Spyrjir þú Portúgala hvaða einn stað í landinu sé með öllu ómissandi að sjá er svarið oftar en ekki Óbidos. Sá er lítill bær með aðeins þrjú þúsund íbúa en leitun er að öðrum bæ í veröldinni sem enn er innilokaður á alla kanta af þrettán metra háu borgarvirki. Það er nefninlega eins og tíminn hafi raunverulega staðið í stað í Óbidos um aldaraðir.
Eðli málsins samkvæmt er ferðamennska aðaliðnaður bæjarbúa og enginn skortur er af minjagripaverslunum eða götusölum en tilfinningin að rölta um þröng strætin ávallt með þykka borgarveggina í augsýn er mikilfengleg og sérstök.
Flestir ferðamenn koma þangað í dagferðir með rútum þannig að góður kostur er að gista eina nótt í bænum og njóta þannig eftirmiðdagsins og kvöldsins án þess fjölda sem þar þvælist um yfir hádaginn.
Fátt er reyndar að sjá annað en heillega borgarveggina en hér er ríkur stemmari sem þeir sem sækjast eftir andlegri upplyftingu ættu að njóta.
Heimasíða bæjarsins hér.