Að segja að spænska borgin Valencia sé oft kölluð „litla Barcelona“ er svona á pari við að segja að Vopnafjörður sé oft kallaður „litla Reykjavik.“

Valencia séð frá dómkirkjunni. Borgin mjög lifandi og ein sú allra skemmtilegasta á Spáni. Mynd Clark & Kim Kays
Sem Vopnafjörður er einfaldlega ekki eins og vitiborið íslenskt fólk veit. En einhver hjá ferðaskrifstofunni Heimsferðum hefur ákveðið að borgin Valencia sé litla Barcelona samkvæmt ferðalýsingu á sérferð til ferðaskrifstofan býður til Valencia á næstunni.
Dúndrandi fagmennska fram í fingurgóma. Einn fjórði af ritstjórn Fararheill hefur búið í Valencia um tólf mánaða skeið og heimsótt oftar en hún kærir sig um að telja. Fullyrt skal að það móðgar hvern einasta heimamann að bera borgina saman við Barcelona. Hvað þá að kalla hana litlu Barcelona. Það er ávísun á handalögmál.
Að bullinu frátöldu er mjög jákvætt hjá Heimsferðum að bjóða ferðir þangað. Valencia er ein af allra skemmtilegustu borgum Spánar og kannski helgast það af því að hún er sjaldan kynnt sem sérstök ferðamannaborg. Ólíkt velflestum öðrum borgum eða stöðum á Spáni.
Ferðin er í beinu flugi fram og aftur og er gist í fjórar nætur og kostnaður miðað við ódýrasta hótel í boði 79.900 krónur á mann miðað við tvo saman. Samtals 159.800 krónur sem gerir 39.950 krónur fyrir hvern dag ferðarinnar fyrir parið. Ekkert ódýrt en ekkert okur kannski heldur.
Hins vegar eru stórkostlegir veitingastaðir í Valencia og máltíðin á eðalfínu verði. Gróflega má segja að tveggja til þriggja rétta máltíð með víni á góðum eða betri veitingastað kosti manninn varla mikið meira en fjögur þúsund íslenskar krónur eða átta þúsund samtals. Dágott alveg og næturlífið hér er ekkert til að gera grín að heldur.