Illu heilli, og kannski ástæða sífellds niðurskurðar, er Fréttablaðið, útbreiddasta dagblað þessa lands, mun meira auglýsingabæklingur en fréttablað.
Illu heilli fyrir lýðræðið í landinu. Illu heilli fyrir hugsandi fólk. Illu heilli fyrir auglýsendur.
Mörg eru dæmin en eitt hið allra besta í helgarblaði Fréttablaðsins þessa helgina.
Fyrir utan sirka þrjú hundruð kynningarblöð sem með fylgdu og forráðamenn kalla auglýsingar sem skrifaðar eru af þess eigin starfsmönnum fylgdi því átta síðna aukablað um ferðir. Minnst einn úr ritstjórn hugsaði sér gott til glóðar í hnausþykkum sloppi með nýristað kaffið frá Kólombíu á morgunverðarborðinu.
En þegar betur var að gáð var átta síðna ferðablaðið ekkert annað en tæplega sex síðna auglýsingablað. Sem var nógu slæmt en ekki öll sagan. Var efnið á þessum tveimur síðum sem eftir stóðu eitthvað til að valda titringi í íslenskum brjóstum? Eitthvað til að rífa fólk úr móki og panta ferð hið snarasta? Eitthvað til að kynda undir áhuga á ferðum og ferðalögum?
Alls ekki!
Efnisyfirlitið samanstóð af:
A) Grein um neðansjávarhótel við Zanzibar í Afríku. Fallegt og skemmtileg en þegar lágmarksverð á vinsælum tíma er auglýst á 300.000 þúsund krónur fyrir utan flug til og frá má ljóst vera að neðansjávarhótelið við Zanzibar er aðeins fyrir eiganda Fréttablaðsins og aðra sem eignir eiga miklar og helst ekki á Íslandi.
B) Næsta grein fjallaði um jólastemmningu í stórborgum. Eins yfirborðskennt og mögulegt er. Vissirðu til dæmis að það skína jólaljós á götum í London um jólin og í leikhúsum eru sérstakar jólasýningar….
C) Vitnað í ríkisstjórann á Hawaii-eyjum sem segir hjónabönd samkynhneigðra auka gjaldeyristekjur????
D) Ágætt viðtal við Guðmund Rúnar Árnason sem heldur jól í Malaví í Afríku. Ágætt stöff en það er enginn Íslendingur að fara í ferðalag til Malaví.
E) Fjallað um nýja ferðaskrifstofu á Íslandi. Sömu ferðaskrifstofu og fjallað var ítarlega um í öllum miðlum 365 fyrir tveimur vikum þegar hún opnaði.
F) Í lokin er smotterí um hve ljósadýrð skapi dásamlega umgjörð um jólamarkað í Berlín. Listi frá Tripadvisor um tíu „bestu“ allt innifalið hótelin í Tyrklandi og grein um að flugfarþegar treysti ekki kvenkyns flugmönnum.
Á góðri íslensku þá er þetta drasl. Hvetur engan og nýtist engum.
Mest vorkennum við þeim ferðaþjónustuaðilum sem auglýsa í þessu blaðskrípi. Það getur ekki litið vel út að stórar ferðaskrifstofur leggi nafn sitt við gjörsamlega innantómt drasl. Svo ættu auglýsendur að fá afslátt því auglýsingarnar sjást ekki þegar Fréttablaðið er lesið á netinu.
Sorrí Mikael og Ólafur, en þetta er einfaldlega óboðlegt stöff fyrir hugsandi þjóð.