Skip to main content
I guazu fossar eru sannarlega meðal undra hins náttúrulega heims. Þessir gríðarlegu fossar sem standa á landamærum Brasilíu og Argentínu eru af mörgum taldir fegurri og mikilfenglegri en stórkostlegir Viktoríufossarnir á landamærum Zimbabwe og Zambíu í Afríku.

Fossarnir sjálfir og töluvert svæði í kring tilheyra sérstökum Iguazu þjóðgarði og þess svæðis alls vandlega gætt enda hefur gríðarlegur ágangur ferðamanna síðustu áratugina haft sjáanleg áhrif til hins verra á svæðinu.

Fossar Iguazu eru alls 270 talsins. Mynd vteen

Fossar Iguazu eru alls 270 talsins. Mynd vteen

Tveir þriðju hlutar þjóðgarðsins og þar með flestir fossarnir liggja innan landamæra Argentínu og ber flestum saman um að betri aðgangur sé þeim megin til skoðunar en að fossunum er komist frá Foz de Iguaçu Brasilíumegin, Cuidad del Este frá Paragvaí og Puerto de Iguzaú í Argentínu. Þar er einnig lest sem flytur fólk milli mismunandi skoðunarstaða en búið er að koma fyrir brúm, pöllum og meira að segja lyftu til að auðvelda skoðun frá hinum ýmsu sjónarhornum. Þrátt fyrir það er það álit flestra að það sé Brasilíumegin sem útsýnið er hvað stórkostlegast þó aðgangur sé takmarkaðri.

Fossarnir glæsilegu ná yfir svæði sem er tæplega þriggja kílómetra langt. Mynd vteen

Fossarnir glæsilegu ná yfir svæði sem er tæplega þriggja kílómetra langt. Mynd vteen

Svo undarlegt sem það er gleymdust þessir ógleymanlegu fossar lengi vel. Þá fann fyrstur svo vitað sé, að frátöldum indjánum sem á svæðinu hafa búið um aldaraðir, spænskur landkönnuður árið 1541 en svo liðu rúm 300 ár áður en þeir „fundust“ aftur. Þá uppgötvaði þá maður að nafni Borselli sem var að leita þeirra og hafði gert um töluverðan tíma.

Hæstu fossarnir eru 82 metra háir. Töluvert hærri en Hallgrímskirkja. Mynd juanomore

Hæstu fossarnir eru 82 metra háir. Töluvert hærri en Hallgrímskirkja. Mynd juanomore

Sagan segir að fossarnir hafi orðið til þegar Guð langaði að kvænast stórglæsilegri konu úr skóginum en henni lítt litist á þann ráðahag enda ástfangin af dauðlegum manni. Hún hafi því flúið með ástvini sínum á kanó niður ána og við það svo fokið í guðinn að hann klauf Iguazu til helminga. Með því dæmdi hann elskendurna til eilífs falls niður fossana.

Mikilfenglegasti fossinn af þeim öllum er Garganta de Diablo, háls djöfulsins, en þar er bæði hæðin mest og sá er aflmestur þeirra fossa sem prýða Iguazu. Hann er 82 metra hár eða töluvert hærri en kirkja Hallgríms á Skólavörðustíg. Miðja hans táknar landamæri Brasilíu og Argentínu.

Iguazu-fossar eru í öllu tilliti algjört skrímsli að stærð. Mörgum þykir nóg um að sjá Viktoríufossa í Afríku með eigin augum. Þeir vissulega 20 metrum hærri en Iguazu þar sem fallið er hæst en þá lýkur öllum samanburði. Iguazu ná yfir hartnær tvöfalt stærra svæði en Viktoríufossar og vatnsmagnið er margfalt meira. Á regntímum getur vatnsmagnið farið yfir 13 þúsund kúbikmetra á hverri sekúndu.

Þá má heldur ekki gleyma að fossarnir standa strangt til tekið í miðjum frumskógi þó hin mannlega hönd hafi vissulega breytt miklu hér um slóðir. Þess vegna getur fólk á leið til eða frá rekist á mörg hin kostulegustu dýr á borð við jagúar. Allt slíkt er auðvitað stór bónus.

Nægt framboð er á gistingu við fossana bæði Argentínu- og Brasilíumegin. Einnig í Paragvaí er hægt að finna húsaskjól en það í fátæklegri kantinum. Bæði í bæjunum Porto Iguazu í Argentínu og Foz í Brasilíu er að finna töluverðan fjölda ágætra hótela en báðir bæir eru í rösklega tólf kílómetra fjarlægð frá fossunum sjálfum. Báðir bæir búa yfir flugvelli sem er vinsælasta leiðin til og frá Iguzu. Þá eru líka nokkur hótel innan þjóðgarðsins sjálfs með útsýn yfir fossana að hluta. Frægast þeirra sennilega Hotel das Cataratas í Brasilíu sem er svo nálægt að heyra má niðinn frá öflugum fossunum öllum stundum.