A llar götur síðan heilagur Jakob gekk sinn veg allan til Santiago de Compostela á Spáni á árum áður hefur það þótt vera afar móðins að feta hans fótspor og hefur undanfarin ár orðið sprenging í fjölda fólks sem lætur sig hafa að þramma þá leiðina þó löng og erfið sé.

Reiðhjól og hesta og jafnvel rútur líka. Ýmsar leiðir til að stytta þrautagönguna til Santiago eftir Jakobsveginum. Mynd Jesus Perez Pacheco

Reiðhjól og hesta og jafnvel rútur líka. Ýmsar leiðir til að stytta þrautagönguna til Santiago eftir Jakobsveginum. Mynd Jesus Perez Pacheco

Með stórauknum fjölda fólks á ferðinni um svipað leyti eins og lesa má um hér, er óhjákvæmilegt að kostnaður aukist enda á flestum gisti- og matsölustöðum eftirspurn talsvert umfram framboð þegar flestir ganga þessa leið snemma á vorin eða seint á haustin.

Af þeim sökum hefur færst í vöxt að bjóða áhugasömum það sem Fararheill kallar diet-ferðir eða „Jakobsvegur læt“ þar sem fólk gengur spotta og spotta af veginum fræga en nýtur þjónustu vélknúinna ökutækja þess á milli. Þannig þarf enginn að burðast með þunga bakpoka né hafa áhyggjur af megnri táfýlu í næsta næturskýli. Með öðrum orðum; fyrir fólk sem annaðhvort hefur ekki getu til að labba leiðina alla eða vill njóta smá lystisemda svona í og með bröltinu.

Æði margir kjósa að „svindla“ aðeins með þeim hætti. Spænsk ferðamálayfirvöld áætla að allt að þrjú prósent þeirra sem segjast ganga veg Jakobs geri það í raun hjólandi. Þekkt er líka meðal Spánverja sjálfra að fara leiðina á hestum.

Almennt má segja að í þessum „léttferðum“ gangi fólk rúmlega 200 kílómetra af þeim sjö hundruð sem alla jafna telja hina vinsælu frönsku leið, camino francés, um Jakobsveg frá Pýreneafjöllum. Þeir hinir sömu þurfa ekki annað að bera en vatnsflösku og sleppa því afar létt frá öllu saman. Þess er þó gætt að stoppað sé á réttum næturstöðum til að fá þartilgerðan stimpil sem svo veitir syndaaflausn þegar á leiðarenda til Santiago er komið.

Í ofanálag er líka gist á mun betri stöðum en í fjöldasambýlum og jafnvel gefst færi að sleppa úr degi og degi, kasta mæðinni og njóta rauðvíns í stað hælsæris. Við þetta fyrirkomulag er annar stór plús og hann sá að það gefur færi að skoða sig aðeins um í bæjum og þorpum sem nánast finnast ekki á kortum og fólk myndi aldrei heimsækja þess utan. Mörg þorpin á leiðinni eru kannski ekki mikið fyrir augað en stemmningin og vinalegheit bæjarbúa í þeim flestum bæta það upp og gott betur 🙂