Skip to main content

Þ ó ár og dagar séu síðan göngugarpar sem þrömmuðu þvert yfir Spán, Frakkland og jafnvel víðar að fengu syndaaflausn við komu sína til dómkirkjunnar í Santiago de Compostela hefur lítið breyst. Veginn þann, Jakobsveg, ganga enn tugþúsundir í hverjum mánuði enn þann dag í dag.

Löng gangan um Jakobsveginn heillar sífellt fleiri. Mynd Carlos Octavio Utanga

Löng gangan um Jakobsveginn heillar sífellt fleiri. Mynd Carlos Octavio Utanga

Það er meira en að segja að ákveða að ganga leið Jakobs. Nú á dögum leggja margir í hann frá Píreneafjöllum og þá gjarnan frá borginni Pamplona í Navarra héraði. Sá leiðangur tekur jafnvel harðasta göngufólk ekki minna en 30 daga. Enn aðrir leggja í hann frá frönskum borgum á borð við Le Puy, Arles eða Tours og ganga yfir Píreneafjöllin í leiðinni. Ekki er heldur óþekkt að fólk leggi í hann alla leið frá Mið Evrópu.

Vinsælasta leiðin er engu að síður sú franska; Camino francés, frá Píreneafjöllunum en þaðan eru gróflega 750 kílómetrar til Santiago. Samkvæmt upplýsingum frá ferðamálastofu Navarra er áætlað að frá Pírineafjöllum fari um 90 þúsund einstaklingar af stað til Santiago de Compostela og langflestir leggja í hann á vorin eða í september þegar hitastækja er minni og viðráðanlegri. Fjölgar þeim jafnt og þétt sem þátt taka eftir því sem nær dregur og hátt í ein milljón ferðamanna sækja Compostela heim árlega. Stór hluti þeirra hafa gengið eða hjólað Jakobsveginn.

Hitinn veitist mörgum um megn og árlega þarf að kalla til sjúkralið til að annast töluverðan fjölda fólks sem hefur örmagnast á leiðinni. Þaulvanir göngumenn segja gönguna mjög erfiða. Það helgast bæði af því að leiðin liggur töluvert upp og niður sveitir og dali en aðalorök þess að fólk gefst upp er þó hitinn. Í 30 plús gráðum geta menn svitnað við það eitt að draga andann og í viðbót við bakpoka fulla af fatnaði er þörf að taka með tölvert magn af vatni jafnvel þó fjöldi bæja og gistihúsa sé á leiðinni og þörfin því ekki eins brýn og ætla mætti.

Þó fræðilega finnir alls fimm mismunandi pílagrímsleiðir til Santiago er sú franska, camino francés, langvinsælust.

Á leiðarenda segja margir að sýnin yfir dómkirkjuna í Santiago geri allt erfiðið þess virði og sú kirkja er án alls efa ein sú allra fallegasta í veröldinni. Kirkjuyfirvöld reyna reyndar einnig að verðlauna alla þá sem ferðalagið leggja á sig og veita þeim er standast reglur þar að lútandi viðurkenningu á leiðarenda. Þarf göngugarpurinn að fá staðfestingu á því á hverjum áfangastað á leiðinni til að vera gjaldgengur en kirkjan hefur reyndar gefið nokkurn afslátt á þessu síðustu árin. Nægir nú að labba síðustu hundrað kílómetrana eða hjóla síðustu tvö hundruð kílómetrana til að fá stimpil heilagrar kirkjunnar í Compostela.

Hægt er að fara þessa leið á ódýran máta enda gistihús á leiðinni fæst ýkja dýr þó það telji duglega þegar saman er komið. Engu að síður segja tveir Íslendingar sem fóru Jakobsveg fyrir fáum árum að kostnaður við mánaðarlangt ferðalagið yfir norðurhluta Spánar hefði á endanum vart verið undir 250 þúsundum á mann þegar allt var til talið. Var þá eingöngu gist á ódýrum gistihúsum alla ferðina sem tók 34 daga frá Pamplóna.

Hvað þarf að hafa í huga fyrir slíka ferð?

Fyrst og fremst þarf fólk að vera í ágætu formi líkamlega. Jafnvel þó gengið sé á allra rólegasta máta er hitinn oftast yfirþyrmandi og stór hluti leiðarinnar er á berangri þar sem skjól er ekkert.

♥  Áhugasamir þurfa fyrst að velja sér leið við hæfi. Skal ganga frá Píreneafjöllunum eða hefja gönguna síðar á leiðinni? Það er um fjölmargar leiðir að ræða og aðeins innan Spánar eru sjö formlegar merktar leiðir fyrir utan allar þær er hefjast í öðrum löndum.

♥  Ákveða þarf hvort ganga á leiðina, hjóla eða fara á öðrum fararkosti. Stöku einstaklingar reyna ferðalagið á hestbaki og jafnvel á ösnum en það er vandkvæðum bundið þar sem ekki er aðstaða fyrir dýrin á mörgum áningarstöðunum.

♥  Ákveða þarf tímasetningar. Labbandi tekur ferðalagið aldrei minna en 27 til 28 daga fyrir þá allra hraustustu sé gangan hafin í Píreneafjöllum. Nær lagi er að gera ráð fyrir 32 til 35 dögum til þess arna sé farið fótgangandi. Á hjóli tekur rúntur Jakobs ekki lengur en tólf daga. Maí og júní eru vinsælastir en september og jafnvel október betri með tilliti til hitans jafnvel þó þá sé hætta á rigningum á leiðinni.

♥  Gera skal ráð fyrir að ganga aðeins snemma á morgnana til að spara orku en ekki síður til að skoða sig um síðdegis í þeim bæjum og borgum sem leiðin liggur um. Víðast hvar er að sjá og skoða forvitnilega hluti á leiðinni.

Hvað skal hafa með?

  • Höfuðfat, sólgleraugu og sólarvörn

  • Tvo til þrjá stuttermaboli, tvennar buxur og nærföt til skiptanna.

  • Vegabréf, kort og bréf frá kaþólsku kirkjunni sem veitir þér rétt sem formlegur pílagrími á leiðinni.

  • Léttir skór

  • Svefnpoki

  • Sjávarskel (sem er opinbert merki pílagríma og er skelin gjarnan hengd á bakpokann)

  • Bakpoki sem helst má ekki vera þyngri en tíu kíló. Í honum þarf að vera handklæði, sápa, vatn, hnífapar, koddi og kreditkort og peningar.