M enn skiptast nokkuð í tvo hópa þegar Mílanó ber á góma; annars vegar þykir mörgum þetta mikilvægasta og nútímalegasta borg Ítalíu en svo er hinn hópurinn sem lítur niður á borgina og það sem hún stendur fyrir. Og hvað stendur Mílanó svo fyrir er spurt? Auð, tísku og yfirborðsmennsku kynnu einhverjir að svara og hefðu nokkuð fyrir sér í því en þó aðeins að vissu marki. Því þótt hún státi ekki af merkum minjum á borð við Róm eða Napolí þá býr Mílanó yfir mörgu öðru ekki síður heillandi.

Mílanó er táknmynd í hugum margra Ítala um hina nýju Ítalíu. Ítalíu sem ekki er föst í gömlum viðjum heldur tekur nýjum hlutum fagnandi og það er að ýmsu leyti rétt sýn á borgina sem er án alls vafa nútímalegasta borgin í öllu landinu. Milanó er fjármálamiðstöð Ítalíu, hún er ein af þremur helstu tískuborgum heims og meðallaun í Mílanó eru að jafnaði þreföld á við það sem gerist í sunnanverðu landinu. Íbúar hafa það því flestir mjög gott á ítalskan mælikvarða.

Til er ítalskt hugtak sem lýsir stöðunni mætavel: Róm er hin vel vaxna mær sem öllum er ljóst að hefur ýmislegt til að bera meðan Mílanó er þessi feimna hlédræga stúlka sem heldur sig til hlés en býr yfir stórum kostum sem tíminn einn leiðir í ljós.

Þannig er það í raun.

Til og frá

Tveir alþjóðaflugvellir þjónusta Mílanó og nágrenni. Linate og Malpensa heita þeir en að auki eru tveir aðrir minni vellir lengra frá borginni.

Malpensa flugvöllur

Malpensa er aðalflugvöllur borgarinnar og flest stærri flugfélög nota hann en lágfargjaldaflugfélög fljúga þó hingað reglulega. Tvær flugstöðvabyggingar eru þar, terminal 1 og 2, og skiptir máli hvoru megin lent er þar sem spottakorn er á milli þeirra. Völlurinn í heild er stór, mikill og tiltölulega nýtískulegur með ágætar samgöngur til borgarinnar.

Einfaldasta leiðin inn í borgina frá Malpensa er með Malpensa hraðlestinni sem fer frá flugafgreiðslu 1 (terminal 1) á vellinum á hálftíma fresti að Cadorna lestarstöðinni sem aftur er vel tengd jarðlesta- og strætisvagnakerfi Mílanó. Tekur það ferðalag um 40 mínútur. Kostar stakur miði um 2000 krónur en 2300 ef miðinn er keyptur um borð. Sérstakar miðasöluvélar eru við brautarpallinn í flugstöðinni og gilda þarf miðann áður en stigið er um borð. Síðastu ferðir eru 23:20 á kvöldin og sértu seinna á ferð en það verðu að taka leigubíl eða strætisvagn.

Möguleiki er að spara sér nokkra hundraðkalla með því að fara aðrar leiðir. Til dæmis er hægt að taka aðra lest til Saronno flugvallar og taka þaðan enn eina lestina til Mílanó. Með því móti kemstu inn í borgina á 1500 krónum en það tekur mun lengri tíma og krefst þess að skipt sé milli lesta.

Rútur fara frá Malpensa á 20 mínútna fresti að Centrale stöðinni, Aðalstöðinni, og Linate flugvelli. 1400 krónur verður að greiða fyrir far með þeim aðra leið en ferðalagið getur tekið allt að klukkustund þegar umferð er mikil. Rútan er líkast til besti kosturinn ef lent er við flugstöðvarbyggingu 2 þar sem lestarpallarnir eru í flugstöð 1 og flugvallarútan sem þar fer reglulega á milli er hæg í ferðum. Hafið í huga að rútan leggur yfirleitt ekki af stað fyrr en hún er orðin full en spyrjið til öryggis. Heimasíða Malpensa Shuttle hér. Sama fyrirtæki sér um ferðir milli flugvallanna Linate og Malpensa. Sú ferð kostar einstaklinginn 2400 krónur.

Leigubíll inn í borgina er í dýrari kantinum. Strangt til tekið er fast verð á ferðum milli flugvallarins og borgarinnar en bílstjórar malda oftar en ekki í móinn sé það nefnt. Kostar það hvorki meira né minna en 13 þúsund krónur. Fallist bílstjóri ekki á fasta verðið strax í upphafi er best að taka þann næsta en það er hægara gert en sagt þegar menn koma þreyttir úr flugi að standa í slíku. Sé farið er gjaldmæli hækkar prísinn í 15 þúsund krónur. Hafið einnig í huga að greiða þarf toll til að fara fljótlegastu leiðina inn í borgina og þann toll á bílstjórinn að greiða undantekningarlaust. Margir þeirra nýta sér aðrar lengri leiðir til að komast hjá tollinum ef um fast verð er að ræða. Tekur ferðin þá tíu til 15 mínútum lengur.

Að síðustu er enn ein leiðin til Mílanó gegnum Gallerate lestarstöðina. Rúta frá báðum flugstöðvarbyggingum flytur þig þangað og þaðan tekin lest inn í borgina. Sú leið tekur aldrei minna en klukkustund og oftast lengur en það.

Linate flugvöllur

Linate flugvöllur er ívið minni en Malpensa en hefur sér til ágætis að vera mun nær borginni en sá síðarnefndi. Nálægt hans þýðir að hann er strangt til tekið innan borgarmarkanna og því fara þar hjá hefðbundnir strætisvagnar.

Strætisvagn númer 73 stoppar fyrir utan flugstöðvarbygginguna og fer sem leið liggur að San Babila torgi í miðbæ Mílanó. Þaðan er annaðhvort hægt að labba eða halda áfram með jarðlest eða öðrum strætisvögnum. Vagn 73 ekur á tíu mínútna fresti og aðeins er greitt hefðbundið strætógjald 280 krónur. Miða er hægt að kaupa hjá blaðasalanum inni í flugstöðinni áður en lagt er í hann. Gildir hver miði í 75 mínútur og er hægt að þvælast milli vagna ef því ber að skipta eins og mikið og þörf er á innan þess tíma. Gæta skal þess að vagn sá er tekinn er við flugstöðina sé á leið San Babila en ekki S.Felicino. Hafið einnig í huga að þetta er hefðbundinn strætisvagn og mörg stopp eru á leiðinni niður í bæinn.

Rúta er einnig valkostur hér. Eru þær fyrir utan flugstöðina og fara beinustu leið í miðbæinn á hálftíma fresti. Kostar stakt far með þeim 650 krónur. Miða er hægt að kaupa um borð.

Enn aðrar rútur fara milli Linate og Malpensa flugvallar. Eru þær kyrfilega merktar og tekur sú ferð frá 40 mínútum til klukkustundar eftir umferð. Sjá Malpensa Shuttle hér að ofan.

Leigubílar héðan í miðbæinn kosta frá 2500 til 3500 eftir umferð. Sérstök leigubílaröð er fyrir utan bygginguna en láttu vera að notfæra þér þjónustu bílstjóra sem bjóða þjónustu sína inni í flugstöðinni. Þeir sinna aðeins lengri ferðum og kosta að lágmarki 13 þúsund krónur.

Orio al Serio flugvöllur

Lágfargjaldaflugfélög nokkur nota þennan flugvöll sem er í töluverðri fjarlægð frá borginni við bæinn Bergamo. Meðal annars er þetta aðalflugvöllur Ryanair.

Þaðan eru þrjár leiðir inn í Mílanó. Hægt er að taka skutlu til bæjarins Bergamo sem tekur tíu mínútur að lágmarki og þaðan taka lest inn í Mílanó. Skutlur til Bergamo eru reknar af Zani fyrirtækinu og eru merktir. Skutlið kostar 400 krónur. Frá Bergamo stöðinni fara lestar til Mílanó á 30 eða 60 mínútna fresti eftir hvenær dags og hvaða dag. Ferðalag það tekur klukkustund en kostnaðurinn er aðeins tæpur þúsund kall.

Rútur fara héðan inn til Mílanó sem tekur sjaldan minna en klukkustund og stundum lengur. Tvö fyrirtæki bjóða þær ferðir að Aðalstöðinni í Mílanó og er kostnaðurinn gróflega kringum 1600 krónur fyrir fullorðinn. Hægt er að kaupa miða inni í flugstöðinni. Þau tvö fyrirtæki sem þetta bjóða eru Zani og Autostradale.

Leigubílar eru hér einnig en fyrir það ferðalag inn í miðborg Mílanó punga menn sjaldan minna en 20 þúsund krónum.

Samgöngur og snatterí

Öllu er til tjaldað í samgöngum innan borgarmarka Mílanó. Ekki vanþörf á enda vegakerfið í þessari borg löngu sprungið eins og raunin er í langflestum borgum heims. Strætisvagnar, sporlestir, jarðlestir og hefðbundnar lestir fara um borgina og sér Azienda Trasporti Milanese alfarið um samgöngunetið fyrir hönd borgarinnar. Á heimasíðu þeirra hér má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar auk korta og leiðarvísa. Hafðu í huga að margir halda að skilti merkt ATM merki hraðbanki en svo er ekki. Slíkt er skammstöfum Azienda Trasporti Milanese.

Kerfið í heild sinni þykir bærilegt þó ekki sé það af allra nýjustu gerð. Stakur miði, biglietti urbani, í almenningssamgöngutækin kostar 180 krónur og dugar sá í 75 mínútur. Slíkir fást á öllum stöðvum og í mörgum börum og blaðasölum borgarinnar. Í sjálfsölum er einnig hægt að kaupa sólarhringsmiða, 48 stunda miða eða 10 miða kort með nokkrum afslætti. Þörf er á að gilda hvern miða áður en ferð hefst í þartilgerðum vélum á öllum stöðvum eða inni í vögnunum. Einnig skal gilda sama miðann aftur ef skipt er um vagna.

Jarðlestakerfið, Metro, samanstendur af þremur leiðum og er langfljótlegasta leiðin um borgina. Verið er að setja upp þrjár nýjar leiðir og eiga þær að vera tilbúnar 2014 eða 2015. Sjá kortið hér. Lítil sem engin bið er milli lesta. Í hæsta lagi þarf að bíða í fimm mínútur. Á kortinu sést einnig blá lína sem er strangt til tekið að hluta neðanjarðar en notuð af farþegarlestum sem fara út fyrir borgina. Hún tengir allar aðrar leiðir jarðlestakerfisins líka. Fyrstu ferðir dagsins eru klukkan 5:30 en þær síðustu klukkan 02 eftir miðnætti.

Sporvagnar eru yfir 30 talsins í borginni og ólíkt skemmtilegri leið um borgina en jarðlest. Eru þær af ýmsum toga bæði nýir og gamlir og meira að segja eru veitingavagnar í boði auk eins diskóvagns á ferðum um helgar. Veitingavagninn er eðalfínn til að kynnast borginni úr gamaldags sporvagni meðan maginn er fylltur. Tekur hver ferð rúmar tvær klukkustundir og á meðan eldaðir tveir réttir á mann; einn kjötréttur og einn fiskréttur. Fer veitingavagninn frá Piazza Costello hvert kvöld klukkan 20 og gott er að mæta með fyrirvara. Ennfremur þarf að panta með fyrirvara gegnum síma. Símanúmerið er gjaldfrjálst: 800 80 81 81. Nánar um vagninn hér.

Strætisvagnar eru enn einn kosturinn en þeir geta verið í hægari kantinum á annatímum. Fargjaldið það sama og fyrr en þeir fara mun víðar um borgina ef það er hugmyndin. Flestallir vagnar ganga til tvö að nóttu. ATM býður reyndar upp á farkost eftir klukkan tvö á næturnar. Skutlur, Radiobus, hefja starfsemi eftir klukkan 2 og eru til reiðu fyrir vegfarendur til átta á morgnana. Þá þarf þó að panta símleiðis fyrirfram. Hugmyndin með þeim er bætt þjónusta ekki síst þegar leigubílar í borginni þykja afar dýrir. Kostar farið með Radiobus aðeins 550 krónur. Nánar hér.

Nóg er af leigubílum í umferð í Mílanó en þeir eru sérstakir að því leyti að ekkert þýðir að vinka þeim á götu úti. Þeim er óheimilt að taka farþega nema á ákveðnum stöðvum ellegar gegnum pöntun. Til að flækja málið enn þá hefst gjaldtaka strax og þú hringir eftir bílnum en leigubílar eru þess utan mjög dýrir. Startgjaldið eftir sjö á kvöldin er til að mynda tæplega 1100 krónur. Nota skal þá sparlega og raunar aðeins í neyð nema peningar vaxi á trjánum heima í garði.

Einkabíll er ekkert frámunalega góð hugmynd. Mílanó er ekkert sérstaklega flókin en umferðarteppur myndast iðulega við minnsta tilefni á hinum ýmsu stöðum og það er lítt skemmtilegt. Þá er sérstakt umferðargjald tekið fyrir að aka í miðbæinn fyrir klukkan 19 á virkum dögum. Fer það eftir stærð bíls og aldri en lágmarksgjald er 400 krónur og hámarksgjald 1800 krónur fyrir hefðbundinn fólksbíl. Skal greiða það innan sólarhrings að öðrum kosti bætist við sekt.

Tveir jafnfljótir nýtast ólíkt verr hér í Mílanó en mörgum öðrum borgum Ítalíu. Eru vegalengdir milli helstu athyglisverðustu staða og verslana einfaldlega of langar til að það sé nema fólk í góðu formi og mjúkum skóm. Borgin getur verið æði ruglingsleg fyrir aðkomumann og því ráðlegt að hafa með sér gott borgarkort ef rölta á um og njóta lífsins. Það hjálpar að í borginni víða er smærri garðar með bekkjum ef hvíla þarf lúin bein.

Söfn og sjónarspil

Margir standa í þeirri trú að Mílanó bjóði listunnendum ekki upp á ýkja margt merkilegt en það er öðru nær. Auðvitað er hún ekki í flokki með Róm, Feneyjum eða Flórens en miðað við söfn almennt er Mílanó ekki að standa sig mjög illa. Hafa skal í huga að listi þessi er alls ekki tæmandi heldur aðeins tæpt á því helsta og besta.

>> Brera listasafnið (Pinacoteca de Brera) – Virtasta safn Mílanó og eitt af þeim mikilvægari á Ítalíu. Áherslan hér fyrst og fremst á verk eftir ítalska málara og myndhöggvara. Farandsýningar einnig algengar hér. Metró: MM2 til Piccolo Teatro eða sporvagnar 1,4,8, 12 eða 14. Opið alla daga milli 8:30 og 19.15. Aðgangur 1.800 krónur. Heimasíðan

>> Amrosiana listasafnið (Pinoteca Ambrosiana) – Bæði bóka- og listaverkasafn nánast í miðdepli borgarinnar á Piazza Pio. Áherslan á söguna og verk tengd henni. Caravaggio, Titian og Raphael eiga hér verk meðal annara að ógleymdum hvítum hönskum sem Napóleón á að hafa haft á fingrum sér í Waterloo styrjöldinni. Þá er byggingin sjálf ekki í daprari kantinum. Ítalirnir eru reyndar erfiðir því ekkert innandyra er á tungumálum öðrum en ítölsku. Opið alla daga nema mánudaga frá 8:30 til 19. Aðgangur 1.500 krónur. Heimasíðan

>> Poldi Pezzoli safnið (Museo Poldi Pezzoli) – Eitt stærsta og dýrasta einkasafn heims liggur bak við fordyri sem lætur afskaplega lítið yfir sér. Fjölmargt forvitnilegt að sjá hér; verk endurreisnartímans í hundruðatali eftir þekkta listamenn ítalska og aðra, postulín, skartgripir og vopn svo fátt eitt sé nefnt. Opið daglega 10 – 18. Metró MM3 að Montenapolione eða strætó 94 að Piazza Cavour. Miðaverð 1.500 krónur. Heimasíðan

>> Safn Bagatti Valsecchi (Museo Bagatti Valsecchi) – Valsecchi þessi var ríkur aðalsmaður og sankaði að sér verkum frá endurreisnartímanum. Safnið ágætt og húsakynnin sjálf ekki síðri. Opið þriðju- til sunnudags milli 13 og 17:45. Metró MM3 að Montenapolione eða strætó 94 að Piazza Cavour. Miðaverð 1.500 krónur. Heimasíðan.

>> Hin Eilífa (La Permanente) – Nútímalist er í hávegum höfð í þessu húsi sem býður næsta eingöngu upp á farandsýningar. Alltaf er þó einhver sýning í gangi. Metró MM2 til Cadorna. Miðaverð misjafnt sem og opnunartími. Heimasíðan

>> Sforzesco kastalinn (Castello Sforzesco) – Sé tíminn naumur í Mílanó eða áhuginn á listum takmarkaður er þjóðráð að bregða betri fætinum hingað í þessa sögufrægu kastalabyggingu sem var einnig aðalssetur lengi vel. Hér eru nefninlega á einum og sama blettinum, þó stór sé, öll helstu söfn sem borgaryfirvöld reka sjálf og eiga. Málaralist, fornleifar, hljóðfæri, egypskir munir og margt fleira að sjá hér. Kastalinn sjálfur einnig þess virði að skoða. Metró MM1 til Cadorna, strætó 43, 50 og 57 eða sporvagnar 1, 3, 4, 12 eða 14. Opið 7 – 19 á sumrin en 7 – 18 á veturna. Aðgangur ókeypis á allt nema safn tengt kastalanum sjálfum og sögu hans en miðinn kostar aðeins 550 krónur. Á vef safnsins má sjá myndbönd af staðnum til að fá vatn í munninn. Heimasíðan.

>> Rómverska fornleifasafnið (Civico Museo Archeologico) – Það er eitthvað undarlegt við rómverskt safn í Mílanó. Svona svipað og Kópavogssafn væri til staðar á Akureyri. Að gamni slepptu er hér töluvert að sjá heillist menn af menningu og sögu Rómverja en allt hér bliknar í samanburði við það sem söfn annars staðar í landinu hafa upp á að bjóða í sama geira.

>> Dómkirkjusafnið (Museo del Duomo) – Stórt og mikilfenglegt safn um sögu, byggingu og viðhald Dómkirkju Mílanó borgar sem óneitanlega er falleg og sérstök. Metró MM2 til Duomo. Dómkirkjan sjálf er öllum opin alla daga frá 8:30 til 18:45. Heimasíðan

>> Leonardo Da Vinci tækni- og vísindasafnið (Museo Nazionale Della Scienza e Della Tecnologia Leonardo Da Vinci) – Afar forvitnilegt safn, hið stærsta sinnar tegundar í landinu öllu, um rannsóknir þær og hugmyndir sem þessi stórkostlegi þúsundþjalasmiður Da Vinci datt í hug og framkvæmdi á sínum tíma. Teikningar, módel og ýmislegt annað skemmtilegt enda maðurinn frjór með afbrigðum í hugsun. Metró MM2 að S.Ambrogio eða strætó 50 eða 58 að San Vittore. Opið þriðju- til föstudaga frá 9:30 – 17 og 9:30 til 18.30 um helgar. Lokað mánudaga. Aðgangur 1500 krónur. Heimasíðan.

>> Náttúrusögusafnið (Museo Civico di Storia Naturale) – Fyrir alla með snefil af áhuga fyrri sögu mannkyns og jarðarinnar eru velflest náttúrusögu- eða náttúruvísindasöfn vel þess virði að skoða og breikka sjóndeildarhringinn. Þetta er í betri kantinum og sérstaklega er fuglasafn þess áberandi gott með yfir 25 þúsund tegundir. Þá er og samliggjandi stjörnuver tileinkað heimum og geimum. Sporvagnar 9 eða 29 að Porta Venezia. Opið 9 – 17:30 alla daga nema mánudaga. 550 krónur inn fyrir fullorðna.

>> Konungshöllin (Palazzo Reale) – Gengt Dómkirkjunni er þetta mikla mannvirki sem öldum saman hýsti kóngafólk og fyrirmenni. Hér eru ávallt einhverjar sýningar í gangi og jafnvel þó svo sé ekki er mannvirkið sjálft skoðunar virði. Metró MM1 að Duomo. Opnunartímar og verð mismunandi eftir sýningum en oftar en ekki er frítt inn. Heimasíðan.

>> Triennale hönnunarsafnið (Triennale di Milano) – Hönnun og arkitektúr hér í forgrunni en sýningar tengdar öðrum hlutum ekki óalgengar heldur. Flott safn og í raun alltaf þrjá til fjórar sýningar í gangi í einu. Metró MM2 að Triennale eða strætó 61. Opið 10:30 til 20:30 alla daga nema mánudaga. Opið lengur á kvöldin á fimmtudagskvöldum. Kostnaður afar misjafn eftir sýningum. Heimasíðan.

>> Scala safnið (Museo Teatrale alla Scala) – Að öðrum ólöstuðum er Scala óperuhúsið í Mílanó sennilega frægasta bygging Mílanó borgar enda í heimsklassa og enginn stígur þar á svið án þess að vera fullnuma í list sinni og helst gott betur. Hér er sagan í máli og myndum. Forvitnilegt safn. Metró MM1 eða MM3 að Duomo. Opið daglega frá 9:30 til 12:30 og aftur frá 13:30 til 17:30. 900 krónur inn. Heimasíðan.

>> Dómkirkjan (Duomo di Milano) – Áður höfum við komið inn á gott safn dómkirkjunnar en kirkjan sjálf er kostuleg smíð og skoðunar virði. Byggð í gotneskum stíl og er áberandi víða úr borginni. Hún er öllum opin yfir daginn og í boði er að fara upp í turna hennar og fá þannig frábært útsýni yfir borgina. Metró eða strætó að Duomo. Opið alla daga milli 9:30 og 17:30. Heimasíðan.

>> Kirkja heilagrar Maríu hinnar náðugu (Santa Maria della Grazie) – Önnur merkileg kirkja en það er ekki útlit hennar sem flestir koma til að sjá heldur málverk eitt sem þar finnst. Síðasta kvöldmáltíðin, Cenacolo Vinciano, eftir Da Vinci er hér til sýnis en deila má um hvort það málverk sé það best þekktasta í heiminum. Örtröðin til að sjá það er allavega mikil og því nauðsyn að panta miða fyrirfram til að eiga þess kost að skoða það. Metró MM1 að Cadorna ellegar sporvagnar 18 eða 24 að Santa Maria. Opið 8:15 til 19 þriðju- til laugardaga. Vænlegt er að panta sér miða með löngum fyrirvara ef hægt er. Ósóttir miðar eru seldir hvern morgun um leið og miðasalan opnar en fátítt er að margir miðar séu í boði. Miðinn á 1400 krónur og hægt að panta slíkan á heimasíðunni.

>> Kirkja heilags Ambrósar (Basilica Sant´ Ambrogio) – Falleg basilíka í býzantískum og rómverskum stíl. Þessi var nánast jöfnuð við jörðu í Seinni heimstyrjöldinni en margar áhugaverðar freskur á kirkjuveggjum sluppu. Metró MM2 að Sant´ Ambrogio. Heimasíðan.

>> Kirkja heilags Máritíusar (San Maurizio al Monastero Maggiore) – Glæsileg kirkja frá endurreisnartímanum og varla til veggur í henni allri sem ekki er vel skreyttur verkum meistarans Bernardino Luini. Metró MM1 að Cairoli. Opin almenning 9 -14 alla daga nema 14:30 – 17:30 á laugardögum.

>> Kirkjugarðurinn mikilfenglegi (Cimitero Monumentale) – Þetta á að heita kirkjugarður en minnir meira á viðamikið safn en kirkjugarð. Er þetta sesti kirkjugarður Mílanó fullur af fögrum minnismerkjum og merkilegum skúlptúrum. Mikil bygging, Famedio, hýsir safn tengt garðinum og þeim fjölmörgu aðalsmönnum og konum sem þar liggja. Mjög áhugavert. Sporvagnar 3, 4 eða 7 að Farini eða metró MM2 að Garibaldi. Heimasíðan.

>> Besana garðurinn (Rotunda della Besana) – Undarlegur næstum hringlaga garður í miðborginni. Þarna er kirkja heilags Mikjáls og garðurinn var í fyrndinni notaður meðal annars sem kirkjugarður og til að einangra fólk þegar farsóttir gengu yfir. Ljómandi fínn garður í dag og talsvert um að þarna fari fram sýningar annars lagið. Strætó 9, 12, 20 að Besana. Opinn alla daga frá 9:30 til 17:30.

>> Scala torgið (Piazza della Scala) – Eitt stærsta torg Mílanó fyrir framan óperuhúsið fræga. Iðandi mannlíf öllum stundum og fræg stytta þar af Leonardo Da Vinci.

>> Vittorio Emanuele vöruhúsið (Galleria Vittorio Emanuele) – Það heyrir til undantekninga að mælt sé með verslunarmiðstöðvum sem ómissandi stað í erlendum borgum enda flestar hver annarri lík. Hér er annað þó ekki hægt því byggingin er kostuleg. Við hlið Scala óperunnar og Dómkirkjunnar á besta stað í bænum og hefur verið kölluð móðir allra verslunarmiðstöðva. Það skilst þegar komið er á staðinn. Þrátt fyrir að við liggi að byggingin sjálf sé gullslegin og þar inni séu verslanir sem nánast þarf að greiða fyrir að koma inn í má finna stöku staði sem selja vörur á verðum sem almennt fólk ræður við.

>> Porta Ticinese – Einn elsti hluti borgarinnar og sá eini sem slapp að mestu við tjón í Seinni heimsstyrjöldinni. Þar standa frægustu rómversku minjar Mílanó fyrir fram basilíku heilags Lorenzó; Súlur heilags Lorenzó.

>> San Siro leikvangurinn (Stadio Giuseppe Meazza) – Heimavöllur Inter Mílan og AC Mílan er sjón að sjá. Leikvangurinn heitir Giuseppe Meazza en heimamenn kalla hann San Siro eftir hverfinu sem hann er í. Þarna fara fram einir 60 knattspyrnuleikir ár hvert meðan leiktíðin stendur yfir. Auðvelt er að fá miða á smærri leiki en næsta vonlaust á stórleiki nema kaupa þá dýrum dómum af vafasömum gaurum fyrir utan leikvanginn á leikdegi. Þá eru hér líka haldnir margir stærri tónleikar. Safn og verslun tengt félögunum tveimur sem hér spila er opið hér daglega og kostar aðgangur að safninu 1400 krónur. Metró MM1 að Lotto eða sporvagn 16 að San Siro. Heimasíðan.

>> Branca turninn (Torre Branca) – 108 metra hár stálturn nánast í miðju borgarinnar. Af toppi hans fæst eðal útsýn til allra átta. Camoens stræti.

Verslun og viðskipti

Hér erum við að tala saman. Sé einhver ein borg í heiminum sem stendur og fellur með verslun er það líklegast Mílanó. Hér fæst allt milli himins og jarðar en flest er þó dýrkeypt mjög. Tískuvörur hér fyrirferðameiri en annað og hver einasta verslun sem vill telja sig merkilega búllu er með útibú hér og fleiri en eitt í mörgum tilfellum. Vert er að hafa íhuga að Mílanó er ásamt Feneyjum dýrasta borg Ítalíu og líklegt að íslenskir krónueigendur láti fara í taugarnar á sér hversu skammt krónuræfillinn nær enda enginn skortur hér á vörum sem yndislegt væri að eiga heimavið.

Ef fólk á peninga til eyðslu og tómlega fataskápa skal fara rakleitt til tískuþríhyrningsins, quadrilatero della moda, sem svo kallast en það er aðalverslunarvæði Mílanó borgar. Á það við um þrihyrninginn milli þriggja stórra torga; Duomo torgs, Cavour torgs og San Babila torgs. Á þessi svæði eru dýrustu verslanir heims og fleiri til. Helstu göturnar eru Della Spiga, Vittorio Emanuele, Manzoni og Montenapoleone stræti. Skal eftir megni reyna að vera í andlegu jafnvægi á þessum slóðum því verðlagning öll getur valdið áfalli. Metró MM1 eða MM3 að San Babila eða Montenapoleone.

Örvæntið þó ekki því önnur verslunarsvæði Mílanó eru hagkvæmari. Vercelli breiðgatan er betri kostur en þar má finna fínar verslanir á verði sem betur hentar eðlilegu fólki. Metró MM1 að Pagano. Á Buenos Aires breiðgötunni eru einnig margar góðar verslanir og fjölbreyttara flóra en annars staðar. Sjálfir vilja heimamenn meina að sú gata sé lengsta verslunargata heims. Ekki skal dæmt um það en víst hjálpar að þvælast þar um á þægilegum skóm. Metró MM1 að Porta Venezia. Margar götur hér í grennd eru einnig ágætar til verslunaráps.

Eina outlet verslunin á svæðinu er töluvert út úr borginni í smábænum Seravalle Scrivia. Tekur um klukkustund að komast þangað en miðað við verðlagningu almennt í Mílanó er það fljótt að borga sig. Rútur flytja fólk til og frá borginni gegn 3600 króna gjaldi en ráðlegra væri að leigja sér bílaleigubíl einn sólarhring eða svo enda ódýrara ef nokkrir eru saman. Umrædd outlet miðstöð er sögð ein sú stærsta í Evrópu með yfir 180 verslanir. Heimasíðan hér.

Nokkrir stórfínir markaðir eru starfræktir í Mílanó.

    • Mercatone del Naviglio Grande er þeirra stærstur. Ýmsir munir þar til sölu og yfir 400 söluaðilar. Þessi er opinn síðasta sunnudag í hverjum mánuði nema í júlí. Sjá má nánari upplýsingar hér en aðeins á ítölsku. Metró MM2 að Porta Genova. Opinn 9 – 18:30
    • Fiera del Sinigaglia er flóamarkaður með stóru effi og fátt sem ekki er til sölu hér löglegt og ólöglegt. Þessi er opinn vikulega á laugardagsmorgnum. Heimasíðan hér en heldur fátækleg og aðeins á ylhýrri ítölsku. Metró MM2 að Porta Genova og rölt upp Via Valenza. Opinn frá 9 og fram eftir degi meðan traffík er í gangi.
    • Mercato di Viale Papiniano heitir sá þriðji og er sker sig aðeins úr því hér eru listamenn að selja verk sín og innflytjendur bjóða vefnaðarvörur. Metró MM2 að Sant´ Agostino. Opinn þriðjudagsmorgna 7:30 – 13 og laugaradaga frá 8 – 17.
    • Via Fauché er minnstur en í hvað mestum metum tískusinnaðra. Vilja margir meina að þessi sé í raun ekkert annað en outlet enda eitthvað um að hér séu seldar úreldar merkjavörur. Metró 1, 12, 14 að Losana. Opinn þriðjudaga frá 7:30 til 13 og laugardaga frá 7:30 til 17.

Matur og mjöður

Íbúar í Mílanó hafa úr þúsundum góðra veitingahúsa að velja þegar kemur á matmálstímum og hér eru staðirnir ekki síðri en annars staðar. Þvert á móti eru mun fleiri dýrir og jafnframt góðir veitingastaðir hér en annars staðar í landinu. Að því sögðu eru Ítalir þvílíkir sælkerar almennt að jafnvel slakir ítalskir staðir færu í bækur annars staðar sem fyrsta flokks. Á það ekki síst við á Íslandi.
Tveir réttir ítalskir eru taldir tilheyra heimamönnum hér sérstaklega. Osso buco er nautaskankar eldaðir eftir forskrift og Risotto alla milanese þekkja margir. Er það kjúklingarisotto kryddað saffroni.
Matartímar hér á norður Ítalíu eru ólíkt eðlilegri en sunnar í landinu. Mílanóbúar matast í hádeginu milli 12:30 og 14:30 og á kvöldin milli 19:30 og 21:30. Enn er við lýði sú hefð að menn fái sér apperatíf fyrir kvöldmat og stundum fyrir hádegismat með víni í flestum tilvikum. Bjóða flestir barir upp á úrval smárétta og eitt vínglas fyrir fast verð milli 19 og 21 á kvöldin. Prísinn milli 800 og 14oo króna.

Til umhugsunar: Þó hættulegt sé alltaf að alhæfa um nokkurn hlut er staðreynd í Mílanó að meirihluti veitingastaða sem eru við Dómkirkjuna og kringum það svæði eru nánast eingöngu þar vegna ferðamanna, gæði og úrval almennt lélegra en í öðrum hlutum borgarinnar og verðin hærri. Hið sígilda á við hér eins og í öllum borgum heims; ef hann er fullur af heimamönnum er hann klárlega góður.

Djamm og djúserí

Ekki þarf að spyrja að fjörugu næturlífi í velmegunarborg á borð við Mílanó. Barir eru við flest skref en þrjú hverfi eða götur skera sig úr þegar setja á undir sig betri fótinn. Breiðgatana Corso Como er glamúrstaður mikill og þar eru til húsa á litlu svæði tonn af börum og gleðihúsum öðrum. Hér er ávallt pakkað yfir sumartímann. Aðeins rólegri en síst leiðinlegri er Navigli hverfið nálægt Porta Ticinese breiðgötunni. Hér eru líka barir og klúbbar en hverfið allt með rólegra yfirbragði sem heillar suma meira en hitt. Einnig er vænlegt að hefja djamm á þessum stað og flytja sig svo um set síðar um kvöldið. Aðrir staðir þar sem fólk kemur mikið saman þegar kvölda tekur um helgar eru Monte Nero, Piazzale Susa og í Brera hverfinu.

Til umhugsunar: Á velflestum börum má finna eintak af bæklingnum Zero2 sem gefur góða mynd af því sem í boði er hverju sinni í borginni.

Íbúar skemmta sér flestir á fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöldum en miðvikudagskvöldin eru æði vinsæl hjá flestum stærri klúbbunum.

Líf og limir

Mílanó borg er tiltölulega örugg ef frá eru talin stöku úthverfi hennar. Þá er fólki ekki ráðlagt að vera mikið á ferð við Aðallestarstöðina eða Cadorna stöðina þegar skyggja fer. Þar eru hópar ungmenna og heimilislausra sem hika ekki við að næla sér í peninga með ýmsum leiðum.

Sama gildir um götusala sem eru fjölmennir alls staðar. Þeir selja allir eftirlíkingar og geta margir verið ansi leiðigjarnir sýni fólk snefil af áhuga.
Kringum Duomo torgið bíða ýmsir eftir fölbleiku ferðafólki til að herja út pening. Hvort sem einhver vill gefa þér vináttuarmband eða deila með þér korni til að gefa dúfunum þá er ekkert sem heitir gjöf á þessu svæði. Takirðu við einhverju losnarðu ekki við viðkomandi fyrr en peningar hafa skipt um hendur.
Að síðustu skal hafa í huga að fara afar varlega á gangbrautum án umferðarljósa. Orðspor Ítala sem háskalegra ökumanna er ekki tilkomið út af neinu og gangandi vegfarendur verða alltaf að hafa varann á sér.

View Larger Map