Ritstjórn Fararheill veit af ellefu einstaklingum hið minnsta sem voru svo bjartsýnir fyrir Íslands hönd fyrir umspilsleikina gegn Króatíu að þeir keyptu farseðla til Brasilíu áður en leikirnir fóru fram. Einhverjir þeirra fengið bakþanka en það er í raun engin ástæða til.

Götupartí verða hvarvetna í Brasilíu meðan á HM stendur og þar er gott að vera.

Götupartí verða hvarvetna í Brasilíu meðan á HM stendur og þar er gott að vera.

Víst komst Ísland ekki áfram en með fullri virðingu fyrir landsliðinu þá er hæpið að þeir hefðu farið ýkja langt á mótinu. Við segjum ekki annað en guð og allar góðar vættir hjálpi Króötum í opnunarleik HM gegn heimamönnum í Brasilíu. Það verður blóðbað.

En það er engin ástæða til að gráta Björn bónda né nokkurn annan þó engir séu miðar og ekkert sé íslenskt landslið. Ferð til Brasilíu er aldrei leiðinleg og með heimamenn í enn meira stuði yfir HM en venjulega verður þetta mjög eftirminnileg lífsreynsla fyrir alla sem þangað fara. Þess utan viljum við meina að það sé töluvert meira fjör í því að fylgjast með leikjum mótsins á risaskjám á torgum borga en nokkurn tíma inni á leikvöngunum sjálfum. Og ekki er í öllum tilfellum um torg að ræða. Bæði í Recife og Ríó eru risaskjárnir settir upp við ströndina. Ekki amalegt það.

Sé fólk með djúpa vasa er alltaf hægt að kaupa miða á svörtum fyrir leikina á HM 2014. Það hefur alltaf verið hægt og mun alltaf verða hægt.

En geti menn komið sér fyrir með bjór og snakk á Rúmfatalagersstól á helstu torgum borganna fer í hönd mun skemmtilegri tími en hjá þeim er sitja í stúku G lengst uppi í helvíti á leikvöngunum. Það vita líka flestir sem knattspyrnuleiki fara á að leikirnir sjálfir eru oftar en ekki aukaatriði. Aðalskemmtunin er fyrir og eftir meðal félaga og vina og annarra stuðningsmanna.

Risaskjáir verða settir upp á stærstu torgum í öllum borgum landsins og í Sao Paulo og Ríó á fleiri en einum stað.. Þar verður níðþröngt á þingi auðvitað en það er líka hluti sjarmans. Persónulegt rými er ekki mikið að þvælast almennt fyrir Brasilíumönnum sem aftur er kjörinn starfsvettvangur fyrir þjófa sem því miður er hluti af þessu öllu líka.

Hér að neðan má sjá kort af þeim stöðum þar sem fyrirhugað er að koma upp risaskjám í helstu borgum en hafa skal í huga að listinn er ekki tæmandi og fleiri staðir gætu bæst við áður en yfir lýkur.