimir hljómsveitarinnar UB40 sem einmitt voru þekktir fyrir tónlist með reggítöktum. Hér er ágætur matsölustaður og útsýnið gott.

Hægt er að versla þetta hefðbundna ferðamannadót á öllum hótelum. Þá er tollfrjáls vínverslun við skemmtiferðaskipabryggjuna og þar er ágætt úrval þó verðlag sé dýrt miðað við súpermarkaðinn innar í bænum.


View Ocho Rios in a larger map