N óbelsverðlaunahafinn Elias Canetti gat vart slitið sig frá torgi gamla miðbæjarins í Marrakesh fyrir 50 árum síðan. Þá var þessi borg eins og reyndar flestar borgir í landinu sveipaðar miklum ævintýraljóma. Galdrameistarar og eldgleypar léku listir sínar á opnum torgum, iðandi markaðir stórir og forvitnilegir og ekki síður vöktu aparnir á Jamaa el Fna torginu og slæm meðferð á þeim vakti miklar tilfinningar með Canetti.
Hálfri öld síðar er enn fjöldi apa á Jamaa el Fna og þeir sæta enn slæmri meðferð. Markaðurinn er enn á sínum stað og ekki síður auðvelt nú en áður að villast þar. Þá eru heimamenn enn að mestu vinsamlegir við ferðamenn en þó fer áreiti sölumanna verulega fyrir brjóstið á mörgum og getur reyndar verið nokkuð skelfilegt fyrstu dagana meðan fólk venst við.
Allt annað er breytt til hins verra í þessari ágætu borg sem meðal annars hefur til síns ágætis að hér er höll konungsins í Marokkó og hér dvelur kappinn og fjölskylda hans þegar þau eru ekki í dýrum heilsulindum annars staðar í veröldinni.
Orðið Marrakesh er komið úr gömlu tungumáli Berba og stendur fyrir Land Guðs en þó borgin sé þungamiðja landsins er hún aðeins sú þriðja stærsta á eftir Rabat og Casablanca.
Í raun er Marrakesh tvær gjörólíkar borgir. Annars vegar gamla borgin, medina, þar sem markaðirnir, níðþröng strætin og 99 prósent allra ferðamanna hingað eru. Sá hluti er kyrfilega lokaður af með gömlum virkisveggjum allt í kring sem enn standa.
Hin Marrakesh er meira og minna klippt út úr Evrópu. Í þeim hluta er kallast Gueliz eru breiðgötur, flottir bílar, helstu tískuhús og hótelkeðjur og glæsileg veitingahús. Sú borg er áþreifanlega mikið leiðinlegri skoðunar þó úrval veitingahúsa og hótela sé áberandi mikið betra.
Hótel strangt til tekið finnast ekki svo mörg í gömlu borginni. Þar eru mun fleiri gistihús, ryads, en hótel eða hostel per se.
Loftslag og ljúflegheit
Óhætt er að vara nábleika Íslendinga við ferðum svo sunnarlega yfir sumartímann. Ólíft með öllu er að þvælast um þröngar götur í sumarhitum sem ná auðveldlega 40 gráðum og jafnvel meira fyrir meðalmanninn sem ekki er vanur.
Fýsilegra er að skoða Marrakesh milli október og apríl en þá ber þess að gæta að kvöldin og næturnar verða ótrúlega kaldar.
Sérstaklega skal varað við að þvælast út í eyðimörkina á þessum tíma öðruvísi en vel klæddur því þótt hitastigið sé þægilegt á daginn þarf vart að hreyfa vind til að nístandi kuldi geri vart við sig.
Til og frá Marrakesh
Alþjóðaflugvöllur Marrakesh er lítill en tiltölulega nýlegur. Menara flugvöllurinn heitir sá og er aðeins í tíu til fimmtán mínútna fjarlægð frá gamla borgarhlutanum og er reyndar í einu úthverfa nýja borgarhlutans. Engin þörf er að skipta peningum áður en lent er í Marrakesh því bæði eru á flugvellinum hraðbankar og allnokkrir gjaldmiðlaskiptar. Hafa skal varann á því þar og annars staðar því stöku hraðbankar eru aðeins á frönsku tungumáli.
Til umhugsunar: Völlurinn er lítill og úrval verslana við brottför er mjög takmarkað. Er þar helst minjagripi að finna dýru verði í viðbót við hefðbundna litla fríhöfn. Annað fæst ekki við brottför og ráð að prútta frekar um minjagripi á götum úti en í flugstöðinni.
Langódýrasta leiðin frá flugvellinum og beint að Djemaa el Fnaa torginu í gömlu borginni er með strætisvagni 11 sem fer á 20 til 30 mínútna fresti frá vellinum. Túrinn er stuttur og tekur vart meira en 10 – 15 mínútur. Miðaverð er heilar 75 krónur. Sama vagn er að sjálfssögðu hægt að taka til baka frá sama stað. Annar vagn, 19, fer líka frá flugvellinum og inn í gamla miðbæinn. Þessi er þó nýtískulegri með loftkælingu og rými fyrir farangur. Fyrir túrinn greiðast 290 krónur.
Leigubílar eru aðeins fljótari eðlilega og skal ekki hika við að prútta strax áður en sest er inn í bíl hér. Góður prúttari fær bíl inn í gömlu borgina fyrir 1000 kall en það getur kostað smá stund. Miða skal við að enginn túr ætti að vera dýrari en tvö þúsund krónur inn í borgina.
Til umhugsunar: Í raun má segja að tvær tegundir leigubíla starfi hér. Annars vegar þessi dýru hefðbundnu sem sjást alls staðar í Evrópu. Hins vegar eldri sem þekkjast á aldri og skemmdum. Þeir fyrrnefndu fara mun oftar eftir mæli og er erfiðara að prútta niður. Þá er almennt ólíkt skemmtilegra að þvælast um og jafnvel villast með þeim síðarnefndu.
Á Menara flugvelli eru minnst þrjár bílaleigur. Slíkt er ekki svo fráleitt hér ef fara á út fyrir borgina en það getur verið flókið að aka um í Marrakesh sjálfri enda umferðarreglur að mestu djók og nægir heimamönnum yfirleitt að rétta nokkra seðla ef svo ólíklega vildi til að lögregla væri með vesen. Ekki er mælst til að ferðafólk prófi slíkt en líkur á að sjá lögreglu á ferð hér eru almennt litlar.
Lestarstöð Marrakesh er nokkuð út úr fyrir flesta ferðamenn og tekur gróflega sama tíma að fara þangað og á flugvöllinn eða tíu til fimmtán mínútur frá gömlu borginni. Stendur hún í Hassan II breiðgötuna í Guéliz. Til og frá Marrakesh er hægt að fara til Essaoura, Casablanca, Rabat og víðar en gæta skal þess að fara deginum áður á lestarstöðina til að kaupa miða því þeir eru oftar en ekki uppseldir. Sjá heimasíðu járnbrautanna hér.
Til umhugsunar: Lestir almennt í Marokkó eru komnar til ára sinna og hafa skal það í huga þegar keyptur er miði. Fínt er að hafa með sér nesti til lengri ferða og jafnvel taka aukaskammt og bjóða innfæddum ferðalöngum með þér. Það þykir kurteisi hin mesta og er ávísun á vinsamlegheit og samræður.
Samgöngur og snatterí
Sem fyrr sagði er óráð að nota annað en tvo jafnlanga til að skoða sig um í gamla borgarhlutanum í Marrakesh. Það helgast af því að umferð er þung, margar göturnar ófærar bílum og ef menn eru almennt í sæmilegu formi er hægt að skoða þennan hluta borgarinnar vel og vandlega á þremur til fjórum dögum.
Það er ekki fyrr en menn vilja út fyrir medina sem þörf er á einhverju hraðskreiðara en fótum. Þá er yfirleitt næsti leigubíll málið.
Frá Jamaa el Fna torginu ganga allir helstu strætisvagnarnir. Þeir nothæfustu fyrir ferðafólk eru:
Númer 1 fer inn í nýja borgarhlutann Guéliz
Númer 3 fer að lestarstöðinni og umferðarmiðstöð borgarinnar
Númer 11 fer að Menara garðinum
Númer 19 er hraðleið á flugvöllinn
Hér er líka til staðar útsýnisvagn á borð við þá sem sjást í velflestum borgum heims. Sá rúntar um helstu kennileiti borgarinnar en í Marrakesh er þessi möguleiki næsta gagnslaus þar sem 99,9 prósent þess sem forvitnilegt er í borginni er að finna í gamla bænum og þangað fer útsýnisvagninn ekki. Sé vilji til að skoða engu að síður er vænlegast að ná honum á Foucauld torginu. Miðaverðið er 1.900 krónur og gildir miðinn í tólf klukkustundir.
Í boði er einnig að fara um borgina með hestvögnum. Kallast þeir Caleche og er að finna þó nokkra á Foucauld torginu sem er litla torgið aftan við Djemaa el Fna. Það er ágæt leið til að sjá hluta gamla borgarhlutans og vera rómó um leið ef sá gállinn er á manni. Prútta skal hart áður en lagt er í hann en hefðbundið verð fyrir klukkustundarrúnt er kringum þúsund kallinn.
Ratvísi
Þrír borgarhlutar sérstaklega ættu allir að skoða. Guéliz í nýju borginni er hin raunverulega miðborg Marrakesh en ástæða þess að hana skal heimsækja er ekki til að nálgast KFC, Zöru og heimsþekkt hótel. Heldur er munurinn á Guéliz annars vegar og Medina, gömlu borginni, hins vegar svo stjarnfræðilega mikill að flestir verða agndofa. Er þó ekki nema fimm mínútna leigubílaakstur á milli.
Gamla miðborgin, Medina, er það hjarta Marrakesh sem flestir koma til að upplifa. Fólk skiptir nokkuð í hópa; mörgum finnst allt of mikill túristafnykur af öllu þar meðan aðrir njóta þess að vera í návígi við hina suðandi traffík sem hér er alls staðar.
Suður af Medina, í um tíu mínútna göngufæri, er að finna Kasbah hverfið. Þar er ekki minni læti í fólki né minna um að vera en það er stigsmunur á fólkinu þar og í Medina. Hér búa nefninlega þeir sem minna hafa milli handanna og þótt erfitt sé að sjá það eru þeir vinsamlegri gagnvart ferðafólki en aðrir. Það er meðal annars hér sem konungshöllin er en hana er þó ekki hægt að skoða og lítið sést frá götunni.
Söfn og sjónarspil
Því miður verður að segjast það sama um Marrakesh og velflestar aðrar borgir Marokkó að hér eru engin ósköp að sjá til að blása anda í brjóst. Söfn er fá og mörg hver afar túristaleg og fyrir fráa á fæti dugar í raun einn einasti dagur til að sjá allt það í gömlu borginni sem mælt er með að enginn missi af.
Að þessu sögðu er gamla borgin mikið sjónarspil. Húrrandi líf í velflestum götum og enginn einasti sölumaður gefst upp á að reyna að selja glingur sitt. Komist fólk yfir sjokkið yfir ágengni þeirra margra er hægt að dunda sér drykklanga stund á mörkuðunum, souks, en sá allra stærsti þeirra er við fyrrnefnt Djemaa el Fna torgið. Hafa skal kyrfilega í huga að sá er ótrúlega stór og engu skiptir hversu ratvíst fólk er þá er hending að fólk villist ekki eftir rölt um hann í nokkrar klukkustundir.
>> Markaðstorgið (Jamaa el Fna) – Þetta torg og markaðurinn út af því er ástæðan fyrir heimsfrægð Marrakesh. Þó það sé í dag malbikað og mun fleiri ferðamenn séu á vappi en áður var er torgið enn að mestu eins og það var fyrir 50 eða 100 árum síðan. Þetta er lunga gömlu borgarinnar og hér er traffík af fólki frá morgni til kvölds. Reynslan er sú að fólk annahvort elskar þetta eða hatar. Á daginn má hér finna allt til sölu frá appelsínusafa til fíkniefna. Flokkar Berba og annarra ættbálka landsins spila og syngja fyrir túristana og fyrir heimamenn eru hér alla jafna svokallaðir sögumenn sem heimamenn hópast kringum til að heyra eins og eina góða sögu. Lítið gagn er af því fyrir túristana nema þeir kunni arabísku. Hér má sjá alls kyns fólk og dýr; apar, slöngur og asnar þvælast meðal ferðamanna og stöku bíla sem í gegn aka og það er þessi mixtúra hávaða, lyktar, tónlistar, dansa og mannlífs sem gefur torginu algjörlega einstakt yfirbragð. Ekki nóg með það heldur tekur það miklum breytingum. Þegar líða fer daginn rísa hér fjöldi matarstalla á augabragði og þar er í boði allir helstu réttir heimamanna á tiltölulega góðu verði svo lengi sem menn prútta. Enginn ferðamaður labbar hér án mikils ágangs þegar matmálstími er í fullum gangi. Hér er étið langt fram eftir nóttu.
Til umhugsunar: Það er freistandi að taka myndir á torginu og um að gera en sá galli er á gjöf Njarðar að margir þeir sem þú tekur mynd af munu heimta peninga fyrir vikið. Það á við um velflesta sem sýna eitthvað þar og eru allnokkur dæmi um handalögmál þegar ferðamenn neita að láta af hendi peninga.
>> Markaðurinn (Souk) – Það eru einir fimm mismunandi markaðir í borginni en hinn eini sanni er þessi sem liggur beint frá Jamaa el Fna torginu. Það virðist sakleysislegt að rölta inn þrönga götuna en þar inni er heill heimur af glingri og gulli og jafnvel þótt ekkert sé stoppað tekur klukkustundir að skoða markaðinn allan. Regluleg stopp munu þýða hálfan eða heilan dag ef verið er að leita að einhverju sérstöku. Ólíkt markaðstorginu sjálfu þar sem fáir frá frið fyrir sölufólki er markaðurinn hér tiltölulega góður hvað þetta varðar og mun betri en sambærilegir markaðir í Egyptalandi eða Tyrklandi svo dæmi séu tekin. Markaður þessi er svæðaskiptur þó allmargir sölumenn selji hitt og þetta. Þannig eru teppabúðirnar flestar á sama svæði, minjagripasalar á sama og svo framvegis. Finna má þarna fjölmargt skemmtilegt en verðlagið tekur mið af því að um fölbleika útlendinga er að ræða. Ekki hræðast prútt og alls ekki bjóða meira til að byrja með en helming þess sem uppsett er.
>> Koutoubia moskan (Koutoubia) – Þó moskur séu hér allnokkrar í borginni er ein sem upp úr stendur í orðsins fyllstu. Það er Koutoubia moskan við Jamaa el Fna torgið en moskan sú er hæst allra í borginni. 70 metra há og getur komið sér afar vel þegar og ef fólk villist í borginni því hún sést víða að. Enginn aðgangur er að moskunni sjálfri fyrir aðra en heittrúaða múslima.
>> Saadian grafhýsið (Saadiam Tombs) – Það var ekki fyrr en árið 1926 sem þetta grafhýsi fannst og hefur því verið viðhaldið alveg eins alla tíð síðan. Þess vegna er þetta eitt af vinsælli stoppum ferðamanna en ekki aðeins sökum grafhýsis Saadianna sem réðu hér ríkjum á fjórtándu og fimmtándu öld heldur er grafhýsið sjálft fallegt og mikið magn Zelji, marokkóskra flísa, að sjá meðal annars. Rue del la Kasbah. Aðgangseyrir 150 krónur.
>> Majorelle garðarnir (Jardin Majorelle) – Nokkrir garðar eru í eða við borgina. Þennan er að finna í nýja borgarhlutanum, Guéliz, og er þeirra stærstur. Hér er að finna mikið úrval plantna og blóma og sérstaklega er garðurinn þekktur fyrir afar stórt safn kaktusa. Garðurinn er vinsæll enda hægt að flýja hér stingandi sólina á heitustu tímunum og því ráð að mæta í fyrra fallinu til að njóta hans til fullnustu. Sæmilegt íslamskt safn er að finna í garðinum miðjum en aukagjald er til að skoða það. Opið daglega 8 til 18. Aðgangseyrir 600 krónur og 250 krónur í listasafnið að auki. Heimasíðan.
>> Þjóðminjasafnið (Dar Si Saïd Museum) – Eitt af betri söfnum borgarinnar og reyndar landsins. Hér má sjá muni úr menningu heimamanna þá og nú. Ýmsir forvitnilegir munir á borð við hljóðfæri, vopn, teppi, keramik og margt annað sem tilheyrir þessum landshluta og þeim er sunnar bjuggu í landinu. Safnið er líka stutt frá Jamaa el Fna torginu í Rue Riad Zitoun Jdid götuna. Sjálft er safnahúsið ekki dapurt heldur enda staðsett í gamalli höll.
>> Ben Youssef háskólinn (Ben Youssef Madrassa) – Frægur skóli enda einn sá stærsti sinnar tegundar í Afríku. Hann er opinn ferðamönnum og hér er ýmsa fagra muni að sjá. Ben Youssef moskan er við hlið skólans en hún er lokuð ferðafólki.
>> El Bahia höllin (Palais El Bahia) – Á átjándu öld þótti Bahía höllin við Mellah götu meðal þeirra fegurstu í landinu en þar bjuggu lénsherrar þess tíma og nutu lífsins. Höllin er ekki amaleg en engin höll á borð við þær sem fyrirfinnast í Evrópu. Fremur er um risastórt einbýlishús að ræða en í raun er fátt að sjá og skoða því herbergi hallarinnar eru öll galtóm. Opið daglega nema sunnudaga 9 – 17. Aðgangseyrir 380 krónur.
>> El Badí höllin (Palais El Badi) – Öllu glæsilegri en Bahía höllin var Badí höllin og nægir að sjá stóra og þykka virkisveggina til að sannfærast um það. Var höll þessi byggð undir áhrifum frá hinni glæsilegu Alhambra á Spáni. Það er þó ekki mikið meira að sjá þar lengur því ekki er mikið eftir af höllinni sjálfri nema rústir og reyndar vekur athygli hversu margir storkar hafa gert heimili hér á virkisveggjunum. Hægt er þó að skoða neðanjarðargöng undir höllinni en þau eru lítið spennandi. Skemmtilegra er að sjá útsýnið yfir hluta borgarinnar. Aðgangseyrir 300 krónur.
>> Ljósmyndasafnið (Maison de la Photographie) – Fróðlegt safn, ekki síst fyrir áhugaljósmyndara, en hér má sjá fjölda ljósmynda frá hinum ýmsu tímum í lífi borgarinnar. Safn þetta opnaði 2009 en allar ljósmyndirnar voru áður í eigu einkaaðila. Opið daglega 10 – 18. Aðgangseyrir 400 krónur. Það stendur við Rue Ahel Fez í Medina.
>> Marrakesh safnið (Musée de Marrakech) – Ýmsir telja þetta besta safn borgarinnar. Meira eins og heimili moldríks einstaklings en safn hreint og beint enda fallegum munum hér raðað eins og um heimili sé að ræða. Byggingin ekki amaleg heldur á marokkóskan mælikvarða. Staðsett við Place Ben Youssef í Medina. Opið daglega 9 – 18:30. Miðaverð 450 krónur. Heimasíðan.
>> Sútunarsvæðið (Tannery) – Leiki fólki hugur að sjá sútara að vinnu sinni við að súta leður er mál að halda að Rue Dabachi götu og ganga á lyktina sem er ekki ýkja góð. Fróðlegt engu að síður og forvitnilegt að sjá vinnuaðstæðurnar en svona vinna sútarar um allt landið og reyndar víðast hvar um heim.
Matur og mjöður
Þrátt fyrir mikla og langa sögu sem áfangastaður erlendra ferðamanna kemur tvennt spánskt fyrir sjónir. Annars vegar eru veitingastaðir í gömlu borginni með afskaplega lítið úrval rétta. Tagínrétti má alls staðar fá en annað en það þarf að leita uppi. Í raun þarf að fara inn í Guéliz til finna fjölbreytta matseðla.
Hitt er að töluvert vandamál getur verið að komast í alkohól í borginni. Er það öllu minna vandamál í Guéliz en í gamla bænum þar sem stika má hundruð staða sem ekki bjóða bjór eða vín með mat. Kemur það í sjálfu sér ekki á óvart enda víndrykkja strangt til tekið bönnuð hér. Þó fá menn sér hér veigar alloft en þá að baki lugtum dyrum en ekki á opinberum stöðum. Helst er líklegt að komast í áfengi á allra mestu túristastöðunum við Jemaa el Fna torgið.
Allmargir eigendur þeirrar ryads, gististaða, sem finna má í gamla bænum bjóða gestum sínum líka bjór og vín sé þess óskað.
Gistihús og gestrisni
Nóg er af súper dúper hótelkeðjum í Marrakesh. Þau er öll að finna á sama svæðinu í nýja bænum. Það er þó alls ekki leiðin til að kynnast borginni heldur mælir Fararheill með að fólk tékki sig inn á eitt af þeim gistihúsum sem finna má í gömlu borginni. Þar er yfirleitt fyrsta flokks gestrisni án þess að íburður sé að kosta handlegg og fótlegg.
Riads, eða Ryads, heita þau og eru fyrir utan mjög lítil hótel einu staðirnir sem mega leigja út herbergi fyrir ferðamenn í gömlu borginni. Þar finnast engin nútímahótel. Mörg þeirra er rekin af útlendingum, Frökkum mestmegnis, og þar er alla þjónustu að fá og það mun persónulegri en á hótelum. Sum þeirra virðast ekki merkileg utan frá en eru mörg afar falleg innan frá.
Verið alls óhrædd að kynnast heimamönnum. Þeir eru vinsamlegir langflestir og margir bíða ekki lengi með að bjóða inn í te.
Dúllerí og dúndur
Enginn skortur er á arabískum baðhúsum í Marrakesh. Hammam heita þau á frummálinu eða Baines á frönsku. Velflest þeirra eru túristamiðuð og dýr eftir því. Finnast þau baðhús yfirleitt í grennd við Jemaa en Fna. Tvö eða þrjú baðhús skera sig úr bæði meðal heimamanna og gesta.
Til umhugsunar: Ekkert mál er að rölta inn í flest baðhús í borginni og komast að. Það gildir sjaldnast um þessi þrjú hér að neðan. Best er að panta með dags fyrirvara.
- Le Bains de Marrakech – Við Berb Sedra í Kasbah hverfinu. Það flottasta í bænum og sannarlega glæsilegt. Það er þó fokdýrt miðað við aðra slíka staði hér. Velflestir gistihúsaeigendur mæla með þessu við ferðamenn en hafa skal í huga að þeir fá greiðslu fyrir slíkt. Heimasíðan.
- Les Bains de L´alhambra – Einnig í Kasbah hverfinu er að finna þetta baðhús. Lítur ekki út fyrir merkilegheit utanfrá en að innan er allt hér í príma klassa. Ekki lakari þjónusta en hjá Bains de Marrakech en aðeins ódýrara. Heimasíðan.
- Le Bain de Bleu – Þetta baðhús fær ágæta dóma og er hreinlegt og fallegt þó aftur sjái þess ekki merki utanfrá. Heimasíðan.
Í grennd við Marrakech eru þrír golfvellir. Þeir eru engu síðri en það besta sem gerist í Evrópu. Getur ritstjórn mælt með hring á einhverjum af þeim án þess að hika. Sama gildir þó og um baðhúsin að vænlegast er að panta teig með fyrirvara.
Eitt er það sem Marokkó er heimsþekkt fyrir en það er myntuteið þeirra. Svo undarlegt sem það hljómar þá bragðast það stórkostlega og hressandi og gildir þá einu hvort fólk er lítið eða mikið fyrir te. Næst sérstakt bragðið ekki aðeins með myntunni heldur og með vatninu og sérstaklega með að hella því fimm til sex sinnum í tekönnurnar áður en það er fram borið.
Verslun og viðskipti
Verðlag í Marrakesh er ekki ýkja notendavænt fyrir Frónbúa. Í gamla bænum er jú hægt að versla fínustu krydd og minjagripi, teppi og skart á sæmilegu verði með prútti en hvað hefðbundinn tískufatnað varðar eru verslanir hér dýrari en sambærilega verslanir á Íslandi.
Mat er þó hægt að innbyrða án þess að kafa of djúpt í pyngju. Hér kostar góð máltíð á ágætum stað milli 600 og þúsund krónur og reyndar allt niður í 200 krónur ef menn grípa snarl á götu úti.
Hótel og gisting kostar hér svipað og á Spáni ef það segir fólki eitthvað. Gisting í gistihúsi, riad, kostar milli fimm og tíu þúsund nóttin.
Líf og limir
Töluvert er um glæpi í Marrakesh og er þjófnaður þar fremst í flokki. Þá er kvenfólk áreitt töluvert af karlpeningnum hér og getur það áreiti orðið alvarlegt. Stöku vopnaðar árásir á ferðamenn hafa átt sér hér stað og það jafnvel á miðjum degi.
Verst er þó ágengi sölumanna sem fer mjög fram úr hófi á flestum fjölförnum götum. Er það vægast sagt leiðigjarnt.
Varann skal hafa á sér við matar- og vatnskaup. Vatnið, jafnvel í flöskum, er ekki upp á marga fiska og sumum ferðamönnum verður illt af. Sömuleiðis er vissara að fara varlega í skyndibitakaup á götum úti.