H öfuðborg Eistlands hefur hin síðari ár notið vaxandi hylli erlendra ferðamanna og ærin ástæða til. Gamli bær borgarinnar er mjög heillandi, heimamenn eru almennt kurteisir og jafnvel viðkunnalegir við ferðafólk og ekki er ævintýrasveipuð saga Tallinn af verri endanum.
Skugga ber hins vegar yfir. Perla borgarinnar er gamli bærinn, Vannalinn, en sökum ódýrs áfengis og ekki síður fallegra meyja hefur keyrt um þverbak fjöldinn sem þangað kemur til þess eins að drekka og skemmta sér með látum og hávaða. Það er því í raun lítt eftirsóknarvert að dvelja á hótelum í gamla bænum yfir sumartímann í Tallinn því svefnfriður er ekki tryggður.
Að því sögðu er hér ákaflega mikið og gott úrval af börum, pöbbum, klúbbum og veitingastöðum og hver með sínu laginu. Einu gildir hvaða dagur er yfir sumarmánuðina; allir eru slíkir staðir fullir eða allt að því en yfir veturinn færist ró yfir mánu, þriðju og miðvikudagana.
Þá eru allmargar forvitnilegar smærri verslanir í gamla bænum og ekki þarf heldur að leita langt út fyrir hann til að finna helstu vörumerki heimsins í nýtískulegum verslunarhúsum.
En Tallinn er ekki aðeins fallegur miðbær heldur er hún umkringd bæði stórfallegum görðum á borð við Kadriorg og fyrir þá sem ekki hafa ferðast um austantjaldslöndin er sjón að sjá hálfrússneskt útlit bygginga í íbúðahverfunum.
Það allra besta við Tallinn umfram aðrar borgir á þessum slóðum og reyndar í Evrópu allri er verðlagið sem er, þrátt fyrir miklar hækkanir, verulega gott og meira að segja fyrir Íslendinga með sína lömuðu krónu.
Til umhugsunar: Eistar skiptu um gjaldmiðil í byrjun árs 2011 og fóru að brúka evru í stað krónu sinnar. Verðlag hækkaði lítið eitt í kjölfar þess en hefur haldist tiltölulega stöðugt síðan þá.
Til og frá
Ólíkt kannski mörgum borgum kemur meirihluti erlendra ferðamanna til Tallinn með ferjum en ekki flugi þó vissulega hafi þeim síðarnefndu fjölgað með tilkomu lágfargjaldaflugfélaga síðustu árin. Finnar og Svíar eru fremstir í flokki þeirra sem hingað koma siglandi enda ganga fjölmargar ferjur þarna á milli á degi hverjum. Góðu heilli fyrir ferjufélögin er ferjuhöfnin í aðeins tíu mínútna göngufæri frá gamla miðbænum í Tallinn og því ómögulegt að villast. Fyrir þá sem áhuga hafa að skoða slíkt ferðalag eru þrjú ferjufyrirtæki: Silja Line og Tallink, sem reyndar er eitt og sama fyrirtækið og Viking Line.
Tallinna Lennujaam heitir flugvöllur Tallinn og er í um 10 mínútna fjarlægð frá borginni. Héðan er mögulegt að taka leigubíla sem á ekki að kosta meira en 1600 krónur. Völlurinn er lítill og úrval verslana afar takmarkað.
Til umhugsunar: Leigubílstjórar í Tallinn eru velþekktir fyrir að reyna að kreista ferðamenn fyrir hærri upphæð en reglur kveða á um. Fara skal fram á að mælirinn sé settur af stað við flugvöllinn og hætta við ef bílstjórinn möglar.
Ódýrari leið er að taka strætisvagn númer 2 sem stoppar fyrir utan flugstöðina. Sá fer inn í miðbæinn og stoppar við Viru Keskus verslunarmiðstöðina sem er gengt gamla bænum við Laikmaa götu. Miða hægt að kaupa um borð og kostar stakt far 190 krónur.
Bílaleigur eru á vellinum og sökum smæðar landsins er einfalt og tiltölulega fljótlegt að fara um á bíl.
Sé hingað komið eða farið með rútum er rútumiðstöð borgarinnar, Tallinna Bussijamm, nokkuð frá miðbænum við Lastekodu götu. Er sú lítil og heldur óhrjáleg en tiltölulega örugg. Um tíu mínútur tekur að fara til og frá miðbæjarins gamla með strætisvagni. Nokkrar leiðir eru í boði en leið 15 og 15A fer milli rútumiðstöðvarinnar og Frelsistorgsins á 20 mínútna fresti.
Samgöngur og skottúrar
Velflest hótel í Tallinn eru í 2 kílómetra radíus í eða kringum gamla bæjarhlutann og slá má föstu að fyrir utan það svæði er ekki ýkja margt að sjá og ekkert sem ekki er í hálftíma göngufæri ef svo ber undir. Nauðsyn á samgöngutækjum er því engin nema á leið til og frá borginni.
Sé engu að síður vilji til að skrölta aðeins um eru hér sporvagnar og strætisvagnar sem ferja fólk til og frá. Sporvagnar borgarinnar eru komnir til ára sinna en duga til. Sama verð er í öll samgöngutæki eða 240 krónur ef keyptur er miði um borð. Ódýrara er að kaupa miða í sjoppum og blaðasölum og fæst þá ódýrasti miðinn á 140 krónur.
Leiðakerfi strætisvagna og sporvagna hér.
Söfn og sjónarspil
>> Frelsistorgið (Vabaduse Väljak) – Nýjasta aðdráttarafl Tallinn er hið nýja Frelsistorg sem vígt var með viðhöfn 2009. Það er örskammt frá gamla bænum til suðurs. Út á við eru heimamenn voða ánægðir með torgið en það er vissulega ekki mjög fallegt. Þá sýnist sitt hverjum um minnismerki um sjálfstæðisbaráttu Eista í byrjun 20. aldarinnar sem stendur við torgið en það fer heldur ekki í bækur fyrir stórkostlegheit. Eðalstaður til að slaka á hins vegar og kaffihús á staðnum. Undir glerhvolfi við torgið má sjá leifar af vegg eins borgarhliðsins sem hér stóð á öldum áður. Þá stendur Jóhannesarkirkja ennfremur við torgið.
>> Ólafskirkjan (Oleviste Kogudus) – Auðveldlega fallegasta og tignarlegasta kirkjan í Tallinn enda var þessi kirkja um tíma hæsta bygging veraldar þegar hún var byggð á þrettándu öld. Turninn er tignarlegur og hægt er að klífa upp hluta hans og fá þannig æðislegt útsýni yfir bæinn. Það kostar hins vegar töluvert erfiði upp því engin er lyftan. Opin daglega 10 – 18. Aðgangur í útsýnisturn 300 krónur. Heimasíðan.
>> Kadriorg höllin (Kadrioru Kunstimuuseum) – Ein allra glæsilegasta höllin sem finnst í barokk stíl á norðurhjara heimsins er Kadriorg höllin í samnefndum garði í um 20 mínútna göngutúr frá miðborg Tallinn. Um er að ræða höll sem Pétur Mikli lét reisa fyrir eiginkonu sína Katrínu 1718. Húsið og garðurinn falleg og byggingin hýsir nú listasafn þar sem sjá má eitt mesta og besta safn verka frá 16. – 20. aldar. Ómissandi stopp. Sporvagn 1 eða 3 að Kadriorg. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Aðgangseyrir 640 krónur. Heimasíðan.
>> KUMA listasafnið (KUMA) – Valið besta listasafn Evrópu árið 2008 og aldeilis áhugavert að skoða innan sem utan. Byggingin sjálf stórmerkileg og fimm hæðir af list úr ýmsum mögulegum áttum. Sýningar breytast ört og því tilefni til að fara oftar en einu sinni ef dvalið er einhvern tíma í Tallinn. Safnið staðsett í Kadriorg garði og ágætt útsýni til borgarinnar frá efstu hæðinni. Kaffihús á fyrstu hæð. Aðgangseyrir misjafn eftir sýningum. Opið 11 – 18 alla daga nema mánudaga. Heimasíðan. Myndasyrpa.
>> Ráðhústorgið (Raekoja plats) – Ómögulegt annað en rekast á torgið á ferð um gamla bæinn. Ekki sérstaklega fallegt en mikið líf hér og veitingastaðir í hverju einasta húsi við torgið. Á miðju torgsins er lítinn hringlaga steinn með kompási. Frá þeim stað á að vera hægt að sjá alla fimm turna gamla borgarhlutans.
>> Borgarveggurinn (Castrum Danorum) – Fáar borgir voru betur varðar en Tallinn á öldum áður og merkilega stór hluti borgarvirkisins stendur enn hér og þar kringum gamla bæinn. Best að rölta sem víðast um og skoða en sá hluti virkisins sem stendur við Toompea hæðina er hvað heillegastur og hæstur.
>> Eistneska útilistasafnið (Rocca al Mare) – Í vesturhluta borgarinnar við Koopli flóa er Rocca al Mare garðurinn sem líkt og Kadriorg garðurinn er afar vinsæll meðal bæjarbúa og á sólríkum dögum er hér fullt af fólki. Í garðinum má finna eftirlíkingu af 19. aldar bæ með öllu tilheyrandi. Þá eru hér fínustu leiksvæði fyrir börnin og ekki síst dýragarður Tallinn sem er ekki einn af þeim bestu en smáfólkið er ekki að setja það fyrir sig þegar dýr eru annars vegar. Þá eru og oft hér uppákomur aðrar sem auglýstar eru hverju sinni. Strætisvagnar ganga ekki hingað en ferðamannavagnarnir flestir gera það og stoppa við innganginn. Garðurinn opinn daglega 10 – 20 á sumrin og 10 – 18 á veturna. Aðgangur 950 krónur á sumrin en 450 krónur yfir vetrartímann. Heimasíðan.
>> Kalamaja hverfið (Kalamaja) – Að frátöldum gamla borgarhlutanum er Kalamaja hverfið það sem mest hrífur. Þar eru ferðamenn sjaldséðir en sannarlega ágætt að rölta um. Þar er steypa nánast óþekkt fyrirbæri enda nánast öll húsin á svæðinu gömul litrík timburhús. Tækifæri til að sjá alvöru borgarlíf alveg ókeypis.
>> Ljósmyndasafnið (Fotomuuseum) – Athyglisvert safn um ljósmyndir og upphaf ljósmyndunar með eistnesku yfirbragði. Gamaldags myrkrakompa og myndasyrpur frá mismunandi tímum í Tallinn og Eistlandi. Safnið er bakvið Ráðhúsið og Ráðhústorgi og því eðalfínt á rölti um gamla bæinn. Opið 10.30 – 18. Aðgangur 300 krónur. Heimasíðan.
>> Kot Péturs Mikla (Peetrimaja) – Einhvern veginn á maður bágt með að trúa að Pétur Mikli Rússakeisari hafi látið sér nægja lítið kot þegar hann dvaldi hér löngum stundum. En það gerði hann sannarlega og húsið má sjá og skoða í Kadriorg garði skammt frá höllinni sem hann lét reisa fyrir eiginkonu sína. Persónulegir munir hans enn á staðnum. Opið 11 – 19 daglega. Aðgangur 300 krónur. Heimasíðan.
>> Sprengjusafnið (Meremuuseum) – Ekki allar borgir bjóða upp á sprengjusöfn en það gerir Tallinn. Einkar forvitnilegt fyrir áhugamenn um heimsstyrjaldirnar. Ýmsar gerðir sprengja til sýnis og velflestar óvirkar. Húskynnin ekki heldur dapurleg því safnið er í gamalli púðurgeymslu sem tekist hefur að halda næsta óbreyttri í hundruðir ára. Safnið stendur við Uus götu í göngufæri frá gamla miðbænum. Opið 10 – 16 nema mánudaga. Aðgangur 300 krónur. Heimasíðan.
>> Patarei fangelsið (Patarei) – Skammt frá höfninni í Tallinn og í um 20 mínútna göngufæri frá gamla bænum stendur Patarei fangelsið sem var þegar Rússar og Sovétmenn réðu hér ríkjum eitt það illræmdasta á öllum baltneska skaganum. Fyrir utan að vera ljótara en andskotinn er fangelsið í gríðarlegri niðurníðslu og stór hluti þess er alfarið lokaður sökum smithættu. En hluti þess er opinn ferðafólki og sérstaklega er áhugavert að kíkja inn í fylgd með leiðsögumanni. Það gefur mun betri aðgengi og að fleiri klefum, sögu og hæðum. Saga þess er fróðleg og kannski merkilegast af öllu að því var ekki lokað fyrr en árið 2005. Gamlir fangaverðir eiga það til að vera á vappi fyrir utan og kunna margar hræðilegar sögur. Fangelsið er opið daglega milli 12 og 15 en aðeins er hægt að sjá afar lítinn hluta þess á eigin spýtum. Með leiðsögumanni tekur rúnturinn um klukkustund. Slíkt kostar 800 krónur.
>> Dómkirkjuhæð (Toompea) – Líkt og Hallgrímskirkja gnæfir yfir Reykjavík svo gnæfir Toompea yfir Tallinn. Toompea er hæð í gamla miðbænum og þaðan gefst langbesta útsýnið yfir bæinn og langt út á haf. Á hæðinni sjálfri er ekki amalegur húsakostur heldur. Margar afar fallegar byggingar standa þar og þar á meðal þinghús Eista og stjórnsetur. Þar er einnig eins og nafnið gefur til kynna glæsileg kirkja, Alexander Nevsky dómkirkjan, sem er afar falleg. Eistneska þingið er staðsett í Toompea kastala sem gerður hefur verið upp á aðdáunarverðan hátt. Á hæðinni sem er um 30 metra hærri en restin af gamla bænum eru allnokkri útsýnispallar. Gangan upp getur þó tekið örlítið á. Undir hæðinni eru mikil göng frá miðöldum sem hægt er að fá að skoða en aðeins með leiðsögumanni. Miða á slíkt má kaupa í Kiek in de Kök safninu.
Til umhugsunar: Fyrir framan Alexander Nevsky kirkjuna er lítill fallegur garður og það vill svo skemmtilega til að þar stendur dýrasta klósett í Eistlandi og þótt víðar væri leitað. Það er almenningsklósett með öllum mögulegum þægindum á slíkum klósettum en sökum þess að uppsetningin var fokdýr og ekki síður vegna þess að það er lokað hálft ár á hverju ári vegna viðgerða eru heimamenn óhræddir við að kalla þetta dýrasta klósett heims.
>> Dómínikanska klaustrið (Institutum Mauritanium) – Leifar klausturs sem reist var árið 1246 hvorki meira né minna. Enn er nokkur hluti þess heill, þar á meðal kjallari, þar sem finna má orkusúlu eina sem valdið hefur mörgum heilabrotum. Afar forvitnilegt og ólíkt öðru á þessum slóðum. Klaustrið stendur við Müürivahe götu. Opið daglega 10.30 – 17. Miðaverð 900 krónur. Heimasíðan.
>> Eldhúskíkk (Kiek in de Kök) – Undarlegt nafn á safni eða hvað? Ekki svo. Um er að ræða 38 metra háan varðturn frá miðöldum sem haldist hefur afar heillegur. Hann þótti svo hár á sínum tíma að varðmenn í turninum gátu séð inn í öll eldhús bæjarins og af því kemur nafnið. Mikið mannvirki og veggir turnsins litlir fjórir metrar á þykkt. Innifyrir er heillandi safn sem gefur ákaflega góða mynd af sögu borgarinnar, hvernig hún þróaðist og ekki síst hvernig vörnum borgarinnar var fyrirkomið. Ómissandi. Það er líka hér sem göngin undir Toompea hæð byrja. Þá er ekki amalegt kaffihús á toppnum þar sem áður stóðu varðmenn og gláptu inn í eldhús. Opið 10.30 – 18 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 700 krónur. Heimasíðan.
>> Hersetusafnið (Okupatsioon) – Enn eitt frábært stopp fyrir áhugafólk um styrjaldir og örlög og afdrif Eista í Seinni heimsstyrjöldinni. Mjög fróðlegt og vel skipulagt safn með fjölda mynda og muna frá þeim tíma þegar Eistar vissu ekki hvort þeir áttu að liðsinna Sovétmönnum eða Þjóðverjum. Öll sagan frá 1939 til 1991 er dekkuð hér. Staðsett á Toompea hæð. Opið 11 – 18 alla daga nema mánudaga. Prísinn 400 krónur. Heimasíðan.
>> Valli barinn (Bar Valli) – Aðeins er einn bar í allri borginni þar sem stemmarinn er enn assgoti sovéskur. Það stafar af því að staðurinn er óbreyttur frá þeim tíma þegar Sovétmenn réðu hér ríkjum. Forvitnilegur staður og eðalgóður í einn drykk eða svo. Barinn stendur við Müürivahe götu númer 14.
>> Gæfi úlfurinn (Hell Hunt) – Annar merkilegur bar á Pikk götu í gamla bænum og merkilegheitin stafa af því að þetta var fyrsti barinn sem opnaði eftir að Eistar hlutu sjálfstæði. Var hann einnig lengi vel sá eini sem var opinn og voru vinsældir hans á þeim tíma voru slíkar að enn er talað um það. Barinn er skemmtilegur með mikið úrval af fínum vörum.
Verslun og viðskipti
Tallinn er án alls efa ein besta borg Evrópu hvað verslun áhærir enda hefur hin íslenska króna gefið verulega eftir gagnvart öllum öðrum gjaldmiðlum Evrópu. Hér hins vegar er enn hægt að gera fínustu kaup og í versta falli greiða svipað verð og heima á Fróni.
Fjölmargar verslanir er að finna í gamla bænum en það eru túristabúllur og verðið því hærra en gengur og gerist. Beint gegn gamla bænum er þó nýtískulegasta hverfi borgarinnar við Viru torgið, Viru Väljak, og þar er fjöldi verslana. Mesta úrvalið er að finna í stórverslununum Viru Keskus og Kaubamaja.
Í breiðum radíus frá Viru torgi er að finna smærri verslanir í flestum nálægum götum og markaðir eru starfræktir á þessum slóðum um helgar.
Líf og limir
Ferðafólk er 98 prósent öruggt í Tallinn. Það merkir að þjófar eru hér að störfum sem annars staðar og veski, úr og gemsar eiga það til að hverfa á ólíklegustu tímum. Alvarlegri glæpir eru afar fátíðir og líklegra að enskar bullur, sem hingað koma gjarnan í helgarferðir, láti ófriðlega en að heimamenn séu með læti. Þvert á móti hefur verið eftir því tekið hversu rólegir Eistar eru almennt og mun líklegri til að aðstoða fólk en vera með uppsteyt.