Skip to main content
Pistlar

Norræna ber nafn með rentu

  02/06/2009maí 11th, 2014No Comments

Ein helsta ástæða þess að siglingar eru stundum vænlegri en flug eða annar ferðamáti er kostnaðurinn. Erlendis líður vart dagur án þess að stærri skipafyrirtæki bjóði duglega afslætti og kostakjör enda vita þeir sem er að galdurinn er að fá fólk um borð. Það er þar sem fólk eyðir peningum enda í engin önnur hús að venda.

Sem dæmi kostar sex þúsund krónur með lúxusferju Colorline skipafélagsins milli Noregs og Danmerkur eða öfugt. Skip þeirra eru glæný og geta siglt á 27 hnúta hraða.

Í mekka lúxusskipafyrirtækja, Miami á Flórída, er hægt að finna vikuferð um karabísku eyjarnar frá 30 þúsund krónum og undir 50 þúsund í klefa með svölum.

Hvað skyldi svo kosta að dúlla sér með Norrænu í tveggja daga ferð til okkar norrænu vina og ættingja? Eftir að hafa lesið í þaula nýjan sumarbækling þeirra er menn litlu nær. Engin verð þar miðast við einstakling heldur eingöngu fjögurra manna fjölskyldu og sú verður helst að taka bílinn með ef marka má bæklinginn. Ekki nóg með þá ókurteisi heldur í þokkabót miðast öll verð við lágannatíma….

Verð í sumarbæklingi Norrænu 2009 miðast semsagt við að fjögurra manna fjölskylda á bíl ferðist saman og búi í gluggalausum klefa í byrjun maí eða í lok september.

Jafnvel þau verð sem þá eru gefin upp eru hreint og beint út í hróa hött. Fjögurra manna bílafjölskyldan kemst þannig til Danmerkur fyrir 22 þúsund á mann. 88 þúsund alls fyrir 57 klukkustunda siglinguna. Það gerir 1600 krónur hverja klukkustund um borð. 44 þúsund krónur nóttin.

Það er rösklega sami prís og á fyrsta flokks hótelum í Evrópu þar sem enginn er veltingurinn, útsýni og jafnvel svalir eru í boði.