Hægt er að færa rök fyrir að í smábænum Torrevieja á Spáni fyrirfinnist sannarlega íslensk nýlenda enda eiga þar eignir nánast á sama blettinum fleiri hundruð, ef ekki beinlínis þúsundir, Íslendinga. Engu að síður er í raun aðeins ein einasta sönn Íslendinganýlenda til í veröldinni og það er bærinn Gimli í Kanada.

Gimli er smábær par exellans í rúmlega klukkustundar fjarlægð frá höfuðborg Manitóba fylkis, Winnipeg, en bærinn stendur á bökkum suðvesturhluta Winnipeg vatns. Par exellans vegna þess að hann er lítill og krúttlegur og að hluta til vegna þess að þar finnur aðkomufólk frá Íslandi strax fyrir hlýju og vinsemd heimamanna.

Þar búa rétt tæplega sex þúsund manns og þótt þeir Íslendingar sem hér settust að á nítjándu öldinni hafi dreifst nokkuð um bæði Manitóba er tiltölulega stór hluti íbúa sem rekur ættir sínar með einum eða öðrum hætti til Íslendinga. Allmargir eldri íbúar kunna hrafl í íslensku og það hrærir lítið íslenskt hjarta að sjá að allir bæjarbúar eru stoltir af þeim íslensku tengslum sem bærinn er þekktur fyrir.

Engin fær Gimli verðlaun fyrir fjölbreytta afþreyingu og líkast til gæti smáfólkinu farið að leiðast sé dvalið hér lengi. En Gimli snýst meira um arf okkar Íslendinga en afþreyingu eða dægradvöl. Hann snýst um að sýna þeim fulla virðingu sem lögðu líf og limi í hættu fyrir sig og sína á sínum tíma í von um að bæta líf sitt eins og fjölmargar bækur vitna um.

Til og frá

Fyrir Íslendinga eru tvær leiðir færar til Gimli á eigin spýtur. Einfaldast er að fljúga til Winnipeg og leigja þar bíl eða fljúga til Minneapolis í Bandaríkjunum en Manitóba fylki liggur að bandarísku fylkjunum Minnesota og Norður Dakóta. Leiðin frá Minnesota er talsvert löng og liggur gegnum borgirnar Fargo og Grand Forks eftir þjóðvegum en gera skal ráð fyrir sjö til átta klukkustunda stanslítilli keyrslu þá leiðina. Hún er þó skemmtileg og landslagið þess virði en jafnframt er möguleiki að aka krókaleiðir um sveitir Minnesota en þá skal gera ráð fyrir dagsferð til Gimli.

Til umhugsunar: Ekki er mögulegt að komast beint til Gimli frá Winnipeg með hefðbundinni rútu heldur verður að skipta um rútu á þeirri leið í bænum Selkirk. Túrinn í heild getur tekið tvær klukkustundir og jafnvel lengur ef bíða þarf í Selkirk. Rútuferðirnar kosta tæplega fjögur þúsund krónur aðra leiðina. Hægt er að semja við leigubílstjóra í Winnipeg um rúnt til Gimli en í öllu falli er best, einfaldast og ódýrast að leigja sér bílaleigubíl eða fara pakkaferð með ferðaskrifstofu.

Það er lítill flugvöllur í Gimli sjálfum, Gimli Indus Park Airport, en sá er lítt notaður til farþegaflutninga lengur.

Söfn og sjónarspil

>> Nýja Ísland (The New Iceland Heritage Museum) – Helsta og vitaskuld besta safnið í öllum bænum er tileinkað hinum íslensku innflytjendum og sögu þeirra í hinum nýja heimi. Ómissandi stopp. Safnið er í raun á þremur mismunandi stöðum í Gimli. Hið stærsta þeirra er við Waterfront Centre, annað í gagnfræðaskóla Gimli og hið þriðja í Lake Winnipeg Visitor Centre við höfnina. Í Waterfront safninu er opið daglega milli 10 og 16 á sumrin en skemur yfir vetrartímann. Miðaverð er 650 krónur fyrir fullorðna. Frítt fyrir yngri en sex ára. Heimasíðan.

>> Víkingastyttan (Viking Statue) –  Annar minnisvarði um íslenska arfleifð þeirra sem hér bjuggu er Víkingastyttan sem stendur reisuleg, 4,5 metra há, við suðurenda Second Avenue og heldur vörð um bæinn. Styttan var reist og vígð árið 1967 af Ásgeiri Ásgeirssyni en smíðuð af ítölskum listamanni einhverra hluta vegna.

>> Stríðsminnisvarðinn (Cenotaph) – Ekki kannski ómissandi fyrir Frónbúann á ferðalagi en myndarlegur minnisvarði við First Avenue um þá kanadísku hermenn sem látið hafa lífið í hinum og þessum styrjöldunum.

>> Silfurstjarnan (Silver Star Jet) – Forvitnileg sýn blasir við fólki í suðurenda First Avenue. Þar stendur heil orrustuþota í öllu sínu veldi en þar er um að ræða vél af tegundinni F-33 sem gjarnan gekk undir nafninu Silfurstjarnan. Um gjöf til bæjarsins var að ræða þegar kanadíski herinn lokaði herstöð sinni í grenndinni árið 1971.

Matur og mjöður

Þó Gimli sé lítill er hér töluverður straumur ferðafólks yfir sumartímann enda þykir dvöl við Winnipegvatn spennandi kostur mörgum Kanadamönnum. Það útskýrir hvers vegna hér eru hátt í 20 veitingastaðir þó reyndar meirihluti þeirra bjóði skyndibitafæði.

Fremstur þeirra þykir vera veitingastaðurinn Mask við Seventh Avenue sem þó er aðeins opinn fram á miðjan dag. Annar frambærilegur er Country Boy við First Avenue og sá þriðji sem bragð þykir að er Seagulls við Miðstræti, Centre Street.

Til umhugsunar: Fiskveiðar eru allnokkrar í Winnipegvatni og frá Gimli gera nokkrir út báta. Vel er hægt að telja þá á að taka eins og einn Íslending með eina bátsferð eða svo og kynnast þannig bæði heimamönnum og fiskveiðum á vatninu.

Barir eru nokkrir og fá má bjór og vín víða.

Hátíðir og húllumhæ

Án alls efa er Íslendingadagurinn í Gimli sú hátíð sem skemmtilegast er fyrir Íslendinga að heimsækja. Heimamenn hafa verið svo sniðugir að breyta þeim ágæta degi í fleirtölu fyrir nokkru síðan og stendur nú íslensk hátíð þar yfir í fjóra daga yfirleitt í lok júlí eða byrjun ágúst hvert ár. Er þetta elsta slíka hátíðin í Kanada allri og kallast í raun The Icelandic Festival of Manitoba.

Þó aðdráttaafl bæjarins samanstandi nánast eingöngu af fólki sem þar bjó eða býr og rekur ættir sínar heim til Íslands auk stöku minnisvarða og gamalla húsa vaknar þessi litli bær vel til lífsins yfir Íslendingadagana. Ekki aðeins eykst fjöldi Íslendinga í bænum heldur og líka Kanadamanna.

Þessa daga fara fram skrúðgöngur, ýmis konar samkeppnir og keppni að víkingasið auk þess sem lítið víkingaþorp er sett upp við smábátahöfnina. Full dagskrá er fyrir alla aldurshópa alla dagana og sannarlega hægt að gera verri hluti en dvelja í Gimli þennan tíma. Alla dagskrá og staðsetningar má sjá á heimasíðu hátíðarinnar hér.

Líf og limir

Ekkert til að hafa áhyggjur af hér sérstaklega fyrir utan skordýr og þá moskítóflugur sérstaklega. Þær eru hrein plága hér ár eftir ár og lítið gengur að hefta framgang þeirra. Þær halda sig eðlilega í og við vötn og því Winnipegvatn kjörstaður þeirra.

View Áhugaverðir staðir í Gimli í Kanada in a larger map