V elflestir staðir heims hafa eitthvað til síns ágætis jafnvel þó gera verði sérstaka leit eftir þessu óvænta eða yndislega í þeim langflestum. En í smábænum Furnas á eynni Sāo Miguel sem heyrir til Azoreyja er svo margt að sjá, upplifa og auðvelt að verða snortin að leitun er að öðru eins á einum litlum bletti.
Hvar eigum við að byrja?
Við gætum til dæmis beðið lesandann að reyna að ímynda sér djúpt og grösugt dalverpi ofan í risastórum og geysifallegum gömlum gíg. Þar stendur bærinn Furnas sem er pínulítið dreifður en ljúf smábæjarstemmning grípur hvern þann ferðamann sem inn í bæinn kemur. Hér eru litlar ljúfar verslanir, bakarí, kökugerð og litlir veitingastaðir sem allir eru ekta. Með öðrum orðum hafa ekki orðið til vegna ferðamannastraums sem þó er töluverður til bæjarins að sumarlagi. Þá er hér ekkert verið að henda upp hótelbyggingum eins og græðgissinnar heima á Fróni. Ekki aldeilis. Hér er aðeins eitt lítið hótel og tvo til þrjú smærri gistihús.
Við gætum líka reynt að fá fólk til að ímynda sér ef Námaskarð í Mývatnssveit væri í miðjum bæ en ekki á hrjóstrugum víðavangi. Elsti hluti Furnas er eiginlega nákvæmlega þannig. Á litlum bletti yst í bænum er að finna spúandi leirhveri á allnokkrum stöðum og þar af tveir töluvert öflugir sem láta í sér heyra daginn út og inn. Hér má meira að segja enn líta nokkrar byggingar sem byggðar voru á sínum tíma í nágrenninu en hvers íbúar þurftu að flýja fremur skyndilega þegar funheitir leirhverir opnuðust undir stofugólfinu.
Einkar athyglisvert fyrir Íslendinga, sem vissulega hafa flestir séð leirhveri gjósa og því kannski minna spenntir en annarra þjóða kvikindi en það breytir ekki þeirri staðreynd að slíkir staðir eru svo sjaldgæfir að flestir komast við.
Takið eftir að við notuðum orðið funheitur og berðu það saman við heiti bæjarins. Þar er tenging ekki satt 🙂 . Orðið Furnas er úr latínu og kemur af gríska orðinu fornax sem þýddi og þýðir ofn eða brennheitur staður. Og hvaða staður annar en bær í miðjum gosgíg á það nafn meira skilið? Furnas ber nafn með rentu.
Hvað meira er merkilegt í Furnas? Maturinn hér þykir eilítið sérstakur en í góðri merkingu þó. Hér er til réttur sem kallast cozido og þó sá réttur finnist víða í Portúgal þykir hann hvergi betri en hér. Það helgast að einhverju leyti af þeirri staðreynd að cozido er hér eldað í jörðu með svipuðum hætti og Mývetningar bökuðu brauð sín með jarðhita hér á árum áður. Hér öðlast slow food aðra og nýja merkingu því það tekur aldrei minna en sex klukkustundir að fullelda cozido. Þess vegna eru veitingahús hér algjörlega tóm fram til klukkan 13 eða 14 þegar eldheitir dagsskammtarnir úr jörðu eru klárir á borðin. Sumir þeirra opna alls ekkert fyrr en codizos-réttirnir eru komnir í hús.
Alls ómögulegt er að fara frá borði ómettur af einum skammti af cozido. Skammturinn er það drjúgur að einn slíkur getur hæglega dugað tveimur einstaklingum og báðir verða mettir. Cozido er blanda af kjöti, nautakjöt, svínakjöt og kjúklingur, plús gulrætur, kál og mjölrót. Eins og það sé ekki nóg er líka á disknum svartur blóðbúðingur og steiktar svínapylsur. Vín er gjarnan með til að skola niður og sum betri veitingahúsin bjóða sína eigin sósu með pakkanum.
Við prófuðum þrjá mismunandi veitingastaði í Furnas þann tíma sem við dvöldum hér og í öll skiptin var cozido á borðum. Við getum alls óhikað sagt að veitingahúsið Vale das Furnas er fremst jafningja og það eiginlega staðfest þann dag sem við heimsóttum. Hér voru bara við og heimamenn. Sem er alltaf risaplús í kladda veitingahúsa.
Matur er alltaf manns megin en Furnas býður líka upp á vægast sagt sérstaka drykki og það af náttúrunnar hendi. Hvernig hljómar sódavatn beint úr iðrum jarðar? Nú eða sex aðrar misbragðgóðar tegundir af vatni sömuleiðis beint frá móður jörð? Okkur vitandi er slíkt hvergi að finna í heiminum nema í Furnas og það á einum og sama blettinum. Hér finnast nefninlega merkilega víða vatnsbrunnar sem leiða vatn beint úr iðrum jarðar og það stórkostlega mismunandi vatn. Sumt kalt, hressandi og bragðlítið en vatnið úr næsta krana í tíu metra fjarlægð getur verið afar basískt og brennheitt. Hér finnst meira að segja sódavatn beint frá móður jörð beint af krana.
Er þá allt til talið sem litli Furnas, íbúar 1500 alls, býður upp á?
Því fer fjarri gott fólk. Hér skammt frá má finna Lagoa Das Furnas sem útleggst sem Furnas lónið. Þetta er tiltölulega stórt og fallegt stöðuvatn og aldeilis frábær staður fyrir útivist hvers kyns. Lónið nýtur þess að litlu leyti að hér er stutt niður í jarðhita og suðvesturhluti þess því heitari en annars. Það er líka hér sem kokkar veitingahúsanna „elda“ hinn fræga cozido í jörðu en til þess að koma matnum á borð upp úr hádegi þarf að síga leirkerum með öllu gómsætinu ofan í jörð eigi síðar en klukkan sex um morguninn. Sé fólk á staðnum er lítið mál að fá að fylgjast með og jafnvel hjálpa til.
Heimamenn hér hafa eins og Íslendingar lært að nýta jarðhitann til annars en að hita upp hús. Í þessum litla bæ eru tvær heilsulindir sem hvor um sig er aldeilis frábært stopp þó afar ólíkar séu. Sú fyrri er Parque Terra Nostra sem er garður einn stór í miðjum bænum og í garðinum er stór heit laug sem aðkomufólk getur notið gegn vægu gjaldi. Garðurinn er reyndar í einkaeigu í dag og tilheyrir hóteli sem hér er en aðrir geta keypt aðgang að lauginni. Sú er reyndar við fyrstu sýn töluvert ljót að sjá og virðist beinlínis menguð enda grænleit slikja yfir öllu saman lungann úr árinu. Ekki láta það hafa áhrif. Þetta er alveg príma nautnapollur og garðurinn sjálfur yndislegur í alla staði.
Ekki örvænta ef enginn er áhugi að baða þig í slikjugrænni laug. Örskammt frá finnst Poça da Dona Beija sem er sérdeilis glæsilega hannað laugasvæði í þröngu gili utan í brattri hæð hvaðan heitt vatnið rennur þráðbeint niður úr fjalllendinu í kring í sex mismunandi heitar steinhlaðnar laugar á svæðinu. Hreint fyrirtak fyrir lúna ferðalanga að taka sér drykklanga stund hér enda laugarnar heimsklassa og aðstæður allar góðar. Ekki er miður heldur að heimamenn vilja ekki okra um of á ferðafólki. Gestir hér þurfa að punga út heilum níu hundruð íslenskum krónum fyrir dúllerí hér. Ómissandi stopp.
Furnas er ekki alveg ónýtur heldur ef þú getur ekki á þér heilum tekið nema gera eitthvað annað en láta dúlla við þig eða missa þig yfir náttúrufegurð. Einhver magnaðasti golfvöllur heims finnst hér á gígbarminum fyrir ofan bæinn. Ekki magnaðasti í merkingunni merkilegur per se, völlurinn aðeins meðalgóður í heildina, heldur meiriháttar fyrir staðsetningu. Eða hvar annars staðar finnast grín á gömlum gígbarmi og litlir fimm hundruð metrar niður ef þú missir höggið 😉 Ekki ónýtt heldur að ýmsar næstum-hitabeltisplöntur vaxa villt um alla eyjuna og fólk fær auðveldlega á tilfinninguna að það sé að spila golf í hitabeltinu að frátöldum hitanum auðvitað 🙂 Heimasíðan hér.
Þeir skipta hundruðum þúsunda yndislegir litlir bæir um heim allan. Af þeim fjölda fer Furnas klárlega í úrslitahópinn að okkar mati.