Ý mislegt miður má segja um fyrrum bankajöfurinn Björgólf Guðmundsson sem um tíma átti Ísland með húð og hári. Þó verður seint sagt um karlinn að hann hafi ekki góðan smekk. Allavega hvað varðar að kaupa sér sumarhús á fyrsta flokks stað.
Sá staður er Cascais í Portúgal og eftir tvær komur þangað getur ritstjórn Fararheill vottað að þar er virkilega frábært að vera. Þetta er sumardvalarstaður en með þeim formerkjum þó að hér eiga ríkir flestar eignir og fyrir vikið er allt hér extra fínt og fyrsta flokks. Næsti bær við Cascais, Estoril, er almennt ódýrari áfangastaður en þar er líka töluvert meira af fólki.
Cascais er svefnbær í því tilliti að margir sem hér búa starfa í höfuðborginni en íbúafjöldinn er alls um 35 þúsund manns í heildina. Einhver útgerð er enn hér líka en ferðaþjónusta er þó það sem mest gefur íbúum í aðra hönd.
Sé veskið tómlegt er ráð að láta tvo tíma duga hér og leyfa sér mat og drykk og þjónustu í nágrannabænum Estoril enda verðlag almennt pínulítið hærra í Cascais.
Til og frá
Til Cascais er aðeins komist bílandi eða með lest. Frá Cais do Sodré stöð í Lissabon tekur lestartúr hingað um 40 mínútur en kostnaðurinn aðeins um 400 krónur á mann í almennu farrými. Sjá tímatöflu og áætlun hér. Svipaðan tíma tekur að fara með bíl.
Til umhugsunar: Það er eitt afar sérstakt við að koma með lest bæði til Estoril og Cascais því lestarstöðvarnar eru staðsettar við ströndina í báðum bæjum. Er það nokkur upplifun.
Samgöngur og snatterí
Bærinn er lítill og engin einasta þörf á farartæki til að njóta hér lífsins og sjá það sem merkilegt er. Hér fer þó lítill strætisvagn um reglulega og tekur lítinn hring í bænum sé ekki nenna til að labba.
Söfn og sjónarspil
> Höll Castro Guimarães (Museu Condes de Castro Guimarães) – Þó milljarðamæringar margir eigi hér afar glæsilegt og falleg hús víða eru nokkur sem standa sérstaklega upp úr. Helst ber þar að nefna þessa höll sem er nú opin almenningi en hún var byggð fyrir moldríkan sjéntilmann snemma á 2o. öld hvers nafn skiptir engu máli. Fyrir utan íburðinn og frábæra staðsetningu þykir arkitektúrinn merkilegur og hefur verið framúrstefnulegur á sínum tíma. Til dæmis er hér að finna upprunalega blásið gler í nokkrum híbýlum. Hér er safn 25 þúsund bóka sé einhver sleipur í tungumálinu og undir húsinu er fjöldi hella sem einnig er mögulegt að litast um í. Avenida Humberto II de Itália. Opið þriðjudaga til laugardaga milli 10 og 17. Aðgangseyrir 250 krónur.
> Farol Santa Maria vitinn (Farol Museu de Santa Maria) – Gamalt vitahús á háum kletti sem hægt er að skoða og berja útsýn augum frá toppnum. Rua do Farol. Opið 10 til 19 daglega yfir sumartímann. Ókeypis aðgangur.
> Menningarmiðstöð Cascais (Centro Cultural de Cascais) – Saga bæjarins í máli og myndum og hýst í gömlu fallegu klaustri. Avenida do Humberto II de Itália. Opið 10 – 18:30 daglega nema mánudaga. Heimasíðan.
> Borgarvirkið (Cascais Cidadela) – Ekkert er eftir af gömlu borgarvirki bæjarsins nema þessi kastali sem um tíma var dvalarstaður portúgalska konungsins og fjölskyldu hans eftir að þau uppgötvuðu yndissemdir Cascais. Hér er líka lítið safn utandyra þar sem skoða má þau tæki og tól sem brúkuð voru við varnir bæjarsins á sínum tíma. Avenida Dos Carlos. Opið virka daga 10 til 17.
> Sagnahúsið (Casa das Historias) – Safn tileinkað einum fremsta listamanni Portúgals Paulu Rego. Hér eru verk hennar til sýnis auk þess sem aðrar sýningar eru hér reglulega. Byggingin sjálf skemmtileg og alveg þess virði að kynna sér Rego og hennar verk í tvær til þrjár stundir eða svo. Avenida da República. Opið alla daga 10 til 19 og frítt inn. Heimasíðan.
> Munnur helvítis (Boca do Inferno) – Ekki er víst að sumardvalargestir upplifi Munn helvítis svo mikið en staðurinn er svo nefndur vegna þess að þegar sjór er úfinn skellur hann gjarnan inn í helli á þessum stað með slíkum hætti að dúndrandi hvellur heyrist vítt um nágrennið.
> Seixas húsið (Casa Seixas) – Glæsileg bygging kennd við Henrique Seixas sem hana byggði 1918 á rústum þess sem áður var hluti af borgarvirki Cascais. Ekki er mögulegt að skoða hana að innan en rölt í kringum hana er þess virði.
> Sjósundlaugin (Piscina Oceânica de Cascais) – Standi fólki, einhverra hluta vegna, stuggur af því að henda sér í sjóinn er til önnur leið í Cascais. Hér er manngerð sjósundlaug í flæðarmálinu sem óhætt er að bleyta sig í. Bar og veitingastaður á sama stað svo stutt er í dúllerí á kantinum.
Verslun og viðskipti
Stutt og laggott nei að frátöldum svaladrykkjum og slíkum nauðsynjum í hitanum. Verslanir eru hér fáar og verðlag eins og áður sagði hærra en til dæmis í Lissabon.
Að því sögðu er ekki fráleitt að kíkja inn í Cascais Villa sem er lítil verslunarmiðstöð á miðbæjarsvæðinu og auðfundin.
Matur og mjöður
Saltfiskur, saltfiskur og saltfiskur. Hann fæst hér og saltfiskur í meðförum Portúgala klikkar aldrei. Allnokkur hefðbundin strandbæja veitingahús í lélegri kantinum eru hér. Tveir veitingastaður fá þó sérstaklega fínar einkunnir meðal ferðafólks. Það eru Fortaleza do Guincho og Hemingway.
Alls eru yfir hundrað veitingastaðir í bænum og fólk ætti alls ekki að vera hrædd við að prófa eins marga og komist er yfir.
Golf og gleðistundir
Tveir golfvellir eru í nálægð við Cascais en báðir reyndar í dýrari kantinum eins og annað á þessum slóðum. Quinta da Marinha er stórglæsilegur völlur í 10 mínútna fjarlægð frá bænum. Utanaðkomandi þurfa þó að greiða litlar 14 þúsund krónur fyrir hring hér.
Hinn er örlítið fjær, 15 til 20 mínútur, frá Cascais. Oitavos Dunes heitir sá en ekki kemur frá á heimasíðu hvað hringur þar kostar.
Líf og limir
Engar stóráhyggjur hér. Smáþjófnaður í einhverjum mæli en annað ekki.
View Allt sem þú vildir vita um Cascais í Portúgal in a larger map