Skip to main content

M rosandi andlit og fallegir staðir. Svo hljóðar mottó heimamanna í Marmaris og er það vel. Nema hvað sá ljóður er á að bros margra þeirra dugar aðeins þangað til greitt er fyrir gefna þjónustu. Og enginn skortur er á viðskiptunum því hingað sækja 500 þúsund ferðamenn yfir sumartímann og margfalda þannig íbúafjöldann sem telur aðeins 29 þúsund.

Svo rammt kveður að vinsældum Marmaris að hún er á mörkum þess að vera mjög ferðamannavæn. Það helgast af því að hér er ekki fótað fyrir ferðafólki á aðalgötum bæjarins. Bið er regla fremur en undantekning á veitingastaði og ekki síður á áhugaverða staði í borginni og skammt frá. Falleg ströndin er pökkuð frá morgni til kvölds og sá er ljónheppinn sem nær þar einhverri afslöppun sökum hávaða og láta. Hávaði er líka normið á kvöldin en næturlífið í Marmaris á ferðamannatíma er með þeim líflegri í Evrópu allri.

Eðli málsins samkvæmt heillar þessi fjöldi ferðamanna smáglæpamenn og þjófnaðir því algengir. Þá er aukning á alvarlegri glæpum og fregnir berast annars lagið af árásum á ferðafólk.

Að þessu sögðu er bærinn og ekki síst flóinn sem hann stendur við afskaplega yndislegir. Mitt milli tveggja fjalla og flóinn er paradís fyrir kafara enda litlir hafstraumar hér og mikið sjávarlíf. Hérna er líklegast stórkostlegt að vera nái fólk að dvelja hér áður en herskari Breta og Þjóðverja leggja staðinn undir sig á sumrin.

Til og frá Marmaris

Næsti flugvöllur er í klukkustundar fjarlægð frá bænum. Dalaman flugvöllurinn heitir sá og er tiltölulega einfaldur. Velflestir koma hingað í skipulegum ferðum og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að komast á milli en ekki margir möguleikar eru í boði sé svo ekki.

Vænlegast er sennilega að taka skutlu, Havas, frá vellinum. Slíkar henda fólki til og frá á 90 mínútum og kostar ferðin um 2.300 krónur á mann. Skutlur þessar eru ekki leigubílar heldur getur hver sem er flaggað þær á ferðum sínum. Greiða skal við upphaf eða lok ferðarinnar.

Leigubílar, Taksi, eru hér líka og velflestir brúka mæla. Hægt er að ná samkomulagi sé enginn mælir en gera skal ráð fyrir 15 prósenta þóknun ofan á verðið. Leigubíll til Marmaris er þó dýrkeyptur og kostar túrinn vart undir 10 þúsund krónum.

Til umhugsunar: Hægt er að komast milli Marmaris og grísku eyjunnar Rhodos með svifnökkva yfir sumartímann. Sá túr tekur aðeins rétt rúma klukkustund og kostar farið aðra leiðina 12 þúsund krónur.

Samgöngur og snatterí

Í bænum sjálfum er vart þörf á eigin ökutæki enda nóg af hefðbundnum leigubílum sem og dolmus vögnum. Þá fara héðan rútur til nágrannabæja. Leigubílar eru þó almennt dýrir hér og best að sleppa þeim sé þess kostur.

Bærinn er tiltölulega stór og gefa skal sér góða stund sé ætlunin að rölta um allt. Það er vel hægt en tímafrekt auk þess sem bærinn per se hefur ekki svo mikið upp á að bjóða fyrir utan fallega náttúru og stórkostlega legu.

Söfn og sjónarspil

>> Amos borgarrústirnar (Amos Antique City) – Í hæðunum fyrir ofan borgina í Kumlubük hverfinu er að finna rústur Amos borgar sem svo er kölluð. Er nett fróðlegt að skoða þær enda rekja fræðingar þá borg aftur 200 ár fyrir Kristsburð. Þó er ekki svo ýkja mikið að sjá.

>> Marmaris kastali (Marmaris Castle) – Þessi lætur svosem ekki mikið yfir sér en er ágætur skoðunar þegar bruni kemur í veg fyrir meiri sólsleikju. Hann er staðsettur í miðbænum við ströndina og því ekki langt að fara. Hann var byggður 1522 og inni er safn um tilurð hans og sögu svæðisins. Það safn er aðeins opið á sumrin milli 9 og 12 og aftur milli 13 og 18.

Til umhugsunar: Tyrknesk baðhús eru álíka ómissandi í Tyrklandi og skyr á Íslandi og alveg þess virði að prófa slíkt hafi það ekki verið gert áður eða kannski sérstaklega ef slíkt hefur verið gert áður. Baðhúsið Armutalan Hamam er vinsælast þeirra í Marmaris sökum hreinleika. Það er staðsett við Datça Caddesi hjá spítalanum.

Verslun og viðskipti

Tyrkir eru ágengir sölumenn og enginn skortur er á þeim í Marmaris. Mikill fjöldi smærri verslana með allt sem ferðamannahugur girnist eru á hverju strái. Heldur er enginn skortur á sölumönnum sem setja upp bása sína þar sem hentar eða bjóða vörur sínar og glingur á ferðinni.

Ekki er hægt að segja að hægt sé að versla neitt af alvöru hér nema þá kannski tyrknesk teppi og nóg er af gull og silfurverslunum hér sem bjóða alvöru vöru en prísinn er brattur og miðast við vestræn veski.

Matur og mjöður

Hefðbundið sólarstrandaúrval af veitingastöðum og börum er hér til staðar. Nóg af skítsæmilegum stöðum við ströndina og þar er kjaftfullt af fólki allan liðlangan daginn.

Skammt frá ströndinni er Barstrætið svokallaða þar sem í einni og sömu götu er vart nokkuð nema barir. Þar er stuð og stemmning alla daga sumarsins en kannski helst fyrir yngra fólkið.

Hafa skal í huga að úrval falsvara er hér mikið og meira að segja töluvert í verslununum líka.

Líf og limir

Engin lög eru gegn ágengni en tyrkneskir sölumenn eru margir afskaplega í andlitinu á fólki og hleypa því ekki svo glatt úr verslunum sínum. Staðfestni er góð hér. Sama gildir um stúlkur og konur sem fá mikla athygli frá karlkyns heimamönnum og fer fyrir taugar á mörgum.

Fara skal varlega yfir götur. Tyrkir aka ekki eins og fólk er flest og gangbrautir ekki endilega neitt til að stoppa við.

Þó vart þurfi að taka það fram fer hitastig hér yfir sumartímann allt upp í 45 gráður. Sólarvörn er bráðnauðsynleg og helst hattar líka eða annað til að skýla hausnum.

Til umhugsunar: Nokkuð er um svindl hér meðal kaupmanna. Skal í öllum tilfellum fá kvittun fyrir stærri eða dýrari varningi og leiki grunur á að svindlað hafi verið með þig skal láta lögreglu vita. Eru menn þar vanir slíkum kvörtunum.

View Larger Map