Margt miður hefur verið ritað á hinum ýmsu tungumálum um strandbæinn Negril á vesturströnd Jamaíka. Staðurinn verið kallaður mekka úrkynjunar og þaðan af verra gegnum tíðina. Það helgast bæði af því að ferðamálaráð Jamaíka hefur auglýst Negril grimmt gegnum tíðina sem stað þar sem ALLT er í boði en einnig sökum þess að nokkur frægustu hótelin á staðnum eru svokölluð nektarhótel.

Á þeim er nánast krafa að gestir sprangi um á afmælisklæðunum einum fata yfir hádaginn, kynlíf er litið mjög frjálslegum augum og til eru allnokkrar svæsnar sögur af veislum með það þema á hótelum á borð við Hedonism II.

Hvort sem þær eru sannar eður ei er morgunljóst að þar innadyra og á afmarkaðri strönd hótelsins eiga gestir að vera frjálslegir á alla lund. Strangt til tekið er bannað að vera nakin á ströndum landsins en þeim lögum er lítt framfylgt.

Við allt þetta bætist svo að Negril er stopp númer eitt hjá bandarískum ungmennum sem eyða vilja vorfríi sínu erlendis. Troðfyllast flest hótel Negril og reyndar á fleiri stöðum þær vikur sem það stendur yfir og fátt kemst að hjá ungmennunum annað en drykkja, reykingar og kynlíf.

Staðreyndin er hins vegar sú að þó vissulega séu skemmd epli sem svert hafa orðspor staðarins síðustu áratugina er langt í frá að Negril sé mekka úrkynjunar.

Fyrst og fremst er um skemmtilegan strandbæ að ræða með margs konar afþreyingu fyrir lúna ferðamenn. Ellefu kílómetra löng og skjannahvít strandsandlengjan við bæinn er sú lengsta á Jamaíka. Gestrisni heimamanna er ótrúlega mikil þrátt fyrir að um hreinan og kláran ferðamannabæ sé að ræða og yfirgangur ferðamanna talsverður. Þeir fáu í landinu sem hafa peninga milli handanna koma hingað til skemmtana. Síðast en ekki síst er Negril besti staðurinn á öllu karabíska hafinu til að fylgjast með blóðrauðu sólarlaginu.

Negril er í raun og veru ekki bær í eiginlegri merkingu því heita má að þar séu aðeins þrjár aðalgötur sem kalla má. Sú veigamesta, Norman Manley breiðgatan, liggur kílómetra eftir kílómetra eftir strandlengjunni meðfram hverju hótelinu á fætur öðru. Við tekur West End og þá Lighthouse vegur. Allir liggja þeir meðfram ströndinni og er þá upptalið það svæði sem ferðamenn þvælast um á en íbúabyggðin sjálf er ofar og kemur sjaldan við sögu þegar Negril er heimsótt enda fátt markvert þar að sjá.

Rastafarar og eftirhermur þeirra eru algengar í Negril og lifandi tónlist má heyra víða á ströndinni þegar myrkva tekur. Er Negril vafalítið einn besti staðurinn á Jamaíka til að heyra góða lifandi tónlist sem er reggítónlist í 99 prósent tilvika. Slíkum kvöldum fylgir rommdrykkja og ganja reykingar eða kannabis eins og það kallast á ylhýrri íslenskunni.

Rick´s Cafe er hápunktur hvers ferðalangs til Negril. Elsti veitingastaður bæjarins og sá allra vinsælasti. Það er þangað sem ferðalangar koma langt að til þess eins og fylgjast með sólarlaginu sem sannarlegt er stórkostlegt við þær aðstæður. Rick´s Cafe er mjög frambærilegur sem veitingastaður og bar og þar er yfirleitt ávallt lifandi tónlist þegar kvölda tekur. Sé það ekki nóg er enginn skortur á ofurhugum sem dýfa sér 35 metra niður í sjó af klettum við Rick´s og er gestum frjálst að prófa líka. Fararheill.is getur vottað að slík dýfa, þó óhugnarleg virðist, er reynsla sem alzheimer vinnur ekki á. Sagan hefur þó ekki verið staðnum ýkja hliðholl. Þrívegis á síðastliðnum 20 árum hafa fellibylir lagt staðinn algjörlega í rúst en hann verið endurbyggður frá grunni í öll skiptin.


[/vc_message]